Bandaríski herinn og NATO ætla að verja tæpum 14 milljörðum króna til uppbyggingar og viðhalds á varnarmannvirkjum hér á landi á næstu árum. Kostnaðarþátttaka Íslands er um 400 milljónir króna.

Fyrirhugaðar eru töluverðar framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli. Þegar hafa verið gengið að tilboði íslenskra verktaka í þriggja milljarða króna framkvæmdir á vegum bandaríska hersins. Í morgun voru svo auglýst verkefni á vegum Bandaríkjamanna í íslenskum dagblöðum. Kostnaðaráætlun þeirra verkefna hljóða upp á ríflega sex milljarða íslenskra króna. 

Þetta bætist við 4,5 milljarða króna kostnað af viðhaldi á vegum Atlantshafsbandalagsins hér á landi. Áætlað er að íslenska ríkið greiði samtals um 400 milljónir króna vegna framkvæmda á vegum NATO, eða 125 milljónir á ári til ársins 2021. 

Viðhald og uppbygging

Framkvæmdunum má skipta í tvo hluta. Annars vegar er uppfærsla á ratsjárkerfum NATO umhverfis landið og hins vegar viðhald og uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli, bæði af hálfu NATO og bandaríska hersins. 

NATO og Bandaríkjaher standa fyrir endurbótum á flugskýli 831 á Keflavíkurflugvelli. Þar verður sett upp nýtt eldvarnakerfi og hurðinni breytt til þess að stórar kafbátaleitarflugvélar Bandaríkjanna komist inn í skýlið. Flugvélarnar fljúga afar lágt yfir haffletinum þegar þær leita kafbáta og þarf að þvo saltið af þeim þegar lent er í Keflavík. Fullkomið þvottaplan verður útbúið fyrir framan skýlið. 

Í steyptu flugskýlunum fyrir orrustuþotur er verið að uppfæra rafkerfi og breyta stöðlum úr amerískum yfir í evrópska. Leggja á nýjar akstursbrautir og hreinsa þær gömlu á flugvallarsvæðinu. 

Bandaríski flugherinn ætar svo að útbúa aðstöðu til búsetu í einskonar gámaíbúðum fyrir meira en þúsund hermenn inni á varnarsvæðinu. Íbúðirnar rísa ekki strax heldur verður lagt skólpkerfi í jörðu, raflagnir og annað slíkt. Nýtt og sérútbúið stæði fyrir flugvélar með hættulegan farm verður gert vestast á flugvallarsvæðinu. 

Á þetta sérútbúna svæði verður flugvélum stefnt ef þær flytja sprengjur, eldsneyti eða eitthvað slíkt. Og ef það þarf að setja heilu flugvélarnar í sóttkví verður þeim vísað á þetta svæði. Undir stæðinu verður lagt sérstakt fráveitukerfi sem skilur vatn frá olíu og öðrum spilliefnum. 

Stæðið sem nú er ætlað fyrir flugvélar með hættulegan farm er ekki búið slíku fráveitukerfi. Því verður breytt í stæði fyrir þær fjölmörgu herflugvélar sem lenda á Keflavíkurflugvelli. Í útboðinu sem auglýst var í morgun er töluverð stækkun á stæðinu boðin út.