Ynjur tryggðu sér í kvöld Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí kvenna eftir sigur á Ásynjum.
Ynjur unnu fyrsta leikinn í úrslitaeinvíginu en Ásynjur jöfnuðu metin í einvíginu í 1-1 með því að vinna leik númer tvö og knúðu þar með fram oddaleikinn sem spilaður var í kvöld, og eftirvænting norðanfólks var mikil. Eftir rétt tæplega níu mínútna leik sóttu Ynjur hratt fram svellið og náðu lipru og góðu spili fyrir fram mark mótherjanna sem lauk með því að Sunna Björgvinsdóttir skoraði og kom Ynjum þar með í 1-0.
Þannig var staðan þar til sex mínútur voru eftir af öðrum þriðjungi leiksins þegar Alda Arnarsdóttir kom pökknum í markið og jafnið þar með metin fyrir Ásynjur í 1-1. En áður en öðrum leikhluta lauk hafði Silvía Björgvinsdóttir komið Ynjum yfir á ný þegar hún skoraði þegar innan við mínúta var eftir af leikhlutanum og kom Ynjum þar með í 2-1. Og hagur Ynja vænkaðist enn frekar rúmum tólf mínútum fyrir leikslok þegar Hilma Bergsdóttir kom þeim í 3-1 með þessu marki.
Sjö mínútum fyrir leikslok virtust úrslitin svo ráðin þegar Sunna Björgvinsdóttir skoraði annað mark sitt í leiknum og breytti stöðunni í 4-1 fyrir Ynjur. Fleiri mörk voru ekki skoruð og Ynjur eru því Íslandsmeistarar kvenna í íshokkí árið 2017.