Fyrirtækið Storm orka stefnir á að reisa vindmyllugarð í Dölunum sem gæti kostað 15 til 20 milljarða króna. Framkvæmdastjórinn segir að vindorka sé næsta skref í orkumálum Íslendinga. Hann gerir sér vonir um að garðurinn rísi eftir þrjú ár.
Vindorka næstu skref
Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri áætlar að um tíu fyrirtæki sækist nú eftir því að koma upp vindmyllugörðum á Íslandi. Eins og kom fram í Speglinum í gær er regluverkið um vindmyllur óljóst og óvíst hvenær eða hvort þessir garðar verða að veruleika. Fyrirtækið Storm orka er eitt þessara fyrirtækja og undirbýr vindmyllugarð að Hróðnýjarstöðum í Dalasýslu. Eigendur fyrirtækisins eru bræðurnir Magnús B. og Sigurður E. Jóhannessynir. Sigurður hefur tíu ára reynslu af umhverfistengdum verkefnum og Magnús hefur starfað í 20 ár við uppbyggingu endurnýjanlegrar orku, m.a. í Bandaríkjunum.
„Næsta skref í orkumálum Íslendinga er að mínu viti vindorka,“ segir Magnús. Hann bendir á að vindorkan sé orðin samkeppnishæf við bæði vatnsafl og jarðvarma. Þess vegna sé hún álitlegur kostur. Hún sé algjörlega endurnýjanleg orka og afturkræf.
„Þessi vindorkugarður sem við erum að vinna að, ef að hann kemst á koppinn, getum við farið í það þegar vélarnar eru búnar, að taka þær niður og þá sjást engin ummerki um þetta verkefni,“ segir Magnús.
Allt að 130 megavött
Þeir bræður vinna nú að því að koma upp vindmyllugarði að Hróðnýjarstöðum og miðað er við að hann verði 80 til 130 megavött. En hvert er viðskiptamódel þeirra? Í Evrópu er hægt að selja vindorku milli landamæra en hér snýst þetta um að selja vindorku í kerfi sem bundið er við Ísland.
„Eini munurinn á því eru tengingar við umheiminn. Íslendingar hafa flutt út raforku í áratugi en við höfum bara gert það í gegnum ál. Þannig að í staðinn fyrir að senda rafmagn í gegnum einhvern streng til viðskiptavinar sem er annars staðar þá skiptir ekki máli í raun í mínum huga hvar sá viðskiptavinur er staðsettur. Við þurfum alltaf að selja orkuna til einhvers sem notar hana. Ísland er lokað kerfi og þar af leiðandi þurfum við að finna viðskiptavini hér heima til að taka við þessari orku sem við erum að fara að framleiða.“
- Hver er sá viðskiptavinur. Er ekki ykkar eina leið að selja inn á raforkudreifikerfi landsins?
„Það er hin þekkta leið og það er leiðin sem við erum að skoða. Við erum bæði að tala við Landsnet um tengingar og við erum líka að tala við hugsanlega orkukaupendur sem eru nokkrir aðilar sem koma til greina. Verkefnið er af þeirri stærðargráðu að við erum að tala um tugi megavatta. Þannig að það getur verið fleiri en einn viðskiptavinur sem við verðum að skipta við til að fullnýta og selja alla orkuna,“ segir Magnús.
Pláss fyrir töluverða vindorku
Margir sækjast eftir því að koma upp vindorkuverum. Magnús bendir á að það kosti mikið að leggja langar raflínur frá vindorkugörðum. Að leggja tugi eða hundruð kílómetra línur myndi drepa þessi verkefni. Ýmsar aðrar hindranir geta verið þegar kemur að umhverfismálum eins og til dæmis hljóðmengun og fleira. Hann segir að þegar þeir bræður ákváðu að snúa sér að vindorku hafi þeir skoðað aðstæður um allt land og niðurstaðan varð Dalabyggð. En er pláss fyrir þessa orku og hvað eru menn að tala um hver hlutur vindorkunnar geti verið?
„Ég held að það sé pláss fyrir töluverða vindorku á Íslandi. Það er erfitt að giska á hvað það er mikið. Kristalkúlan mín segir mér kannski eitt en kristalkúlan þín segir eitthvað annað. Ég get þó nefnt orkuskipti í samgöngum sem krefjast fimm til sex hundruð megavatta inn í kerfið af nýrri orku. Gagnaverin öll sem eru að spretta og munu halda á fram að spretta upp. Bara þessi tvö dæmi kefjast töluverðrar orku og það eru viðskiptavinir í lokuðu kerfi,“ segir Magnús.
15 til 20 milljarðar
Þeir bræður hafa unnið að undirbúningi í þrjú ár og búast við að hann standi í að minnsta kosti þrjú ár í viðbót. Uppfylla þurfi ýmis atriði. Menn þurfi að vera bæði þolinmóðir og bjartsýnir. Þetta sé stórt verkefni. En hvað er áætlað að það kosti?
„Svona verkefni getur kostað 15 til 20 milljarða króna þegar allt er tekið til.“
- Sjáið þið fram á að þið fáið þessa peninga til baka?
„Já, annars værum við ekki að fara í þetta. Við þurfum þá að selja orkuna á ákveðnu verði. Út frá þeim forsendum erum við búnir að reikna út að þetta verður ekki rekið með tapi. Við skulum orða það þannig. Annars værum við ekki að fara út í þetta.“
-Þið eruð ekki að bíða eftir því að sæstrengur verið lagður?
„Nei, sæstrengur er á allt annarri tímalínu en við erum á. Sæstrengur er að minnsta kosti tíu ár að verða að veruleika. Þannig að tímalínan á okkar verkefni og sæstreng eru algjörlega óskyldar,“ segir Magnús.