Vonast eftir sáttum á miðstjórnarfundinum

19.05.2017 - 08:19
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir engan málefnaágreining innan flokksins en að það skorti samstöðu innan þingflokksins. Hann hyggst áfram gefa kost á sér til formennsku og telur sig hafa stuðning varaformanns flokksins.

Sigurður Ingi gerir ráð fyrir hreinskiptum umræðum á miðstjórnarfundinum á morgun og vonast til að þar verði hægt að gera upp flokksþingið í haust þegar hann velti Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni úr sessi og atburði síðasta vors.

„Það er ekki málefnalegur ágreiningur í Framsóknarflokknum. Þetta snýst kannski um að ákveðinn hópur sættir sig ekki við lýðræðislega niðurstöðu á flokksþingi. Að menn séu svolítið að reyna nánast að búa til ágreining til þess að hafa ágreining. Ég held að þessi fundur okkar verði notaður til að slíðra þau sverð vegna þess að við öll sem þarna mætum erum kjarni Framsóknarflokksins og við viljum flokknum það besta. Ég er tilbúinn til að gefa kost á mér til að leiða flokkinn áfram í þessum ólgusjó en það er undir flokksmönnum komið. Það eru þeir sem ráða,“ sagði Sigurður Ingi á Morgunvaktinni í morgun. 

Sigurður Ingi telur sig hafa stuðning Lilju Alfreðsdóttur, varaformanns flokksins. „Já, það held ég, enda er hún varaformaður flokksins. Við eigum mjög gott samstarf. Lilja er auðvitað að koma ný inn í pólitík, gerir það með glæsibrag og er einn af framtíðarleiðtogum flokksins.“

Sigurður Ingi telur vera hljómgrunn í samfélaginu fyrir stefnumálum Framsóknarflokksins og þykir sárt hversu lágt fylgi flokkurinn hefur mælst með í könnunum. „Bæði hissa en kannski meira svolítið svekktur yfir því að við skyldum ekki hafa meira upp úr kjörkössunum í haust í kjölfarið af mjög góðu kjörtímabili. Ef ég er hins vegar sanngjarn og lít yfir ferilinn alveg frá því ég kem inn á þing árið 2009 þá höfðum við í aðdraganda þess verið að mælast mjög lág, fimm, sex og sjö prósent. Náðum síðan 15 prósentum í kosningunum en duttum niður fyrir tíu prósent. Við sem vorum ung og áköf og fannst við vera að gera mjög góða hluti í stjórnarandstöðu auðvitað á mjög erfiðum tíma vorum svolítið óþolinmóð að fá einhvern stuðning í samfélaginu.“

Icesave málið hafi rifið fylgið aðeins upp árið 2011 en frá þeim tíma mælst með fylgi upp á 11 til 13 prósent. „Nema hálft ár í aðdraganda kosninganna 2013 þegar við förum í 25. En mjög skömmu síðar, í ríkisstjórn gerandi góða hluti, dettum við niður í 12 til 13 prósent og liggjum þar allan tímann. Við höfum kannski í nokkuð langan tíma ekki verið með mikið stærra kjarnafylgi. Það eru líka eðlilegar skýringar á því þegar við sendum þau skilaboð út að við séum ekki nægilega öflugur samstæður hópur. Þá skil ég vel að fólkið í landinu sé ekki tilbúið til að segja: Við treystum ykkur.“

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi