Úrvinnsla skáldanna lítil
Spyrja má hvers vegna spænska veikin hafi ekki orðið fleiri skáldum innblástur í íslenskri bókmenntasögu. Þetta er skæðasti faraldur í nútímasögu mannsins þar sem fleiri létust á örfáum mánuðum en í allri fyrri heimsstyrjöldinni og þeirri síðari. Miðað við hve umfangsmikill viðburður þetta var mætti því spyrja sig hvers vegna ekki sé til meira af sögum um spænsku veikina. Ótal frásagnir eru til af hryllilegum aðbúnaði og örlögum sýktra og fjölskyldna þeirra.
Það má nefna sárafáar bækur sem gera atlögu að því að færa þessar sögur fram. Í Mánasteini eftir Sjón er spænska veikin og Kötlugosið sviðsmynd sögunnar þó svo hún fjalli ekki beinlínis um afleiðingarnar. Það er í skáldsögu Gunnars Gunnarssonar, Sælir eru einfaldir (Sel er de enfelde) frá 1920 þar sem spænska veikin er beinlínis örlagavaldur í sögunni.
Í henni færir Gunnar sig, þá ungur rithöfundur, frá sveitarómantík yfir í sögur af borginni. Eða þorpinu Reykjavík. Sælir eru einfaldir gerist á 7 örlagaríkum dögum, þegar farsótt geisar í Reykjavík og eldgos þrumar í austri. Sagan segir frá Grími Elliðagrími, virtum og vinsælum lækni í Reykjavík, hvers heimsmynd hrynur við það að reyna að meðhöndla hundruð sjúkra borgarbúa.
Sögumaður er Jón Oddson, ungur maður sem lýsir reynslu sinni af atburðunum og eigin aðgerðum til að reyna að hjálpa lækninum Grími að meðhöndla sjúkdóminn um allan bæ. Margir kaflanna enda á lýsingu á gosmekkinum úr Kötlu og sjónarspilinu sem honum fylgir, sem merki um dómsdaginn, endalokin sem vofa yfir sama hvað.
1918 var ekki upphaf heldur endalok
Það eru einmitt endalokin sem eru Gunnari hjartfólgin í Sælir eru einfaldir ásamt öðrum fremur myrkum og tilvistarlegum fyrri skáldsögum. Gunnar samsamaði sig á þeim tíma mun frekar við borgarastéttina í Mið-Evrópu. Í hans huga, líkt og annarra á meginlandinu, varð gildishrun í fyrri heimsstyrjöldinni. Heimsmyndin sem reist var á borgaralegum gildum og trú á merkingu og æðri mátt, var rústir einar.
Dæmigert er að hið einangraða Ísland upplifi stóra alþjóðlega atburði sögunnar með öfugum formerkjum. Árið 1918 er gjarnan talið marka upphaf nútímasögu Íslands í ljósi þess að stjórnmálasagan stilli því þannig upp. Árið er upphaf þess sem Íslendingar höfðu stefnt svo lengi að og barist fyrir, að öðlast fullveldi og sjálfsmynd. Í augum Gunnars Gunnarssonar var þessu öðruvísi farið; Árið 1918 markaði ekki upphaf heldur endalok.