Samantekt

Áttunda gosið á Sundhnúksgígaröðinni

Fréttastofa RÚV

,
1. apríl 2025 kl. 22:25

Fréttavakt lokið

Við segjum þetta gott frá þessari fréttavakt þar sem við höfum fylgst með áttunda eldgosinu á Sundhnúksgígaröðinni. Við höldum að sjálfsögðu áfram að færa ykkur frekari fréttir í nótt og á morgun.

Samkvæmt nýjustu upplýsingum mælist engin gosvirkni á sprungunni sem stendur og má illa greina nokkra virkni á vefmyndavélum.

Takk fyrir samfylgdina.

1. apríl 2025 kl. 22:23

Grannt fylgst með Reykjanesbrautinni

Bergþóra Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Vegagerðinni, segir eldgosið í dag ekki hafa haft bein áhrif á Reykjanesbrautina. Mikil jarðskjálftavirkni hefur verið á norðurenda kvikugangsins sem liggur nærri brautinni og var ekki talið ómögulegt að kvika myndi brjótast út nærri. Því hafi verið fylgst vel með þróun mála.

„Við höfum áhyggjur af því að það verði rekstrartruflanir á Reykjanesbrautinni og höfum haft það lengi. Bæði í þessum atburði og fyrri atburðum,“ segir Bergþóra.

Bergþóra Kristinsdóttir framkvæmdastjóri þjónustusviðs Vegagerðarinnar.
RÚV / Víðir Hólm Ólafsson

„Hvort heldur sem það er hraunrennsli eða að það verði rekstrartruflun vegna öskufalls.“

Unnið hefur verið að því að taka út aðstæður á Reykjanesbrautinni og mannvirki.

„Við höfum enn þá ekki séð neitt sem er að valda okkur neinum ugg við Reykjanesbrautina,“ segir hún. Hins vegar hafi orðið skemmdir á vegum inni í Grindavík.

1. apríl 2025 kl. 22:10 – uppfært

Engin virkni í eldgosinu en áfram skjálftavirkni

Enga gosvirkni er að sjá í vefmyndavélum og er einungis örlítil glóð sem greinist hér og þar. Sprunga opnaðist í morgun rétt norður af Grindavík og mælist áfram skjálftavirkni. Þetta kemur fram í nýjustu upplýsingum frá Veðurstofu Íslands.

Skjálftavirkni hefur mælst á um 20 kílómetra löngu svæði sem er næstlengsti kvikugangur sem myndast hefur frá því hrinan á Sundhnúksgígaröðinni hófst 10. nóvember 2023.

Á meðan áfram mælist jarðskjálftavirkni og aflögun í kvikuganginum þarf að reikna með því að ný gossprunga gæti opnast.

Dregið hefur úr skjálftavirkni við suðurhluta kvikugangsins, nærri Grindavík, en virknin á norðurenda kvikugangsins heldur áfram af svipuðum krafti og hefur færst enn norðar síðustu klukkustundir.

Gos.
Gosið í dag.RÚV / Ragnar Visage

Aflögunarmælingar sýna að kvika er enn að flæða frá Svartsengi yfir í kvikuganginn á Sundhnúksgígaröðinni. Jarðskjálftavirknin bendir til þess að kvikan sé að færast til norðausturs.

Skjálftavirknin er á um 4-6 km dýpi og unnið er að því að greina aflögunargögn á því svæði. Á meðan jarðskjálftavirkni er enn töluverð og aflögun mælist enn þá þarf að gera ráð fyrir þeim möguleika að kvika komist aftur upp á yfirborðið á Sundhnúksgígaröðinni eða nærri því svæði sem skjálftavirkni er mest. Engin merki eru þó um að kvikan sem er á ferðinni sé að leita til yfirborðs.

1. apríl 2025 kl. 19:18

Telur ólíklegt að kvika brjótist upp á norðurenda kvikugangsins

Enn mælist talsverð skjálfavirkni á norðurenda kvikugangsins sem teygir sig um 20 kílómetra frá enda til enda. Benedikt Ófeigsson, Fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands telur ólíklegt að annað gos brjótist út á næstunni. Þrátt fyrir að eldgosið í dag hafi verið lítið hafi kvikuflæði verið mikið og atburðurinn stór.

1. apríl 2025 kl. 18:39

Ekki hægt að útiloka að kvika komi upp nær Reykjanesbraut

„Þetta er stærsti atburður sem við höfum séð síðan 10. nóvember 2023,“ segir Jóhanna Malen Skúladóttir náttúruvársérfræðingur Veðurstofu Íslands.

Hún segir skjálftavirknina hafa teygt sig mjög langt norður og norðaustur fyrir Fagradalsfjall í átt að Reykjanesbraut. Í færslu á vef Veðurstofunnar segir að skjálftavirknin sé komin tæpa 9 km norðar en nyrsta gossprungan í þessari goshrinu sem myndaðist í ágúst 2024.

Kortið sýnir hversu langt kvikugangurinn hefur teygt sig frá eldgosinun við Sundhnúksgígaröðina þann 1. apríl 2025.
RÚV / Jónmundur Gíslason

Stærstu skjálftarnir hafa verið um 3 að stærð og finnast greinilega í Vogum sem er um 7 km norðvestan við virknina.

„Á meðan jarðskjálftavirkni er enn töluverð og aflögun mælist enn, þá þarf að gera ráð fyrir þeim möguleika að kvika komist aftur upp á yfirborðið á Sundhnúkagígaröðinni eða nærri því svæði sem skjálftavirkni er mest,“ segir í færslu Veðurstofunnar.

Aðspurð kveðst Jóhanna ekki getað útilokað að kvika komi upp nærri Reykjanesbraut eða Vogum en að ekki sé grunnt á kvikuganginum sem sá á um 4-6 km dýpi eins og er.

1. apríl 2025 kl. 18:12

Fékk símhringingu um skjálfta í Njarðvík

Hlöðver Kristinsson, íbúi á Strönd, sem er í kílómeters fjarlægð frá sveitarfélaginu Vogum, segist hafa fundið fyrir tveimur skjálftum í morgun, rétt áður en byrjaði að gjósa. Þeir hafi þó ekki verið neitt á við skjálfta fyrri gosa.

Mynd af Hlöðveri Kristinsyni, íbúa á Strönd við sveitarfélagið Voga.
RÚV / Kristinn Þeyr Magnússon

„Ég fékk svo símhringingu. Ekki hérna, það var í Njarðvík. Hinum megin við Stapann. Þar skalf allt fyrir hálftíma,“ segir Hlöðver.

1. apríl 2025 kl. 18:02 – uppfært

Nýjar sprungur í vegi eftir skjálfta

Hér má sjá sprungur sem myndast hafa í vegi í Grindavík vegna skjálftavirkni á svæðinu.

Sprungur í vegi í Grindavík eftir jarðskjálfta þann 1. apríl 2025 vegna eldgoss á Sundhnúksgígaröðinni.
Sprungur í vegi í Grindavík.RÚV / Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir

Sprungur í vegi í Grindavík eftir jarðskjálfta þann 1. apríl 2025 vegna eldgoss á Sundhnúksgígaröðinni.
Sprungurnar mynduðust vegna skjálftavirkni.RÚV / Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir

1. apríl 2025 kl. 17:53

Mikil skjálftavirkni í Vogum

Katrín Huld Káradóttir, íbúi í Vogum, segir skjálftavirknina í dag öðruvísi en áður þegar gosið hefur við Sundhnúksgígaröðina.

„Vegna þess að það var svo mikil skjálftavirkni eftir að gosið byrjaði. Ég var að fylgjast með þessu í sjónvarpinu og ég sat í sófanum og það voru alltaf að koma kippir. Mér fannst það svolítið skrýtið því yfirleitt þegar gosið byrjar hefur skjálftavirknin stöðvast.“

Skjáskot af Katrínu Huld Káradóttur, íbúa í Vogum.
RÚV / Kristinn Þeyr Magnússon

Þá hafi skjálftarnir verið greinilegri.

„Við höfum ekki mikið verið að finna skjálftavirkni fyrr en kannski undanfarið í nýlegri gosum. En manni finnst þetta alltaf óþægilegt. Taugakerfið fer í hönk og það eru svona ónot sem fylgir þessu,“ segir Katrín.

1. apríl 2025 kl. 17:50

Enn nokkrar glæður í hrauninu en lítil virkni sjáanleg úr gígnum

Hólfríður Dagný Friðjónsdóttir, fréttamaður RÚV, er stödd í Grindavík. Hún var stödd ofan á varnargarði við Grindavík klukkan 15 í dag og lýsti því hvernig enn mætti sjá nokkrar glæður í hraunbreiðu við garðinn.

