Í dag eru 20 ár liðin frá því að mannskætt snjóflóð féll á 15 hús í Súðavík. 26 manns voru í húsunum þegar flóðið féll snemma að morgni og fórust fjórtán, þar af átta börn.
Aðstæður voru allar hinar erfiðustu til björgunar þar sem afar slæmt veður var bæði daginn sem flóðið fékk og daginn eftir. Þrátt fyrir það var unnið þrotlaust við björgunarstörf. Fyrst kom liðsauki frá Ísafirði og daginn eftir að flóðið féll komu björgunarsveitarmenn og heilbrigðisstarfsfólk frá Reykjavík með varðskipinu Tý. Björgunarfólk setti sig í töluverða hættu því enn var hætta á frekari snjóflóðum.
Atburðurinn hafði mikil áhrif á þjóðina og sýndu margir samúð. Vigdís Finnbogadóttir forseti Íslands sagði atburðina sýna að ekki væri enn hægt að ráða við þetta land þrátt fyrir alla þá tækni sem þjóðin byggi yfir.
Rúv.is rifjar þessa atburði upp í dag og hér er fjallað um flóðið sjálft og björgunaraðgerðirnar.