Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir að fólk eigi að vera meðvitað þegar það fer á útsölur og helst vita áður en það stígur þar inn hvað það ætlar að fá sér. Margt sé að varst.

 

„Við þurfum að hugsa vel og vandlega hvort við þurfum á hlutunum sem við erum að kaupa að halda. Hvert notagildi þeirra sé fyrir okkur. Það er náttúrulega algjör synd ef við erum að kaupa hluti sem eru kannski framleiddir hinum megin á hnettinum, flogið yfir allan hnöttin, opnaðir um jólin og enda svo niðri í geymslu við hliðina á fótanuddtækinu,“ sagði Breki í Morgunútvarpinu á Rás 2. Þar ræddi hann hvernig neytendur ættu að bera sig að á útsölum og við fleiri innkaup.

Breki sagði gott að undirbúa sig fyrir útsölur. „Sérstaklega með dýra vöru þá er mjög gott að vera búinn að hugsa málið, bera saman tæki og tegundir og vita hvert grunnverðið er á tækjum, segjum þvottavél eða eitthvað slíkt, og vera þá búinn að byrgja sig upp af upplýsingum. Mikill afsláttur af vöru með mikla álagingu er ekki endilega gott verð eða góð kaup.“

Oft vaknar grunur um að verð sé hækkað rétt fyrir útsölur og tilboðsdaga til að gefa til kynna meiri afslátt en raun ber vitni, eða jafnvel fela verðhækkun á tilboði.

„Við hjá Neytendasamtökunum fáum alltaf tilkynningar um slíkt öðru hverju. Við fengum slíkar tilkynningar í aðdraganda föstudagsfársins, Black Friday, í nóvember. Þar var einhver vél sem hafði hækkað um 20 þúsund bara til þess að gefa 10 þúsund króna afslátt í föstudagsfárinu.

Það er náttúrulega dálítið svæsið dæmi. 

Það er það. Svo náttúrulega skoðuðum við það og sendum fyrirspurn til fyrirtækjanna. Þá fáum við yfirleitt alltaf sömu svörin, það er náttúrulega gengisbreyting á krónunni, ný sending eða eitthvað slíkt sem varð til þess að það þurfti að hækka verðið.

Þetta getum við auðvitað ekki sannreynt, er það?

Það er erfitt að sannreyna það. Við búum við mjög flöktandi krónu. Hún á það til að lækka skarpt. Við fáum hækkanirnar alltaf um leið inn í verðið en tregara í hina áttina einhverra hluta vegna.“

Breki segir margar leiðir til að fylgjast með og bera saman verð og þjónustu. Meðal annars með því að gera samanburð við útlönd. Þá sé fólk sífellt duglegra að láta vita þegar það verður vart við eitthvað sem því þykir vafasamt. 

Verslanir verða að birta fyrra verð á útsölum segir Breki. „Verðlækkun má bara standa í sex vikur og þá er það orðið að verðinu. Þá er ekki hægt að tala um lækkað verð lengur.“

Skilaréttur er takmarkaðri hér en víða erlendis og misjafn eftir því hvort að vara sé keypt í búð eða gegnum netið. „Við erum ekki með nein lög um skilarétt á ógallaðri vöru. Þannig að skilaréttur á ógallaðri vöru er í rauninni í sjálfsvald sett hverri verslun. Það er frekar miður,“ segir Breki. „Til dæmis er það þannig að ef þú kaupir vöru á netinu ertu með fortakslausan skilarétt í fjórtán daga frá afhendingu vörunnar og getur þá skilað henni, jafnvel þó að þú sækir vöruna í búðina. Þú ert með sterkari rétt á netinu en í búðinni.“