Akihito Japanskeisari afsalaði sér í dag keisarartign en þetta er í fyrsta skipti í tvö hundruð ár sem það gerist. Akihito er yfirleitt elskaður og dáður af þegnum sínum og valdtími hans er kenndur við frið. Krónprinsinn tók formlega við hásæti tryggðarblómsins á miðnætti að staðartíma.
Þjóðsöngur Japans heitir Kimigayo sem yfirleitt er þýtt sem valdatíð keisarans. Þjóðsöngurinn er stuttur og laggóður en þar segir í lauslegri þýðingu: Megir þú ríkja í tíu þúsund ár, þar til steinvölur verða að hnullungum, blómlegum og mosavöxnum. Lengra er þetta þúsund ára ljóð ekki.
Táknrænn leiðtogi og sameiningartákn
Mikil tímamót eru í keisaradæminu í dag. Keisarinn Akihito afsalaði sér formlega keisaratign við hátíðlega athöfn og ávarpaði þjóð sína í hinsta sinn. Hann er fyrsti Japanskeisari til að afsala sér völdum í meira en tvö hundruð ár. Keisarinn er áttatíu og fimm ára að aldri og fékk formlegt leyfi til að afsala sér völdum þar sem hann taldi sig ekki geta sinnt embættisskyldum með fullnægjandi hætti, sökum aldurs og versnandi heilsu. Japanskeisari hefur engin formleg völd en er táknrænn leiðtogi og sameiningartákn þjóðarinnar.
Farsæld og friður fylgi nýjum keisara
Í lokaávarpi sínu í dag sagði Akihito að hann óskaði þjóð sinni og heimsbyggðinni allri friðar og farsældar. Hann þakkaði þjóð sinni fyrir að viðurkenna sig og styðja sem sameiningartákn þjóðarinnar. Þau hjónin óski þess frá dýpstu hjartarótum að nýjum keisara fylgi farsæld og friður og sjálfur ætli hann að biðja fyrir velferð og hamingju þjóð sinni til handa og heimsbyggðinni allri.
Vor í lofti og sól í sinni
Valdaskiptin fara fram í gullnu vikunni svokölluðu sem er árlegt vorfrí í Japan sem hefur verið lengt í tíu daga vegna keisaraskiptanna. Þjóðin er því í hátíðarskapi nú, ólíkt því þegar Akihito tók við af föður sínum fyrir þrjátíu árum. Þá ríkti þjóðarsorg vegna fráfalls keisarans. Nú er vor í lofti og sól í sinni, fólk að ferðast og mikið um hátíðarhöld. Landsmenn fylgjast þó flestir með útsendingum í tengslum við keisaraskiptin.
Afsalaði sér guðdómleikanum
Japanska keisaradæmið er elsta arfgenga konungdæmi veraldar sem samkvæmt þjóðsögum má rekja allt aftur til um sex hundruð fyrir Kristsburð. Litið var á keisarann sem guð allt til loka síðari heimsstyrjaldarinnar. Faðir Akihito og fyrrverandi keisari Hirohito afsalaði sér guðdómleikanum í lok styrjaldarinnar samhliða uppgjöf Japana. Þegar Hirohito lést 7. janúar árið 1989 tók Akihito við hásæti tryggðarblómsins, hinn hundrað tuttuguasti og fimmti í þessu elsta ættarveldi veraldar. Mikill uppgangur var í Japan við keisaraskiptin og meiri velmegun en áður hafði þekkst. Sony var við það að kaupa Columbia Pictures og Mitsubishi að kaupa Rockefeller Center í New York. Japan var hið rísandi stórveldi heimsbyggðarinnar. Innan við ári eftir að Akihito tók við sprakk blaðran og hlutabréfamarkaðurinn hrundi um meira en þriðjung. Enn þann dag í dag, þrjátíu árum síðar, er hlutabréfaverð og fasteignaverð lægra en það var árið 1990.
Einlæg samúð snart þjóðina djúpt
Heisei-tíminn eins og valdaskeið Akihito er nefnt og merkir friðartími er því tímabil stöðnunar á efnahagssviðinu. Margir tengja keisaratíma hans við hörmungar. Í janúar árið 1995 lagði jarðskjálfti borgina Kobe í rúst, byggingar og samgöngumannvirki hrundu, eldar loguðu dögum saman og himininn varð svartur. Um sex þúsund létu lífið. Árið 2011 varð enn öflugri jarðskjálfti á norðausturströndinni. Sá mældist níu að styrkleika og er sá fjórði sterkasti sem mælst hefur í heiminum. Honum fylgdi mikil flóðbylgja með tilheyrandi eyðileggingu. Sextán þúsund manns lágu í valnum. Eftir þann skjálfta steig keisarinn niður til þjóðar sinnar með eftirminnilegum hætti. Hann byrjaði á því að ávarpa þjóðina í sjónvarpi og tveimur vikum síðar fóru keisarahjónin í búðir fyrir fórnarlömb flóðbylgjunnar. Keisarhjónin lögðust á kné með allslausum fórnarlömbunum og sýndu innilega samúð. Enginn Japanskeisari hafði gert nokkuð þessu líkt. Margir hinna íhaldssömu voru í áfalli en hluttekning keisarahjónanna og einlæg samúð snart þjóðina djúpt.
Vilja afmá sögulegan masókisma eftirstríðsáranna
Hirohito faðir hans var ekki bara keisari, hann var líka guð þjóðarinnar þegar Japan var í trylltri útþenslu á fimmtán ára skeiði á fjórða og fimmta áratugnum. Akihito var tólf ára þegar styrjöldinni lauk með kjarnorkusprengingum í Hiroshima og Nagasaki. Akihito er einlægur friðarsinni og hefur sjálfur sagt að stoltastur sé hann af þeirri staðreynd að ekki einn einasti japanski hermaður hefur fallið í hernaði í valdatíð hans. Akihito hefur lagt sig í líma við að græða sár frá útþensluskeiði föður síns og ferðast til þeirra landa sem helst urðu fyrir barðinu á yfirgangi Japana. Hann naut stuðnings stjórnvalda í fyrstu við að gangast við misgjörðum forfeðranna en á síðari árum hafa afsakanir og friðarstefna farið úr tísku. Nú vilja stjórnvöld breyta stjórnarskránni, lögð er áhersla á þjóðrækni og og ráðamenn vilja afmá það sem þeir kalla sögulegan masókisma eftirstríðsáranna. Á sjötíu ára stríðslokaafmælinu árið 2015 héldu forsætisráðherrann og keisarinn báðir ræðu. Forsætisráðherrann sagði að friður og velsæld samtímans væri þeim þremur milljónum Japana sem féllu í stríðinu að þakka. Keisarinn sagði hins vegar hagsældina tilkomna vegna mikilla fórna og vinnusemi eftirstríðskynslóðanna.