Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir hug sinn hjá starfsfólki WOW sem nú sé að missa vinnuna. Hún segir gjaldþrot félagsins ekki koma á óvart. „En auðvitað eru það vonbrigði að félagið skuli ekki hafa komist í gegnum þennan óveðursstorm. Við bundum vonir við það en þetta hefur verið langur óveðurskafli í starfsemi félagsins.“
Hún segir að fyrstu vísbendingar um að svona kynni að fara hafi birst í seint í gærkvöld og svo hafi hún frétt af gjaldþrotinu í morgun. „Mér hefur lærst það í að gera ekki ráð fyrir neinu í tilfelli þessa flugfélags því það hefur auðvitað oft bjargað sér fyrir horn.“
Katrín segir að stjórnvöld hafi fylgst grannt með framvindunni síðan í haust en tekur fram að staða hagkerfisins sé vel í stakk búið til að takast á við þessa áskorun. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sé gert ráð fyrir kólnun hagkerfisins og auka verulega opinbera fjárfestingu til að mæta þessum slaka til að tryggja atvinnustig.
Katrín segist ekki hafa heyrt í Skúla Mogensen en ráðherrarnir hafi farið yfir stöðu mála og stöðu þeirra farþega sem séu strandaglópar. „Við vonum að það gangi greitt að koma fólki á milli staða.“ Hún segir að nú þegar séu önnur flugfélög byrjuð að bjóða upp á sérstök björgunarfargjöld.
Katrín segir að stjórnvöld hafi ekki getað komið í veg fyrir að svona fór. Engu að síður sé mjög mikilvægt að stjórnvöld séu viðbúin áföllum eins og þessum og það sé ríkisstjórnin.„Það liggur fyrir að þetta hafi áhrif á ferðaþjónustuna,“ segir Katrín en hægt er að horfa á viðtalið við hana í heild sinni hér að ofan.