Innan við garðinn má sjá hvernig enn frussast lítillega upp úr gíg en annars var lítil virkni sjáanleg.

1. apríl 2025 kl. 17:24 – uppfært

Þrír skjálftar á Reykjanestá: Stærsti skjálftinn 5,3

Samkvæmt Veðurstofu Íslands urðu þrír jarðskjálftar rétt fyrir klukkan fimm í dag. Veðurstofan staðfestir að stærsti skjálftinn hafi verið 5,3 að stærð.

Skjálftarnir eru líklega gikkskjálftar sem verða vegna virkninnar við Sundhnúksgígaröðina og fundust víða um landið.

Þrír skjálftar urðu á Reykjanestá rétt fyrir klukkan fimm. Skjálftarnir eru líklega gikkskjálftar sem verða vegna virkninnar við Sundhnúksgígaröðina.
Þrír skjálftar urðu á Reykjanestá rétt fyrir klukkan fimm.Veðurstofa Íslands

1. apríl 2025 kl. 17:10 – uppfært

Stór skjálfti fannst vel á suðvesturhorninu

Stærðarinnar jarðskjálfti reið yfir núna rétt fyrir klukkan 17 og mátti greina hann vel í Efstaleiti sem og í Borgarnesi, Selfossi og Akranesi.

Samkvæmt Veðurstofu Íslands er jarðskjálftinn ekki úr kvikuganginum á Sundhnúksgígaröðinni heldur virðist hann hafa komið frá Reykjanestá.

Jóhanna Malen Skúladóttir náttúruvársérfræðingur segir skjálftana svokallaða gikkskjálfta sem séu sökum spennubreytinga vegna eldgossins á Sundhnúksgígaröðinni.

Stærð skjálftanna liggur ekki fyrir að svo stöddu en Jóhanna segir þann fyrri vera að minnsta kosti fjóra eða fimm á stærð.

Að sögn fréttamanns sem staddur er í Grindavík fóru viðvörunarbjöllur af stað í bifreiðum við skjálftann.

1. apríl 2025 kl. 17:06

Fyrst og fremst gangainnskot

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir eldgosið nánast aukaatriði í dag. Aðalatriðið sé gangainnskot og gliðnun til norðurs.

„Þannig að núna sjáum við hins vegar gliðnun þannig að það er sennilega leiðin upp er ekki eins auðveld af því að það er búið að gjósa svo mikið,“ segir hann. Hann segir gosið hafa komið nokkuð á óvart, en nattúran er við stýrið.

1. apríl 2025 kl. 16:57

Ógnaði björgunaraðilum með haglabyssu

Skotvopnið sem notað var til að ógna björgunarsveitarmönnum við rýmingar í Grindavíkurbæ í morgun reyndist vera haglabyssa samkvæmt heimildum fréttastofu.

Björgunarsveitarfólkið þáði áfallahjálp frá Rauða Krossi Íslands eftir atvikið. Bæði dómsmálaráðherra og Slysavarnarfélagið Landsbjörg segja óásættanlegt að björgunarsveitarfólki sé mætt með skotvopnum.

1. apríl 2025 kl. 16:48

Dómsmálaráðherra fordæmir ógnir í garð björgunaraðila

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra segir algjörlega óþolandi að fólk viðhafi ógnandi tilburði í garð fólks sem sé að störfum við að tryggja öryggi íbúa. Hún líti atvikið mjög alvarlegum augum og formdæmi það að fólk sýni af sér slíka hegðun gagnvart fólki sem sé að reyna að tryggja öryggi annarra.

Hún kveðst þó ekki telja ástæðu til að breyta verklagi um rýmingar vegna atviksins. Almennt séu bæjarbúar meðvitaðir um að ekki sé gripið til rýminga af ástæðulausu.

Hægt er að lesa fréttina í heild sinni með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan:

1. apríl 2025 kl. 15:09 – uppfært

Engin gosmengun mælist nærri byggð

Engin gosmengun hefur mælst nærri byggð. Hlynur Árnason, sérfræðingur hjá Umhverfis- og orkustofnun, segir að vindáttin sé þannig að alla jafna ætti gosmengun að hafa borist til byggða. Hins vegar sé líklegt að mesta mengunin hafi borist upp í andrúmsloftið þegar gosið var sem öflugast.

Þannig sé mögulegt að mengun hafi borist í átt að byggð en hafi verið í töluverðri lofthæð.

Enn sé möguleiki að mengun mælist í byggð fyrst krafturinn í gosinu hafi minnkað og þá færist mengunin nær jörðu.

Hægt er að fylgjast með loftgæðum á vefsíðu Umhverfis- og orkustofnunar hér.

Skjáskot tekið af vefsíðunni Loftgæði.is sem er á vegum Umhverfis og orkustofnunar.
Staðan á loftgæðum í Reykjavík og á Reykjanesskaganum klukkan 15:10.Umhverfis og orkustofnun

1. apríl 2025 kl. 14:37

Kröftugir skjálftar og drunur í Grindavík

Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir, fréttamaður RÚV, sem er stödd í Grindavík segir að enn sé mjög mikil skjálftavirkni á svæðinu og að hún hafi ekki fundið fyrir svo kröftugum skjálftum síðan í fyrstu gosum. Hún hafi misst tölu á hversu margir jarðskjálftar hafi gengið yfir og að miklar drunur dynji á með hverjum skjálfta.

1. apríl 2025 kl. 14:37

Gosið byrjað að koðna niður

Benedikt Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands, telur líklegt að gosið sem hófst í morgun sé byrjað að koðna niður.

„Aftur á móti þá er enn þá talsverð virkni á norðurendanum á ganginum, bæði skjálftavirkni en við sjáum einnig að það er aflögun og við sjáum enn þá talsvert sig undan svartsengi,“ segir hann.

„Við getum ekki alveg slegið föstu að þetta sé búið en þetta gos allavega, það hefur dregið verulega úr því og mögulega er það að klárast. En það er ekki alveg hægt að slá því föstu.“

Gera þurfi ráð fyrir öðrum mögulegum atburðum á Reykjanesskaganum.

„Það er greinilegt að það er kvika að flæða inn í kvikuganginn og á meðan svo er þá er alveg hætta á því að gosið fyrir sunnan gæti tekið sig upp aftur eða að kvika gæti komið upp annars staðar á kvikuganginum, segir Benedikt.

Benedikt Ófeigsson jarðeðlisfræðingur í aukafréttatíma í sjónvarpinu 1. apríl vegna eldgoss á sundhnúskgígaröðinni.
Benedikt Ófeigsson.RÚV

Talsvert öðruvísi gos

Hann segir gosið í dag talsvert öðruvísi en síðustu gos og svipi að mörgu leyti til eldgossins sem átti sér stað í janúar.

En svo er þetta að mörgu leyti mjög ólíkt því líka, þetta er bara þróun í atburðarás og við erum alltaf að sjá eitthvað nýtt í hverjum og einum atburði, segir Benedikt sem telur of snemmt að segja frekar til um hvað gerist.

1. apríl 2025 kl. 14:19

Tveggja tíma gamalt hraun sent til efnagreingar

Fréttamaður RÚV, Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir, náði tali af jarðvísindamanninum Olgeiri Sigmarssyni nálægt gosstöðvunum. Olgeir sýndi fréttamanni tveggja tíma gamla kviku sem hann hafði tekið til efnagreiningar og benti á hvar mætti sjá gas í holum kvikunnar.

„Þetta er ósköp svipað því sem við höfum séð áður. En efnagreiningarnar fara í gang núna bara strax í dag.“

1. apríl 2025 kl. 13:58

Gossprungan virðist hætt að stækka

Skjálftavirkni mælist mjög mikil við nyrsta enda kvikugangsins sem myndaðist í kvikuhlaupi í morgun. Talsverð virkni er enn í gossprungunni sem opnaðist við syðri enda gangsins í morgun.

Jóhanna Malen Skúladóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir ekki útilokað að það bæti í virkni og að meiri kvika brjóti sér leið á yfirborðið. Þá er kröftug jarðskjálftahrina við nyrsta hluta kvikugangsins og eldgos gæti komið upp þar.

Kvikugangurinn hefur aldrei verið lengri en hann er yfir 11 kílómetrar.

1. apríl 2025 kl. 13:52

Dómsmálaráðherra hvetur fólk til að fylgja fyrirmælum lögreglu

Ástrós Signýjardóttir náði tali af Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra þegar hún var í samhæfingastöð Almannavarna. Hún hvetur fólk til að fylgja fyrirmælum lögreglu og fara ekki nálægt gossvæðinu. Almannavarnir og lögregla þurfi svigrúm til að vinna sína vinnu.

1. apríl 2025 kl. 13:16

Gufa við íbúðarhús er rofin heitavatnslögn

Glöggir áhorfendur vefmyndavélar hafa tekið eftir reyk inni í Grindavíkurbæ nærri íbúðarhúsi. Reykurinn stafar af heitavatnslögn sem rofnaði vegna sprunguhreyfinga inni í bænum.

1. apríl 2025 kl. 13:03

Fjöldi og tíðni skjálfta sést vel á korti Veðurstofunnar

Enn er mikil skjálftavirkni við kvikuganginn, mest við norðurenda hans, eins og sjá má á þessu korti og riti Veðurstofunnar.

Skjálftakort
Skjálftakort Veðurstofunnar.Veðurstofa Íslands

1. apríl 2025 kl. 12:52 – uppfært

Myndir af hraunstraumnum

Ragnar Visage, ljósmyndari fréttastofunnar, er á vettvangi og náði þessum mikilfenglegu myndum af hraunstraumnum.

Kvika flæðir úr gígunum á Sundhnúksgígaröðinni í eldgosinu sem hófst að morgni þriðjudagsins 1. apríl 2025. Mynd tekin úr dróna sem sýnir hraunflæðið, hraunárnar og hrauntjarnirnar sem myndast í hraunbreiðunni.
RÚV / Ragnar Visage

Kvika flæðir úr gígunum á Sundhnúksgígaröðinni í eldgosinu sem hófst að morgni þriðjudagsins 1. apríl 2025. Mynd tekin úr dróna sem sýnir hraunflæðið, hraunárnar og hrauntjarnirnar sem myndast í hraunbreiðunni.
RÚV / Ragnar Visage

Kvika flæðir úr gígunum á Sundhnúksgígaröðinni í eldgosinu sem hófst að morgni þriðjudagsins 1. apríl 2025. Mynd tekin úr dróna sem sýnir hraunflæðið, hraunárnar og hrauntjarnirnar sem myndast í hraunbreiðunni.
RÚV / Ragnar Visage

Kvika flæðir úr gígunum á Sundhnúksgígaröðinni í eldgosinu sem hófst að morgni þriðjudagsins 1. apríl 2025. Mynd tekin úr dróna sem sýnir hraunflæðið, hraunárnar og hrauntjarnirnar sem myndast í hraunbreiðunni.
RÚV / Ragnar Visage

Kvika flæðir úr gígunum á Sundhnúksgígaröðinni í eldgosinu sem hófst að morgni þriðjudagsins 1. apríl 2025. Mynd tekin úr dróna sem sýnir hraunflæðið, hraunárnar og hrauntjarnirnar sem myndast í hraunbreiðunni.
RÚV / Ragnar Visage

1. apríl 2025 kl. 12:48

Heitavatnslögn fór í sundur í Grindavík

Í tilkynningu á vef Veðurstofunnar segir að tilkynning hafi borist um að heitavatnslögn hafi farið í sundur norðarlega í Grindavík. Það staðfesti að talsverðar sprunguhreyfingar hafi orðið innan bæjarins.

Heildarlengd gossprungunnar er orðin 1.200 metrar. Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, segir að nú sé það metið svo að um eina sprungu sé að ræða en ekki tvær.

Kvikugangurinn nær 3 kílómetrum lengra í norðaustur en áður

Skjálftavirkni mælist enn á kvikuganginum öllum en mesta virknin er á norðausturenda gangsins, sem nær nú rúmum 3 kílómetrum lengra í norðaustur en sést hefur í fyrri gosum. Aflögunargögn benda til þess að kvika sé enn á hreyfingu um kvikuganginn.

1. apríl 2025 kl. 12:43 – uppfært

Vaknaði ekki við viðvörunarflauturnar

David Nivlas var sofandi þegar viðvörunarflautur hljómuðu í Grindavík í morgun en þegar lögreglan bankaði brást hann við og þakkar öllum viðbragðsaðilum fyrir sem hann segir að hafi verið mjög rólegir og yfirvegaðir.

Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir fréttamaður ræddi við Davíð þegar hann var á leið úr bænum. „Við vorum á leið til vinnu í morgun. Allir í bænum, lögreglan, og hver sem gat hjálpaði okkur, skilaboðin voru skýr og auðskiljanleg.“

David flutti til Grindavíkur fyrir nokkrum dögum og var glaður að sjá fólk í bænum. Hann segir að það sé sorglegt að þurfa að yfirgefa bæinn. „Það er leitt að þurfa að rýma aftur og ég vona að allt fari vel og að hraunið skaði ekki bæinn.“

1. apríl 2025 kl. 12:32

Innviðaráðherra: Vissulega mikið áfall

Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra segir Almannavarnir vinna að undirbúningi á hraunkælingu og uppbyggingu varnargarða vegna eldgossins á Sundhnúksgígaröðinni.

Hann biðlar til fólks á svæðinu að halda ró sinni, forðast hættusvæði og fylgja tilmælum lögreglu og viðbragðsaðila.

Kveðst hann vera í hópi þeirra sem hafi vonast til þess að íbúar gætu farið að flytja til baka og gosið sé því vissulega mikið áfall. Fátt annað sé í stöðunni en að bíða og sjá hvernig gosið þróist og vona að sprungan haldi ekki alveg inn fyrir bæinn.

„Við skulum bara vona að þetta fari sem allra best fyrir Grindavík og Grindvíkinga.“

Eyjólfur Ármannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra mætir á ríkisráðsfund. Ráðherrar mæta á ríkisráðsfund á Bessastöðum þar sem Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra, fær lausn embættis og Guðmundur Ingi Kristinsson verður ráðherra í hennar stað.
Eyjólfur Ármannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.RÚV / Arnór Fannar Rúnarsson

1. apríl 2025 kl. 12:31

Fyrrum íbúi í Efrahópi vonar að uppbygging í bænum haldi áfram

Hraun eyðilagði þrjú hús við Efrahóp í Grindavík.
Hraun eyðilagði þrjú hús við Efrahóp í Grindavík í gosinu í janúar 2024.RÚV / Benedikt Sigurðsson

Sigurður Óli Þórleifsson fyrrum íbúi í Efrahópi, rétt við þar sem hraun eyðilagði hús í gosinu í janúar í fyrra, segir að hugurinn hafi leitað heim þegar gosið hófst í morgun. Hann býr ekki í Grindavík, en starfar þar og var síðast í bænum í gærkvöldi.

„Það hefur ekki verið hæft til búsetu en hugurinn hefur heldur betur leitað heim og það stóð til að gera hollvinasamning um leið og neysluvatnið kæmist á sem við vorum að vonast að yrði fyrir sumarið. En þetta setur þetta kannski aðeins í óvissu, það má heldur betur segja það.“

Hvað framtíð Grindavík varðar segir Sigurður Óli að gosið nú muni hafa áhrif á hana. „Ég vona að þetta verði ekki til þess að við stöðvum uppbyggingu því hún er nauðsynleg. Við verðum að læra að lifa með náttúrunni.“

1. apríl 2025 kl. 12:24 – uppfært

Aukafréttatíminn í heild

Hér má sjá aukafréttatímann í sjónvarpi í heild sinni.

1. apríl 2025 kl. 12:24 – uppfært

Kvika geti flætt ofan í sprungum undir Grindavík og komið upp innan bæjarins

Benedikt Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur og hópstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, segir vísindamenn hafa áhyggjur af því að kvika flæði ofan í sprungum undir Grindavík og geti komið þar upp.

„Það er mjög lítið flæði á syðstu sprungunni og hún er ekki stór. Hún er örlítið að lengjast í átt að Grindavík.“

Sé hraunflæðið nógu langvinnt geti það komið inn í bæinn. „Það eru miklar sprungur undir Grindavík og við höfum áhyggjur af því að kvika flæði ofan í sprungunum og upp einhvers staðar innan bæjarins. Það er möguleiki.“

Það er mjög líklega það sem gerðist í janúar 2024 þegar sprunga opnaðist innan við varnargarðanna.

1. apríl 2025 kl. 12:02 – uppfært

Einn handtekinn eftir að björgunarsveitarfólki var ógnað með byssu

Einn var handtekinn eftir að björgunarfólki, sem var að rýma Grindavík eftir að eldgos hófst í morgun, var ógnað með byssu.

