Ein elsta verslun landsins fagnar 100 ára afmæli sínu um þessar mundir, það er verslunin Brynja sem er á miðjum Laugaveginum og þar hefur hún verið svo lengi sem elstu menn muna.

Brynjólfur Björnsson, eigandi Brynju, var gestur Morgunvaktarinnar á Rás 1 í morgun. Brynjólfur hefur starfað að fullu við verslunina síðan árið 1965, en hann var sendill þar sem ungur drengur. Það var ömmubróðir Brynjólfs, Guðmundur Jónsson, sem stofnaði verslunina.

Hún var fyrst til húsa í 3ja fermetra bakhúsi við Laugaveg 24, en síðan 1929 hefur Brynja verið til húsa að Laugavegi 29. Brynjólfur segir að þegar Guðmundur hafi stofnað Brynju hafi engin byggingavöruverslun verið í Reykjavík. 

Hún eigi sér enn þann dag í dag fjölda vina og fastakúnna, þarna hafi forsetar lýðveldisins verslað, Halldór Laxness var reglulegur viðskiptavinur og fjölmargir fastakúnnar Brynju eru utan af landi, segir Brynjólfur.

Hann segir marga erlenda ferðamenn reka inn nefið, þeir séu óvanir því að finna byggingavöruverslanir í miðborgum og finnst því gaman að heimsækja Brynju í miðborg Reykjavíkur innan um allar lundabúðirnar og veitingastaðina.

Brynjólfur er ekki sáttur við þróun umferðar við Laugaveginn. Hann segir að þetta fæli verslanir frá götunni og síðasta breytingin, að skipta um akstursstefnu á miðjum Laugaveginum, sé alger hringavitleysa sem skapi glundroða og rugling. Hann segir borgaryfirvöld lítið sem ekkert samráð hafa við verslunareigendur við götuna áður en ráðist sé í breytingar.

Hægt er að hlusta viðtalið við Brynjólf í spilaranum hér að ofan.