Yfirmaður Strandgæslunnar hafnar skipun Trumps

01.08.2017 - 19:35
epa06119227 US President Donald J. Trump delivers remarks beside a portrait of George Washington (R) before awarding the Medal of Honor to former US Army medic and Vietnam War veteran James McCloughan (not pictured), during a ceremony in the East Room of
 Mynd: EPA
Paul Zukunft, aðmírall og yfirmaður Strandgæslunnar bandarísku, sagði í dag að Strandgæslan myndi ekki snúa baki við transfólki í sinni þjónustu. Þetta sagði hann í kjölfar yfirlýsinga Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um að transfólki yrði bannað að þjóna í öllum deildum bandaríska hersins. Yfirlýsing Trumps þessa efnis kom fólki í opna skjöldu, þar á meðal varnarmálaráðuneytinu.

Zukunft sagði á fundi hugveitu í Washington í dag að búið væri að hafa samband við allt transfólk í Strandgæslunni, það væru þrettán manns. Hann nefndi sérstaklega lautinant sem fjallað var um í frétt Washington Post á dögunum. „Ég ræddi sérstaklega við Taylor Miller lautinand sem var fjallað um á forsíðu The Washington Post í síðustu viku,“ sagði Zukunft. „Fjölskylda Taylors sneri baki við henni. Nú er Strandgæslan fjölskylda hennar. Ég sagði Taylor að ég myndi ekki snúa við henni baki. Við höfum fjárfest í henni og hún hefur fjárfest í okkur og ætla að koma fram gagnvart henni af trúmennsku.“