„Ég get staðfest það að heimamaður var handtekinn og tveir björgunarsveitarmenn þurftu á sálrænni aðstoð að halda,“ sagði Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurlandi í aukfréttatíma sjónvarps fyrir stuttu.

Úlfar sagði þetta afskaplega bagalegt.

„Þeir einstaklingar sem kjósa að dvelja inni í bænum huga ekki að því að ég er með 50 manns þessum aðgerðum, og sumir í þessum hópi eru sjálfboðaliðar, að sýna almannavörnum meiri tillitsemi en gert hefur verið hingað til. Það er svona mín gagnrýni á þessa Grindvíkinga.“

1. apríl 2025 kl. 12:00

Mikil óvissa enn segir Magnús Tumi

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur flaug með Landhelgisgæslunni yfir gosstöðvarnar í morgun. Hann segir mjög mikla óvissu um hvernig eldgosið við Grindavík þróast. Það sé miklu minna en þau gos sem hafa komið undanfarið.

„Hins vegar teygir sprungan sig í gegnum varnargarðinn og hefur verið að teygja sig aðeins lengra til suðurs. En það er mjög lítil kvika komin þar upp en það er mikil óvissa.“

„Ef að þetta heldur áfram lengi með hrauni sem að kemur upp þarna sunnan við varnargarðinn, þá er Grindavík vissulega í hættu,“ segir hann.

1. apríl 2025 kl. 11:50 – uppfært

Hraunið gæti verið að nálgast jarðvatn

„Þetta gos er nú óskaplegur ræfill enn þá og ef eitthvað er er það að minnka. Það sem þó gæti skeð núna er að þessar búbblur sem eru að fara eftir sprungunni í átt að Grindavík, þær gætu verið að nálgast jarðvatn sem menn vita af þar. Þá gætu orðið einhverjar sprengingar,“ segir Einar Már Gunnarsson, verkstjóri hjá ÍAV, í aukafréttatíma í sjónvarpinu.

Þá gætu myndast svartir bólstrar en Einar segir menn ekki hafa ekki stórar áhyggjur af því eins og er.

Of mikil ferð er á hrauninu til þess að reisa varnargarð til að stoppa hraunrennslið innan varnargarðanna.

„Við verðum bara að bíða og sjá hvað gerist. Einhvern veginn leggst þetta allavega í mig eins og að þetta sé að fjara út aftur. Vonandi.“

Varnargarðurinn L7 við Grindavík stendur sína plikt og tekur við hrauninu sem rennur utan hans. Illa sé hægt að ráða við hraunið sem rennur innan varnargarðsins.

„Við verðum bara að sjá og vona.“

1. apríl 2025 kl. 11:49

Ein versta sviðsmyndin að virkni færist inn í bæinn

Runólfur Þórhallsson, sviðstjóri Almannavarna, segir að viðbragð vegna hraunkælingar og styrks varnargarða sé stöðugt til skoðunar.

„Það er mikil óvissa fyrstu klukkutímana. Það er verið að skoða hraunflæðilíkön, það er verið að skoða mögulegar sviðsmyndir með framhaldið næstu dagana og við erum að skoða okkar viðbragð í samvinnu við það,“ segir Runólfur. „Ein af verstu sviðsmyndunum er að þessi virkni geti færst nær bænum og jafnvel inn í bæinn,“ segir Runólfur.

Hann hvetur fólk til að fara eftir tilmælum lögreglu, en segir að einhverjir hnökrar hafi verið á rýmingu, en samkvæmt heimildum fréttastofu var björgunarsveitarfólki í Grindavík ógnað með byssu í morgun þegar rýma átti bæinn.

Runólfur Þórhallsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra og yfirmaður greiningardeildar.
Runólfur Þórhallsson, sviðstjóri AlmannavarnaRÚV / Kveikur

1. apríl 2025 kl. 11:41

Bilun í vefútsendingu

Því miður er einhver bilun í vefútsendingu sjónvarps en unnið er að viðgerð.

1. apríl 2025 kl. 11:30 – uppfært

Aukafréttatími í sjónvarpi að hefjast

Aukafréttatími í sjónvarpinu er að hefjast. Hægt er að horfa á hann á RÚV og RÚV.is

Hádegisfréttir í útvarpi verða á sínum stað klukkan 12:20. Eldgosavakt er einnig á Rás 2 og hægt að fylgjast með gosinu í vefmyndavélum á RÚV 2.

1. apríl 2025 kl. 11:29

Allir farnir úr Grindavík

Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri Grindavíkur, segir enga eftir í Grindavíkurbæ að viðbragðsaðilum undanskildum.

Átta manns kusu að yfirgefa ekki bæinn í morgun er kvikuhlaup hófst, þvert á tilmæli Almannavarna.

Tvær gossprungur hafa opnast og teygði sú fyrri anga sína inn fyrir varnargarðinn norður af Grindavík. Sú seinni opnaðist innan varnargarðsins skömmu fyrir ellefu og virðist reyna að teygja sig í suður í átt að Grindavík.

Myndir frá eldgosinu norðan við Grindavík.
RÚV / Ragnar Visage

1. apríl 2025 kl. 11:27

Björgunarsveitarfólki í Grindavík ógnað með byssu

Björgunarsveitarfólki í Grindavík var ógnað með byssu í morgun þegar rýma átti bæinn. Þetta herma heimildir fréttastofu. Fólkið fékk áfallahjálp hjá Rauða krossi Íslands.

1. apríl 2025 kl. 11:27 – uppfært

„Við gerum okkur klára í bátana“

Einar Sveinn Jónnson slökkviliðsstjóri í Grindavík var staddur í Efrahópi, þar sem hraun rann í janúar í fyrra, þegar Ragnhildur Thorlacius og Baldvin Þór Bergsson á eldgosavaktinni á Rás 2 náðu tali af honum. Hann sagði hraunið malla í nýju sprungunni. Slökkviliðið væri að fylgjast með framvindunni og ákveða næstu skref.

Hann sagði þetta ekki mikið hraun sem rennur frá sprungunni. „Ekki í augnablikinu en lítið hraunrennsli skríður hægt og bítandi áfram. Maður heldur í jákvæðinina og vonar að þetta stoppi á einhverjum skynsamlegum stað.“

Bera verði virðingu fyrir náttúruhamförunum.

Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík.
RÚV / Ragnar Visage

Einar segir slökkviliðið búa sig undir að taka á móti þessu, vilji svo ólíklega til. Áætlunir séu tilbúnar og Einar segir slökkviliðið nota hraunkælingarbúnað til að stýra flæði hraunsins, ekki sé hægt að stöðva það.

Aðspurður hvenær slökkviliðið setji sig í stellingar og mundi hraunkælingarbúnaðinn segir Einar að þegar hraunið er komið tiltölulega nálægt og flæðið aukist geri þeir það. En það er ekki komið að því.

„Við erum ekki komnir þangað ennþá en við gerum okkur klára í bátana.“

1. apríl 2025 kl. 11:22 – uppfært

Fyrsta sprungan hætt að lengjast en hin teygir sig í átt að Grindavík

Gossprungan sem opnaðist skömmu fyrir klukkan tíu er 700 metrar að lengd og hefur ekki stækkað í um klukkustund. Hún teygir sig frá rótum Hagafells og rétt inn fyrir varnargarðinn norður af Grindavík. Virkni er ekki mjög mikil í sprungunni en mest í henni sunnanverðri. Hraun rennur mest í vestur, segir Jóhanna Malen Skúladóttir náttúruvársérfræðingur.

Hin sprungan sem opnaðist fyrir innan varnargarðinn skömmu fyrir klukkan ellefu er talsvert minni en virðist reyna að teygja sig í suður í átt að Grindavík. Syðri endi sprungunnar var um hálfan kílómetra frá nyrstu húsum Grindavíkur en hún teygir sig nær bænum. Jóhanna segir virkni í henni enn sem komið er ekki mjög mikla.

Þyrla Landhelgisgæslunnar náði að fara einn hring til að skoða nýju sprunguna áður en hún hélt til baka til Reykjavíkur. Næsta flug þyrlunnar hefur ekki verið ákveðið.

1. apríl 2025 kl. 11:17 – uppfært

Horft yfir gosstöðvarnar

Hér má sjá nýjar myndir sem Ragnar Visage ljósmyndari fréttastofu tók við gosstöðvarnar.

