Sigrún Eldjárn minntist þess þegar hún flutti fjórtán ára gömul á Bessastaði þegar hún tók á móti Íslensku bókmenntaverðlaununum í gær. Hún viðurkenndi að það hafi reynst unglingi erfitt að flytja úr borginni en búsetan hafi samt haft sínar björtu hliðar.

Sigrún Eldjárn hlaut í gær Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og ungmennabókmennta fyrir bókina Silfurlykillinn. Afhending verðlaunanna fór sem fyrr fram á Bessastöðum, þar sem Sigrún bjó í forsetatíð föður síns Kristjáns Eldjárns.

„Það er hátíðlegt og ekki síður heimilislegt fyrir mig að viðburðurinn skuli eiga sér stað hér á Bessastöðum. Hingað flutti ég fjórtán ára gömul þegar pabbi fékk nýtt djobb. Og það er rétt rúm hálf öld síðan þótt ótrúlegt sé. Það verður reyndar að segjast eins og er að það var frekar fúlt fyrir Reykjavíkurungling að flytja úr Þjóðminjasafninu og langt, langt út í sveit.“

Búsetan hafði þó sínar björtu hliðar sagði Sigrún. „Það var líka mjög fínt að spila badminton hér í móttökusalnum, þó að þessi kristalsljósakróna hafi stundum þvælst fyrir.“

Sigrún sagði í ræðu sinni ekki ætla að vera með neinn bölmóð um að barnabókmenntir séu verr metnar en bókmenntir fyrir fullorðna. „Við vitum öll svo innilega vel að barnabækur eru lang, lang mikilvægasta bókmenntagreinin og kjör þeirra rithöfunda og myndlistarmanna sem helga sig þeim hljóta að fara stórlega batnandi – bara strax á morgun.“

Silfurlykillin gerist í framtíðinni þegar tæknin sem við treystum á í dag virkar ekki lengur. Sagan var nokkur ár í vinnslu og sagði Sigrún erindi hennar sífellt verða brýnna meðan hún skrifaði hana. „Vegna alls þess sem er að gerast í heiminum, og sem að okkur steðjar í kjölfar loftslagsbreytinga. En eins og kemur fram í sögunni er vonin í börnunum og í bókunum. Ýmislegt leggur maður á sögupersónur sínar en ég veit að krakkarnir í þessari bók, Sumarliði, Sóldís og Karítas, ásamt öllum öðrum krökkum í heiminum, eiga eftir að bjarga jörðinni – ef við erum dugleg að lesa fyrir þau og halda að þeim góðum bókum.“