Um 1.300 erlendir nemendur eru í Háskóla Íslands, þar af rúmlega 600 nýnemar. Af þeim eru tæplega fjögur hundruð á eigin vegum og 235 skiptinemar. Nemendurnir koma frá níutíu þjóðlöndum og stunda nám á öllum námsstigum.
Þetta segir Friðrika Harðardóttir, forstöðumaður skrifstofu alþjóðasamskipti í Háskóla Íslands. Hún var gestur hjá Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Friðrika segir flesta koma frá Evrópu, það séu þó einnig stórir hópar frá Bandaríkjunum og víðar. Upp á síðkastið hafi nemendum frá Filippseyjum fjölgað.
Friðrika segir margt á Íslandi draga fólk að. „Ísland er vinsælt, við sjáum bara fjölda ferðamanna.“ Þá séu íslenskir háskólar orðnir mjög góðir. Til að mynda sér Háskóli Íslands kominn í sæti yfir bestu háskóla heims.
Að sögn Friðriku er mikilvægt að fá erlenda nemendur í háskólann. Það sé gott að hafa fjölbreytni í nemendahópnum. Þá laði háskólinn að sterka erlenda nemendur sem er kostur fyrir háskólasamfélagið. „Ég held það sé enginn vafi á því, að hafa erlenda nemendur auðgar okkar háskólasamfélag. Margir setjast að, auðga samfélagið og taka þátt í því.“