Myndir frá eldgosinu norðan við Grindavík.
RÚV / Ragnar Visage

Myndir frá eldgosinu norðan við Grindavík.
RÚV / Ragnar Visage

Myndir frá eldgosinu norðan við Grindavík.
RÚV / Ragnar Visage

Myndir frá eldgosinu norðan við Grindavík.
RÚV / Ragnar Visage

1. apríl 2025 kl. 11:16 – uppfært

Umfjöllun um eldgosið í erlendum miðlum

Fjölmiðlar víða um heim hafa gripið fréttirnar af eldgosinu við Grindavík. Danska ríkisútvarpið segir frá því í sinni fyrirsögn að Bláa lónið hafi verið rýmt vegna kvikuhlaupsins, en bætir því þó við inni í fréttinni að Grindavík hafi einnig verið rýmd.

Skjáskot af fyrirsögn SVT um eldgosið við Grindavík 1. apríl 2025.
SVT

Norskir og sænskir ríkisfjölmiðlar greina frá rýmingu Grindavíkur vegna eldgossins og NRK er með beina útsendingu úr vefmyndavél RÚV á vef sínum.

Bláa lónið er í fyrirrúmi í umfjöllunDeutsche Welle, Daily Mail, bandarísku fréttastofunnarABC og Newsweek.

1. apríl 2025 kl. 10:59 – uppfært

Afstöðumynd af gosstöðvunum klukkan 11:00

Skýringarmynd sem sýnir hvar sprungurnar eru norðan Grindavíkur.
RÚV / Jónmundur Gíslason

1. apríl 2025 kl. 10:58

Nýja sprungan liggur 500 metra frá bænum

Ný sprunga opnaðist innan við varnargarðana í Grindavík nú skömmu fyrir klukkan ellefu. Hún er nálægt gróðurhúsi ORF og um hálfan kílómetra frá nyrsta húsi bæjarins.

Jóhanna Malen Skúladóttir náttúruvársérfræðingur segir sprunguna fremur litla og að ekki sé mikill kraftur í henni. Sprungan er í sömu línu og sprungan sem opnaðist innan varnargarðanna í janúar í fyrra, en er þó fjær bænum.

Þyrla Landhelgisgæslunnar var lent aftur í Reykjavík eftir rannsóknarflug þegar sprungan opnaðist og því liggja frekari upplýsingar um sprunguna ekki fyrir að sinni.

1. apríl 2025 kl. 10:55

Verið að færa hraunkælingarbúnað nær Grindavík

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, var á fundi með aðgerðarstjórn viðbragðsaðilum. Hann sagði í viðtali á Rás 2 að helsta verkefni lögregluyfirvalda sé að fylgjast með atburðarrásinni.

Undirbúningur að hraunkælingu er í gangi, hraunkælingarbúnaðurinn er í Þorlákshöfn og er verið að færa hann nær Grindavík. Úlfar segir ekki ráðlegt að geyma hann innan hættusvæði.

Stöðug vakt er á lokunarpóstum á Nesvegi, Suðurnesjavegi og Grindavíkurvegi við Reykjanesbraut.

1. apríl 2025 kl. 10:50 – uppfært

Dregur úr aflögun

Benedikt Gunnar Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofunni, er núna í viðtali á Rás 2.

Hann segir aflögunarmælingar hafa sýnt í aðdraganda gossins kvikugang myndast. Sú aflögun hélt stöðugt áfram þar til um klukkustund til hálftíma áður en gosið hófst. Enn dregur úr aflöguninni.

„Það er einhver aflögun og skjálftavirkni við suðurendan og líka meiri virkni við norðurendan. Það er að draga úr merkjunum en enn eru merki um að sprungan gæti verið að lengjast.“

Benedikt Gunnar Ófeigsson jarðeðlisfræðingur.
Benedikt Gunnar Ófeigsson jarðeðlisfræðingur. Myndin er úr safni.RÚV

Benedikt sagði að gera þyrfti ráð fyrir því að sprungan get lengst til suðurs og í miðju viðtalinu opnaðist sprunga nær Grindavík. Erfitt er að segja til um þróun gossins.

„Þetta er væntanlega vegna þess að það var búinn að byggjast upp svo nægilega þrýstingur að það var hægt að opna kvikuganginn síðan í janúar meira. Þegar það er komin svona mikil kvika eykst möguleikinn á svona atburði.“

1. apríl 2025 kl. 10:47 – uppfært

Mengun gæti borist yfir höfuðborgarsvæðið

Þorsteinn Jóhannsson, hjá Umhverfisstofnun segir vindátt óhagstæða og að mengun frá eldgosinu gæti borist yfir höfuðborgarsvæðið á næstu klukkutímum.

Hann segir þó vert að hafa í huga að við upphaf goss sé hiti svo mikill að gosmökkurinn fari mjög hátt og gæti því verið að mengun mælist ekki niðri við jörðu.

Síðdegis gæti vindátt snúist og mengun gæti borist yfir Suðurland.

Þorsteinn segir vert að minna á að ekki er um að ræða eiturgas, en mengunin hafi þó áhrif á þá sem eru viðkvæmir fyrir. Þá er ekki mælt með óþarfa útiveru og sérstaklega ekki áreynslu utandyra.

1. apríl 2025 kl. 10:43 – uppfært

Gossprunga opnast nær Grindavík

Á vefmyndavélum sést hvernig gossprungan færist sunnar í átt til Grindavíkur.

1. apríl 2025 kl. 10:42

Myndband úr þyrlu Landhelgisgæslunnar

Bragi Valgeirsson tökumaður fékk að fljúga yfir gosstöðvarnar ásamt vísindamönnum yfir gosstöðvarnar.

1. apríl 2025 kl. 10:37 – uppfært

Sjómenn forða bátum úr Grindavíkurhöfn

Rétt áður en eldgos hófst ræddi Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir, fréttamaður RÚV, við sjómenn sem voru í óðaönn að forða bátum úr Grindavíkurhöfn. Þeir Óliver Guðnason og Ólafur Árni Mikaelsson sögðu þetta varúðarráðfstöfun, til þess að komast öruggleg að bátunum ef svo færi að aðgengi að Grindavík verði skert. Skömmu síðar fór að gjósa.

1. apríl 2025 kl. 10:33

Eldgosavakt á Rás 2

Við minnum á útsendingu á Rás 2. Þar eru Ragnhildur Thorlacius, Baldvin Þór Bergsson og Doddi litli.

Einnig er útsending frá gosstöðvunum á RÚV 2.

1. apríl 2025 kl. 10:30 – uppfært

„RÝMING RÝMING!“

Fólk á Grindavíkursvæðinu og við Bláa lónið fær nú SMS-skilaboð á íslensku, ensku og pólsku. Í nýjustu skilaboðunum er fólki sagt að yfirgefa svæðið hratt og örugglega og hringja í 112 ef það þarf aðstoð við rýmingu.

Skilaboð frá almannavörnum.
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir

1. apríl 2025 kl. 10:26

Drónamyndir af gossprungunni

Ragnar Visage, ljósmyndari fréttastofunnar, var með drónann á lofti rétt eftir að gosið hófst.

Myndir frá eldgosi 1. apríl 2025. Sprungan liggur í gegnum varnargarða norðan Grindavíkur.
RÚV / Ragnar Visage

Myndir frá eldgosi 1. apríl 2025. Sprungan liggur í gegnum varnargarða norðan Grindavíkur.
RÚV / Ragnar Visage

Myndir frá eldgosi 1. apríl 2025. Sprungan liggur í gegnum varnargarða norðan Grindavíkur.
RÚV / Ragnar Visage

Myndir frá eldgosi 1. apríl 2025. Sprungan liggur í gegnum varnargarða norðan Grindavíkur.
RÚV / Ragnar Visage

1. apríl 2025 kl. 10:17 – uppfært

Ítreka að fólk yfirgefi bæinn

Runólfur Þórhallsson, sviðsstjóri Almannavarna, segir að mjög mikil óvissa sé vegna eldgossins sem nú er hafið. Hann ítrekar að allir sem eftir eru í Grindavík verði að yfirgefa bæinn. Það eru tilmæli frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum og almannavörnum.

Runólfur segir að atburðurinn gæti orðið mun stærri en síðustu atburðir því kvikugangurinn sé orðinn mun lengri en áður hafi sést og að mikið magn kviku hafi safnast.

Í morgun voru varnargarðateymi og hraunkælingarteymi virkjuð. Runólfur segir að verið sé að meta hvaða viðbragð verður sett af stað.

