RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Viðhorf almennings til RÚV aldrei jákvæðara

Mynd með færslu
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ný viðhorfskönnun Gallup sýnir að jákvæðni þjóðarinnar gagnvart RÚV og þjónustu þess hefur ekki verið meiri frá því RÚV ohf. var stofnað árið 2007. Tæp 73% aðspurðra eru mjög eða frekar jákvæðir gagnvart Ríkisútvarpinu. Könnunin staðfestir mikla og aukna ánægju með flesta þætti starfsemi RÚV.

Aukin áhersla RÚV á fjölbreyttu íslensku efni og menningu í miðlum RÚV er að falla í góðan jarðveg.  Meirihluti svarenda eða 57% leita helst eftir íslensku efni og menningarefni í miðlum Ríkisútvarpsins. 

Flestir telja Ríkisútvarpið mikilvægasta fjölmiðil þjóðarinnar eða 68% svarenda.  Þá leita fleiri eftir fréttum og fréttatengdu efni í miðlum RÚV en annarsstaðar.

Ánægja með dagskrá Rásar 1 og RÚV sjónvarps hefur verið að aukast og 63% landsmanna eru ánægðir með efni á heimasíðu RÚV, www.ruv.is.  KrakkaRÚV, ný þjónusta við börn, fær frábæra dóma og notkun almennings og ánægja með Sarpinn hefur ekki verið meiri.

Undanfarin ár hefur jafnan yfir 70% landsmanna verið á þeirri skoðun að RÚV ætti að afla svipaðra eða meiri auglýsingatekna en nú er, það er vera áfram á auglýsingamarkaði í óbreyttri mynd. Í ár sögðust 74% vera á þessari skoðun en 86% svarenda vilja að tekjur RÚV lækki ekki.

Nánar um könnun:

Markmiðið var að kanna viðhorf til RÚV og þróun þar á. Framkvæmd af Gallup dagana 19. – 26. maí 2016.  Netkönnun með 1410 manna úrtaki af landinu öllu.  Þátttakendur voru 18 ára og eldri, handahófsvaldir úr Viðhorfshópi Gallup.  Þátttökuhlutfall var 61,3%

01.09.2016 kl.15:34
Valgeir Vilhjálmsson
Samskiptasvið
Birt undir: Í umræðunni, Í umræðunni, Viðhorfskönnun