Yfir 31 þúsund manns hafa horft á myndbandið við framlag Íslands til Eurovision söngvakeppninnar, sem verður haldin í Malmö í maí. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vodafone.

Myndbandið við lagið „Ég á líf" var frumsýnt í hádeginu í dag og hófst fjörug umræða um það á Twitter samskiptamiðlinum í framhaldinu. Þar vekur athygli að í myndbandinu sé karfi slægður um borð í bátnum, miklar vangaveltur hafa verið um atburðarásina og heit umræða um teiknuðu atriðin í myndbandinu. Myndbandið verður sýnt í Kastljósþætti kvöldsins og verður svo aðgengilegt í Leigunni í Vodafone Sjónvarpi ásamt innslagi sem sýnir bak við tjöldin við myndbandsgerðina.