Runólfur Þórhallsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra og yfirmaður greiningardeildar.
Runólfur Þórhallsson.RÚV / Kveikur

1. apríl 2025 kl. 10:15 – uppfært

Afstöðumynd af sprungunni

Yfirlitsmynd sem sýnir gossprunguna við Grindavík 1. apríl 2025
RÚV / Jónmundur Gíslason

1. apríl 2025 kl. 10:12 – uppfært

Viðvörunarflautur hljóma um Grindavíkurbæ

Viðvörunarflautur hljóma núna um Grindavíkurbæ vegna neyðarstigs almannavarna á svæðinu. Gossprungan hefur opnast Grindavíkurmegin við varnargarðinn. Átta manns neituðu að rýma bæinn í morgun.

1. apríl 2025 kl. 10:08 – uppfært

Gossprungan minnst hálfur kílómetri og lengist í báðar áttir

Gossprungan er um 500 metrar og lengist í báðar áttir. Sprungan nær inn fyrir varnargarðinn norður af Grindavík.

Kvikugangurinn sem myndast hefur í kvikuhlaupinu sem hófst í morgun er 11 kílómetra langur og það er það lengsta sem mælst hefur síðan í kvikuhlaupinu í nóvember 2023 þegar Grindavík var rýmd.

Þetta segir Jóhanna Malen Skúladóttir náttúruvársérfræðingur.

Jóhanna Malen Skúladóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, fylgist með jarðskjálftamælunum.
RÚV / Víðir Hólm Ólafsson

1. apríl 2025 kl. 10:03

Aukafréttatími í sjónvarpi kl. 11.30

Aukafréttatími verður í sjónvarpi klukkan 11.30 þar sem farið verður yfir stöðuna á gosstöðvunum.

1. apríl 2025 kl. 10:01 – uppfært

Sprungan komin í gegnum varnargarðinn

Gossprungan er búin að opnast Grindavíkurmegin við varnargarðinn. Á vefmyndavélum sést hvernig sprungan hefur opnast undir varnargarðinum og kvika spýtist út Grindavíkurmegin.

1. apríl 2025 kl. 10:00 – uppfært

Neyðarstig almannavarna virkjað og fólk beðið að yfirgefa bæinn

Neyðarstig almannavarna hefur verið virkjað og fólk sem er enn í Grindavík er beðið um að yfirgefa bæinn. Þetta segir Hjördís Guðmundsdóttir samskiptastjóri almannavarna. Rýmingu bæjarins var lokið en átta manns ákváðu að vera eftir.

Hjördís segir erfitt að segja til um hve stórt eldgosið er í samanburði við fyrri eldgos. Þyrla Landhelgisgæslunnar var á leið í loftið nú rétt fyrir klukkan 10. Hjördís hvetur íbúa á Reykjanesskaga til að fylgjast með loftgæðum og loka gluggum.

Myndin er úr stjórnherbergi almannavarna. Stórir skjáir á veggjum, fundarborð, skrifborð og tölvur. Hjördís Guðmundsdóttir
Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri Almannavarna.RÚV / Ragnar Visage

1. apríl 2025 kl. 9:57

Gossprungan nær alveg að varnargörðum og lengist til suðurs

Gossprungan teygði sig fljótt í suðurátt og er nú komin alveg að varnargörðunum í kringum Grindavík. Miðað við myndir úr vefmyndavélum er gróðurhús ORF Líftækni nánast í beinni línu við spurnguna hinu megin við varnargarðana.

1. apríl 2025 kl. 9:49

Sjáið gossprunguna hér

Við minnum á að hægt er að fylgjast með beinu streymi frá gosstöðvunum í færslunni hér að neðan.

1. apríl 2025 kl. 9:48 – uppfært

Þyrlan á leið í loftið

Þyrla Landhelgisgæslunnar fer í loftið innan skamms til þess að staðfesta nákvæma staðsetningu og stærð eldgossins. Samkvæmt vefmyndavélum virðist gosið vera suðaustan við Þorbjörn.

Fluglitakóði hefur verið færður á rautt, þangað til nánari upplýsingar um öskudreifingu berast.

1. apríl 2025 kl. 9:45

Eldgos hafið

Eldgos er hafið í Sundhnúksgígaröðinni. Hægt er að sjá eldgosið í vefmyndavélinni frá Þorbirni.

1. apríl 2025 kl. 9:44

Kvika komin að varnargarðinum við Grindavík

Kvika er komin á þær slóðir þar sem eldgos kom upp við varnargarðinn norður af Grindavík í janúar í fyrra og hugsanlega inn fyrir varnargarðana. Virknin flakkar á milli suður- og norðurenda kvikugangsins og því er erfitt að segja til um hvar eldgos gæti hafist. Mest er fylgst með suðurendanum því þar er mest undir.

Benedikt Ófeigsson.
RÚV

Þetta segir Benedikt Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofunni. Hann segir þennan atburð svipa til þegar eldgos kom upp við og fyrir innan varnargarðinn í janúar í fyrra. Þá eyðilögðust nokkur hús við Vesturhóp í Grindavík. Benedikt segir þó að þessi atburður virðist vera minni.

Sprungan orðin mjög löng og erfitt að segja hvar gos gæti komið upp

Benedikt segir að kvikan sé enn á talsverðu dýpi en sé þó að grynnka eitthvað. Hann segir sprunguna mjög langa og erfitt sé að segja til um hvar eldgos gæti hafist. Helst sé verið að horfa á staði þar sem eldgos hefur áður orðið, svo sem við varnargarðinn Norður af Grindavík, en líka staðina þar sem það hefur komið upp í síðustu gosum, þ.e. milli Sýlingarfells og Stóra Skógfells. Þó er ekki útilokað að gos gæti hafist nyrst í sprungunni en það hefur ekki gerst áður.

Benedikt segir að eftir því sem lengri tími líður losi um meiri þrýsting og þá geti verið að ekkert verði af eldgosi. Það eru þó enn taldar talsverðar líkur á gosi.

1. apríl 2025 kl. 9:36

Mikil jarðskjálftavirkni

Eins og sjá má á þessari mynd úr Skjálfta-Lísu Veðurstofunnar hefur jarðskjálftavirkni verið talsverð síðan í morgun. Skjáskotið sýnir jarðskjálfta á Reykjanesskaga frá klukkan 5:30 í morgun til klukkan 9:30.

Mynd af jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaga frá 5:30 1. apríl 2025 til 9:30 sama dag.
Veðurstofa Íslands

1. apríl 2025 kl. 9:31 – uppfært

„Ró og yfirvegun“ í samhæfingarmiðstöð

Það er allt með kyrrum kjörum á Laugavegi, þar sem samhæfingarmiðstöð almannavarna var virkjuð þegar kvikuhlaup hófst í morgun. Ástrós Signýjardóttir fréttamaður RÚV hefur verið á staðnum frá því um sjöleytið.

Hún segir viðbragðsaðila hafa safnast þar saman og fylgjast vel með þróun mála.

Ástrós segir ljóst á andrúmsloftinu á staðnum að fólk er orðið þaulvant í viðbrögðum sínum.

„Hér er ró og yfirvegun yfir mannskapnum.“

1. apríl 2025 kl. 9:30 – uppfært

Ekki stefna lögreglustjórans að þvinga fólk til að fara

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir það ekki vera stefnu embættisins að þvinga fólk til að yfirgefa hættusvæði. Rýmingu Grindavíkur er lokið fyrir utan átta einstaklinga sem ætla að vera eftir. „Við ítrekum okkar fyrirmæli, það var beiðni um að fólk yfirgefi hættusvæði, en eins og hefur komið fram þá hefur verið dvalið þarna í sjö-átta húsum og það fólk hefur ákveðið að dvelja áfram í bænum,“ segir Úlfar. Rýming hafi að öðru leyti gengið hratt og vel.

Og þið sjáið ekki ástæðu til að þvinga fólk til að fara? „Nei, það hefur ekki verið stefna lögreglustjórans hingað til,“ segir Úlfar.

Úlfar segir að fólkið sé þarna á eigin ábyrgð og þekki vel flóttaleiðir.

1. apríl 2025 kl. 9:27

Vísindamenn í startholunum fari að gjósa

Ef kvika brýst upp á yfirborðið eru vísindamenn tilbúnir til að stökkva upp í þyrlu Landhelgisgæslu Íslands til að meta stöðuna úr lofti.

Magnús Tumi Guðmundsson og Halldór Björnsson voru á fundi í húsakynnum Landhelgisgæslunnar í morgun.

Vísindamenn í viðbragðsstöðu hjá Landhelgisgæslunni, tilbúnir í að leggja í hann með þyrlunni ef byrjar að gjósa.
Halldór Björnsson og Magnús Tumi Guðmundsson í húsakynnum Landhelgisgæslunnar.RÚV / Bragi Valgeirsson

1. apríl 2025 kl. 9:24 – uppfært

„Eins og það sé bankað undir fæturna“

Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir fréttamaður er ásamt tökumanninum Braga Valgeirssyni í Grindavík. Hún segir mikla óvissu ríkja og nokkuð ógnvænlegt að bíða. Hér fyrir neðan er hægt að hlýða á Hólmfríði í fréttum klukkan 9.

1. apríl 2025 kl. 9:22

Stærri en síðustu atburðir

Kvikuhlaupið sem nú stendur yfir á Sundhnúksgígaröðinni er stærra en í síðustu gosum og gossprungan lengist í norður og suður í átt að Grindavík. Kvikan virðist ekki vera að nálgast yfirborðið.

1. apríl 2025 kl. 8:55 – uppfært

200 skjálftar – einn 4 að stærð og fannst á höfuðborgarsvæðinu

Yfir 200 skjálftar hafa mælst síðan kvikuhlaup hófst klukkan hálf sjö. Skjálftavirknin mælist bæði norðar og sunnar en verið hefur en skjálftarnir eru enn á talsverðu dýpi sem þýðir að kvika er ekki að nálgast yfirborðið eins og er, segir Jóhanna Malen Skúladóttir náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni.

Flestir skjálftar eru um og yfir 3 að stærð. Einn skjálfti hefur verið 4 að stærð og fannst hann á höfuðborgarsvæðinu.

1. apríl 2025 kl. 8:55

Þyrla tilbúin að fara í loftið

Þyrla Landhelgisgæslunnar er tilbúin að fara í loftið um leið og kvika nær að brjóta sér leið upp á yfirborðið. Þetta kemur fram í tilkynningu Almannavarna.

Samhæfingarstöð Almannavarna var virkjuð á áttunda tímanum í morgun.

1. apríl 2025 kl. 8:50

Ónotaleg tilfinning að finna aftur fyrir skjálftum

Ásrún Helga Kristinsdóttir forseti bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar.
Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar.RÚV / Víðir Hólm Ólafsson

Ásrún Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur, var í Grindavík þegar boð barst um rýmingu.

„Ég vaknaði við SMS-skilaboð í símanum og í kjölfarið fóru lúðrarnir af stað. Þetta gekk nú bara svona fumlaust fannst mér, við erum alveg kunnugleg þessum aðstæðum,“ sagði Ásrún í samtali við Morgunútvarp Rásar 2.

Þetta er fyrsta rýmingin sem Ásrún tekur þátt í, að undanskilinni fyrstu rýmingunni í nóvember 2023. Ásrún segir það hafa verið notalega tilfinningu að sjá kunnuglegt andlit slökkviliðsmanns úr slökkviliði Grindavíkur við rýminguna.

Ásrún segir íbúa í bænum hafi tekið rýmingunni af yfirvegun. „Maðurinn minn og dóttir voru hér í síðustu rýmingu, þá var þetta að kvöldi til og bjarminn strax sýnilegur.“

Hún segir skjálftana fyrirferðarmeiri og því fylgir ónotalega tilfinning. Ásrún og fjölskylda eru nú komin til systur hennar í Sandgerði þar sem þau bíða átekta en vona það besta.

1. apríl 2025 kl. 8:35

Skýr merki um opnun í báðar áttir

Skjálftavirknin er að færast til suðurs og norðurs, segir Benedikt Ófeigsson, og það eru skýr merki um opnun í báðar áttir á Sundhnúksgígaröðinni.

Þetta er stærri atburður en síðast miðað við upphafið. Það gengur aðeins meira á í Grindavík en síðast, fólk finnur fyrir jarðskjálftum þar í fyrsta sinn í rúmt ár.

Það er ennþá möguleiki á því að kvikan nái ekki að komast upp á yfirborðið. Skjálftarnir eru ennþá nokkuð djúpt og ekki farin að grynnast. Það þýðir að kvikan er ekki byrjuð að nálgast yfirborðið.

Nú þarf bara að fylgjast vel með því hversu langt til norðurs og hversu langt til suðurs atburðurinn fer og reyna að átta sig á því hvenær skjálftarnir fara að grynnast og reyna að álykta út frá því hvar kvikan kemur upp.

1. apríl 2025 kl. 8:31 – uppfært

Rýmingu lokið í Grindavík – átta sem neita að fara

Rýmingu Grindavíkur er lokið fyrir utan átta einstaklinga sem ætla að vera eftir. Þetta segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. Hann segir þetta ekkert nýtt og að lögreglan þvingi fólk ekki til að rýma, heldur sé farið vel og ítrekað yfir stöðuna með fólki. Það hafi tekið þessa afstöðu áður.

Úlfar segir að fólkið sé þarna á eigin ábyrgð og þekki vel flóttaleiðir.

1. apríl 2025 kl. 8:24

Finna fyrir skjálftum í bænum og merki um aflögun þar

Merki frá aflögunarmælum eru sterkari en sést hafa í síðustu atburðum á Sundhnúksgígaröðinni. Það sýnir að talsvert magn kviku er á ferðinni.

Merkin sem sjást sýna að kvikan er að hreyfa sig bæði til norðausturs en einnig í suður í átt að Grindavík.  Á þessu stigi er ekki hægt að fullyrða um hvar kvikan muni koma upp, en færslan á aflögunarmerkjum til suðurs sáust til að mynda ekki í eldgosinu sem hófst í nóvember 2024.

Viðbragðsaðilar í Grindavík segjast finna fyrir jarðskjálftum í bænum og þar sjást einnig merki um aflögun og því mögulegt að sprunguhreyfingar geti átt sér stað innan bæjarins.

1. apríl 2025 kl. 8:20

Engin áhrif á flugumferð

Isavia fylgist vel með eins og alltaf þegar kvikuhlaup hefst. Eins og staðan er núna er engin breyting á flugumferð. Eftir að eldgos hefst er tekinn athugunarhringur í kringum gosstöðvarnar til að gera öskuspá. Þegar öskuspá liggur fyrir er ákvarðanatakan hjá hverju og einu flugfélagi.

Eldgosin á Reykjanesskaga hafa ekki haft áhrif á flugumferð hingað til. Um leið og eldgos hefst er Isavia með upplýsingagjöf á vefnum sínum.

1. apríl 2025 kl. 8:13 – uppfært

Óvenjulangur fyrirvari en eru reiðubúin fyrir verstu sviðsmynd

Myndin er úr stjórnherbergi almannavarna. Stórir skjáir á veggjum, fundarborð, skrifborð og tölvur. Hjördís Guðmundsdóttir
Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri Almannavarna.RÚV / Ragnar Visage

Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri Almannavarna, segir rýmingu Grindavíkur standa yfir og að hún gangi vel.

Hún segir að almannavarnakerfið hafi verið virkjað um leið og boð barst frá Veðurstofunni um aukna skjálftavirkni og kvikuhlaup.

Viðbragðsaðilar eru að koma sér fyrir í samhæfingarstöð almannavarna við Laugaveg. Hjördís segir að þar sé rólegt yfir öllum enda hafi þau óvenjumikinn tíma. Fyrirvarinn fyrir eldgos hafi oft verið skemmri.

Eins og Jóhanna Malen Skúladóttir náttúruvársérfræðingur greindi frá rétt í þessu þá færist virknin í Suður nær Grindavík. Hjördís segir að viðbragðið sé alltaf eins þar sem alltaf sé gert ráð fyrir því að versta sviðsmyndin raungerist. Þess vegna sé verið að rýma Grindavík.

1. apríl 2025 kl. 8:07

Fólk safnast saman við Reykjanesbraut

Nokkrir bílstjórar hafa lagt bílum sínum úti í kanti á Reykjanesbraut í morgunsárið til að verða fyrstir til að sjá kvikuna brjótast upp, ef henni tekst það.

1. apríl 2025 kl. 8:06

Skjálftavirkni færir sig sunnar

Skjálftavirknin færir sig til suðurs segir Jóhanna Malen Skúladóttir náttúruvársérfræðingur. Skjálftavirknin hefur yfirleitt verið mest milli Sýlingarfells og Stóra Skógfells og þar hafa síðustu gos komið upp en nú færir virknin sig sunnar í átt að Sundhnúk og er mest milli Þorbjarnar og Sýlingarfells, nær Grindavík. Eldgos gæti komið þar upp.

