WOW air hefur þurft að fella niður flugferðir til minnst sex flugvalla. Félagið segir að endurskipulagning leiðakerfis og fækkun í flota skýri þessar niðurfellingar.
WOW air tilkynnti um mikinn samdrátt í rekstri flugfélagsins um miðjan desember. Fækkað var um 111 fastráðna starfsmenn, ákveðið var að fækka flugvélum félagsins úr tuttugu og fjórum í 11 auk þess sem tilkynnt var að áfangastöðum yrði fækkað. Um svipað leyti var tilkynnt að bandaríska fjárfestingafélagið Indigo Partners væri tilbúið að fjárfesta fyrir rúma 9 milljarða í félaginu, en fjárfestingin er háð ákveðnum skilyrðum.
Félagið hefur að undanförnu tilkynnt farþegum að það hafi neyðst til að fella niður ákveðnar flugferðir. Fyrir fjórum dögum sendi félagið farþega póst, en sá átti bókað flug til Mílanó 24. janúar. Í póstinum kemur fram að vegna ófyrirsjáanlegra aðstæðna neyðist félagið því miður til að fella flugið niður. Í póstinum er slóð á vefsvæði þar sem farþeganum er gefinn kostur á að fljúga annað, eða fá miðann endurgreiddan. Fréttastofa hefur undir höndum eins póst til annars farþega sem átti bókað flug til Gatwick-flugvallar í Lundúnum 21. janúar.
Fréttastofa óskaði upplýsinga frá WOW um málið og fékk eftirfarandi svar í tölvupósti:
„Í ljósi endurskipulagningar á leiðarkerfi félagsins og fækkunar í flota hefur reynst nauðsynlegt að fella niður flug. Þetta á við staði á borð við Los Angeles, San Francisco, Nýju-Delí og Chicago. Öllum farþegum er boðið að fá endurgreitt eða að velja nýjan áfangastað.“
Þegar fréttastofa óskaði frekari upplýsinga, meðal annars um hversu margar ferðir hafi verið felldar niður, var sagt að frekari upplýsingar yrðu ekki gefnar að svo stöddu.