Dagskrárliður er ekki aðgengilegur lengur

Birt þann 5. október 2016
Aðgengilegt á vef til 3. janúar 2017

Morgunútvarpið - Dögun, innanlandsflug um Keflavíkurflugvöll, heimsmet

Eitt þeirra framboða sem ekki á sæti á Alþingi í dag en býður fram í kosningunum í lok þessa mánaðar er Dögun. Flokkurinn hefur áður boðið fram en ekki haft erindi sem erfiði hingað til. Fulltrúi Dögunar, Ragnar Þór Ingólfsson, fór yfir stefnu flokksins með okkur. Í gær afhenti iðnaðarráðherra Norðursiglingu verðlaun í hugmyndakeppni um vistvæn skip. Verðlaunin fékk Norðursigling fyrir verkefni sem gekk út á endurgerð gamals eikarbáts sem er eitt umhverfisvænasta hvalaskoðunarskip veraldar. Fyrirtækið hefur um árabil kynnt erlenda ferðamenn á Íslandi fyrir bæði hvölum og Norðurljósum. Til stendur að færa út kvíarnar til Noregs, nánar tiltekið í Tromsø þar sem boðið verður upp á hvala og norðurljósaskoðun ásamt fjallaskíðum. Við ræddum við Agnesi Árnadóttur sem stýrir útrásinni. Í gær hófst önnur vika kosningaumfjöllunar Sjónvarpsins. Í þetta sinn ræddu fulltrúar sex framboða um efnahags- og atvinnumál. Andrés Jónsson almannatengill og Lára Halla Sigurðardóttir, blaðamaður Nútímans, fóru yfir það hvernig fulltrúar framboðanna stóðu sig í gær. Innanlandsflug um Keflavíkurflugvöll verður í vetur til og frá Akureyri. Er þetta framtíð innanlandsflugs? Árni Gunnarsson, framkvæmdarstjóri Flugfélags Íslands, sagði okkur frá þessu nýja plani flugfélagsins og við spyrjum hann hvort þetta hafi áhrif á framtíð Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni. Í aðdraganda kosninga þiggja margir tæki til að færa sig nær niðurstöðu um hvernig skuli ráðstafa atkvæði. Eitt þessara tækja er kosningaviti Félagsvísindastofnunar HÍ sem staðsetur þátttakendur eins og hnit á skilgreindu pólitísku rófi. Við ræddum við Hafstein Einarsson sérfræðing hjá Félagsvísindastofnun um uppbyggingu vitans og þátttöku. „Mín óritskoðaða upplifun af fitness“ er titill pistils sem birtst á vefnum motivation.is í gær. Þar lýsti Karen Kristinsdóttir því hvernig lifrin hennar brast í kjölfar þátttöku í módelfitnesskeppni auk þess sem þátttakan hafði víðtækari líkamlegar og andlegar afleiðingar fyrir hana, en hún bjó við mikinn og stöðugan sársauka í marga mánuði eftir keppni. Við ræddum reynsluna við Karen. Í gær fékk Sigríður Ýr Unnarsdóttir loksins staðfest af starfsmönnum Guinness að hún hefði sett heimsmet í ferð á pocket-mótorhjóli um Bandaríkin. Við ræddum tíðindin við hana.