150 skjálftar hafa orðið síðan kvikuhlaup hófst klukkan hálf 7. Margir þeirra eru yfir 3 að stærð.

1. apríl 2025 kl. 8:00 – uppfært

HS Veitur vel undirbúnar

Páll Erland, forstjóri HS Veitna, segir að starfsemin sé vel undirbúin og þau séu orðin nokkuð vön. Helstu viðbragðsaðilar almannavarna séu komnir í samhæfingarstöð almannavarna og aðrir bíði átekta hvort það verði eldgos. Páll segir það sé ástæða til að hafa áhyggjur enda geti gosin verið óútreiknanleg.

Páll segir að búið sé að uppfæra viðbragðsáætlanir og auka við búnað. Búið sé að koma upp varavatnsbóli og neyðarkyndistöðvum til að tryggja vatn og heitt vatn.

1. apríl 2025 kl. 7:35

Talsverðar líkur á eldgosi á svipuðum stað og síðast

Við erum í miðjum atburði segir Jóhanna Malen Skúladóttir náttúruvársérfræðingur. Hún segir að kvikuhlaup sé í gangi og það verði að koma í ljós hvort það verði eldgos. Það er þó talið líklegt.

Líklegast þykir að kvika brjóti sér leið upp á yfirborðið milli Sýlingarfells og Stóra Skógfells eins og verið hefur í síðustu eldgosum.

1. apríl 2025 kl. 7:33

Yfir 100 skjálftar á klukkutíma

Yfir 100 skjálftar hafa orðið á Reykjanesskaga síðasta klukkutímann, eða síðan kvikuhlaup hófst klukkan hálf sjö.

Ekki er búið að staðfesta stærðirnar en þeir eru allt að 3 að stærð. Þetta segir Jóhanna Malen Skúladóttir náttúruvársérfræðingur.

Gagnafoss jarðskjálftar
Veðurstofa

1. apríl 2025 kl. 7:29

Rýmingu er lokið í Bláa lóninu

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Bláa lónsins, segir rýmingu lokið í Bláa lóninu.

„Það hefur gengið mjög vel að vanda,“ sagði hún í samtali við Morgunútvarp Rásar 2. Rýming hafi tekið um fjörutíu mínútur líkt og í síðustu rýmingum. Gestir séu vel upplýstir og hafi sýnt aðstæðum skilning.

Við áætlum að gestir hafi verið tæplega 150 og með starfsmönnum hafi alls verið um 200 manns á staðnum.

1. apríl 2025 kl. 7:20

Samhæfingastöð Almannavarna virkjuð

Samhæfingastöð Almannavarna hefur verið virkjuð og viðbragðsaðilar eru á leið á sinn stað. Þetta segir Hjördís Guðmundsdóttir samskiptastjóri.

1. apríl 2025 kl. 7:17 – uppfært

„Það stefnir allt í það sé að hefjast eldgos“

Benedikt Ófeigsson fagstjóri aflögunarmælinga er á leiðinni á Veðurstofuna. Hann segir dæmigerð merki um kvikuhlaup hafa sést á mælum Veðurstofunnar. Blíðviðri varð til þess að merki sáust vel á mælum.

Skjálftavirkni hefði hafist og á svipuðum tíma sáust merki frá borholum og ljósleiðurum.

Þetta bendi til þess að eldgos sé líklegt á svipuðum stað og fyrri gos. Hann ræddi við Morgunútvarp Rásar 2 fyrir skömmu. Hann sagði mögulegt að eldgos hefjist ekki þrátt fyrir kvikuhlaup.

„Það stefnir allt í það sé að hefjast eldgos,“ sagði Benedikt.

Benedikt Ófeigsson.
RÚV

1. apríl 2025 kl. 7:14

Gosstöðvarnar í beinni

Hér að neðan má fylgjast með vefmyndavélum frá gosstöðvunum. Tekið skal fram að kvika er ekki komin upp á yfirborðið þegar þetta er skrifað.

1. apríl 2025 kl. 7:12 – uppfært

Hvað er kvikuhlaup, eiginlega?

Páll Einarsson skrifaði þetta svar á Vísindavefinn í fyrra:

„Kvikuhlaup er notað fyrir það fyrirbrigði þegar veggir kvikuhólfs í jarðskorpunni bresta vegna vaxandi þrýstings í hólfinu og kvikan leitar út í sprunguna sem myndast. Kvikufyllta sprungan (kvikugangurinn) getur lengst og víkkað og tekið til sín hluta af kvikunni í hólfinu. Þrýstingur í hólfinu fellur og getur það leitt til landsigs á yfirborðinu yfir hólfinu. Ef kvikugangurinn nær til yfirborðs verður eldgos.“

Kvikugangur er líkt og blað í jarðskorpunni: langur og djúpur, en þunnur.
Kvikugangur er líkt og blað í jarðskorpunni: langur og djúpur, en þunnur. Kvikuhlaup verður þegar þrýstingur vex í sprungunni.RÚV / Kveikur

„Það er líklegast að þessi atburðarás endi með eldgosi,“ segir Benedikt Ófeigsson á Veðurstofunni í samtali á Rás 2. En það er alveg möguleiki á að ekkert eldgos verði.

Mælingar í borholum, á skjálftamælum og svo eru mjög næm tæki í ljósleiðurum á svæðinu sem benda sterklega til þess að kvikuhlaup sé hafið.

1. apríl 2025 kl. 7:11

Bendir fólki á að yfirgefa hættusvæði

Verið er að rýma Grindavík, Bláa lónið og Svartsengi, sagði Úlfar Lúðvíksson Lögreglustjórinn á Suðurnesjum í útvarpsfréttum klukkan sjö.

Dvalið hafi verið í um fjörutíu húsum í Grindavík. Úlfar sagðist eiga von á að gestir í Bláa lóninu hefðu ekki verið margir.

Flautur hafa verið þeyttar til að gefa til kynna rýmingu og lögregla og björgunarsveitir styðja við rýmingu. Hann bendir fólk á að yfirgefa hættusvæðið.

1. apríl 2025 kl. 7:06

Bæjarstjórinn var ekki staddur í Grindavík

Ríkisstjórnin kynnir stuðningsaðgerðir fyrir fyrirtæki og heimili í Grindavík. Blaðamannafundur í Hörpu 17. maí 2024. Fannar Jónasson.
Fannar Jónasson.RÚV / Ragnar Visage

Fannar Jónsson, bæjarstjóri í Grindavík, var ekki staddur í Grindavík þegar fréttastofa náði tali af honum. Hann segist hafa fengið boð um að rýming væri hafin. Hann segir að undanfarið hafi verið dvalið í um 40 húsum.

1. apríl 2025 kl. 7:05 – uppfært

Kvikuhlaup hófst um klukkan hálf sjö

Kvikuhlaup hófst um hálf sjö samkvæmt upplýsingum frá náttúruvárvakt Veðurstofu Íslands. Hún sendi frá sér tilkynningu klukkan 06:45. Þá hófst smáskjálftahrina, breytingar sáust á mælum sem Veðurstofan fylgist með.

Skjálftavirkni hófst við Sundhnúksgíga og heldur áfram suður af Stóra Skógfelli. Líklegt er að ef kvika komi upp þá verði það á þeim slóðum, líkt og sérfræðingar höfðu búist við.

Fylgst er náið með stöðunni og verið er að afla frekari upplýsinga.

Jarðskjálftakort Veðurstofu Íslands.
Skjálftahrina hófst upp úr klukkan sex.Veðurstofa Íslands

1. apríl 2025 kl. 6:59 – uppfært

Dvalið í um 40 húsum í Grindavík

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, fyrir utan Efstaleiti 1.
Úlfar Lúðvíksson.RÚV / Guðmundur Bergkvist

Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri á Suðurnesjum segir að undanfarið hafi verið dvalið í um 40 húsum í Grindavík. Hann telur að fjöldinn sé svipaður nú en nákvæmur fjöldi liggur ekki fyrir.

1. apríl 2025 kl. 6:57

Kvika ekki komin upp á yfirborðið

Kvikuhlaup hófst við Sundhnúksgígaröðina nú skömmu fyrir klukkan sjö. Kvika er ekki komin upp á yfirborðið þegar þetta er ritað.

Rýming Grindavíkur og nágrennis er hafin, að sögn Hjördísar Guðmundsdóttur, samskiptastjóra almannavarna.