Vörslusviptingu nautgripa á Suðurlandi aflétt

08.03.2017 - 14:13
Mynd með færslu
Þeir gripir sem haldnir voru í húsi komust ekki í mjölið. Myndin er úr safni.  Mynd: RÚV
Matvælastofnun hefur aflétt vörslusviptingu á nautgripabúi á Suðurlandi, en gripið var til hennar vegna vanfóðrunar dýra og aðbúnaðar þeirra. Um mánaðamótin janúar-febrúar var ástandið metið sem svo að aðgerðir þoldu ekki bið, en áður hafði ítrekað verið reynt að ná fram úrbótum. Átta gripum var slátrað.

Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun, MAST, hefur málið verið til lykta leitt með farsælum hætti, en bóndinn mun hafa brugðist við með fullnægjandi hætti að mati stofnunarinnar. Ekki fæst uppgefið um hvaða bæ ræðir.

Vörslusviptingin stóð yfir í tæpar tvær vikur, en ekki hafði verið brugðist við ítrekuðum ábendingum stofnunarinnar og því var gripið til hennar. Einnig þurfti að slátra átta gripum. Að sögn héraðsdýralæknis MAST á Suðurlandi, Gunnar Þorkelssonar, var það gert til að búa til pláss fyrir önnur dýr. Þeir gripir sem sendir voru í slátrun voru sumir vannærðir eða með júgurbólgur, og þá var kálffullum gripum ekki slátrað. Hann segir að þó aðgerðum MAST sé lokið á bænum í bili verði áfram grannt fylgst með þróun mála.

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV