„Það hefur alltaf staðið til til framtíðar að byggja meðferðarheimili hér í jaðri höfuðborgarinnar og það er gríðarlega ánægjulegt að við séum að koma því verkefni af stað hér í dag og jafnframt búin að bregðast við til bráðabirgða þangað til þetta meðferðarheimili rís,“ segir Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra og vísar til þess að bráðavandi hafi verið leystur með skipulagsbreytingum á Stuðlum. Stefnt er að því að framkvæmdir við nýja heimilið hefjist á árinu 2020.

„Það hefur tekið langan tíma að finna lóð fyrir þetta og við erum gríðarlega ánægð með það að það er búið að ná þeim áfanga núna í dag að þessi vinna er að hefjast og hér geti risið þetta nýja meðferðarheimili.“

Ásmundur Einar skrifaði síðdegis undir sameiginlega viljayfirlýsingu í dag um að byggt verði í Garðabæ meðferðarheimili fyrir börn á aldrinum 15 til 17 ára. Heimilið verður fyrir börn sem þurfa sérhæfða meðferð vegna alvarlegs hegðunar- og/eða vímuefnavanda. Þar geta ungmenni á þessum aldri afplánað óskilorðsbundna fangelsisdóma í meðferð í stað fangelsisvistar og eftir atvikum setið í gæsluvarðhaldi. 

Velferðarráðuneytið tryggir Barna­vernd­ar­stofu fjár­magn til að byggja meðferðar­heim­il­ið en Barna­vernd­ar­stofa ann­ast starf­semi og rekst­ur þess. 

„Nú hefst skipulagsvinna og samstarf á milli Barnaverndastofu og Garðabæjar um skipulagsmálin hér og hönnun hússins. Vonandi tekur það sem skemmstan tíma. En ég ítreka það að þangað til, í góðu samstarfi við barnaverndarnefndir landsins, við Stuðla og aðra þá sem að þessu koma, að þá eigum við að vera búin að leysa til bráðabirgða þann vanda sem þar er uppi,“ segir Ásmundur Einar. „Það standa vonir til þess að það geti hafist hér framkvæmdir á árinu 2020 og framkvæmdum ljúki þá. En það veltur allt á því hvernig vinnan vindur fram núna. Þetta hefur gengið vel, samtalið við Garðabæ, og vinnan í tengslum við þetta. Ég á bara von á því að allir bretti upp ermar vegna þess að þetta er gríðarlega mikilvægt til lengri tíma litið að við getum byggt hér nýtt meðferðarheimili.“

Er heimilið nógu stórt? „Þetta er það sem menn meta að sé þörfin. Auðvitað er það svo að það eru fleiri úrræði sem eru í gangi. Við þurfum fjölbreytta flóru úrræða og þetta er eitt þeirra úrræða sem þarna er og ég er mjög ánægður með að við séum að koma því af stað í dag.“

Arnhildur Hálfdánardóttir fréttamaður ræddi við Ásmund Einar Daðason síðdegis. Hægt er að horfa á allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan.