Vitræn hryllingsmynd um rótgróinn rasisma

28.04.2017 - 11:15
Samfélagslega hryllingsmyndin Get Out, eða Komdu þér út, hefur vakið heilmikla umræðu vestanhafs og ekki að ástæðulausu. Myndin er eftir bandaríska leikstjórann Jordan Peele, og er að mati kvikmyndarýnis Lestarinnar ein eftirminnilegasta hryllingsmynd sem sést hefur lengi.

Gunnar Theodór Eggertsson skrifar:

Óþægilegur undirstónn strax í upphafsatriði

Kjarninn birtist í raun strax í upphafsskotum myndarinnar, þar sem ungur svartur maður ráfar um ríkmannlegt og hvítt úthverfi og tekur að óttast um öryggi sitt. Saga hryllings á tuttugustu öld snýst að miklu leyti um að færa hryllinginn heim að dyrum og tímamótaverk John Carpenters, Halloween, gerði endanlega útaf við áhorfendur með því að færa morðingjann inn í úthverfin, þá fullkomnu bandarísku ímynd um öryggi og heimilislíf. En hér er annar tónn ríkjandi, því hryllingurinn sprettur upp úr ótta unga mannsins við að lenda í rasískum ofbeldisseggjum, jafnvel lögreglunni sjálfri, og það þarf engan yfirnáttúrulegan morðingja til að veita upphafssenunni óþægilegan undirtón.

Sjónarhorn svartra

Sjónarhorn svartra er markvisst notað í Get Out til að draga fram hrylling og óþægindi úr hversdagsleikanum, en myndin segir frá ungum svörtum ljósmyndara, Chris, sem á hvíta kærustu og saman eru þau á leið að hitta fjölskyldu hennar í fyrsta skipti. Þau vita ekki af litarhafti Chris og hann óttast að það muni spila á fordóma þeirra megin, en kærastan þykist viss um að svo verði ekki. En að sjálfsögðu reynast áhyggjur Chris réttar, þótt alvarleikinn komi ekki í ljós fyrr en langt er liðið á myndina. Lengi vel upplifir hann það sem helst væri hægt að kalla hversdagslegan rasisma, nokkuð sem ungi maðurinn er þaulvanur en hvíta forréttindakærastan alls ekki, eins og sjá má í þessu broti þegar parið er yfirheyrt af vegalöggu:

Hvít forréttindaveisla - sendiherra svartrar menningar

Get Out er nánast eins og tvær myndir í einni, önnur sem snýst um upplifun aðalpersónunnar sem svartur maður í þrúgandi hvítu umhverfi, og hin nokkuð hefðbundin hryllingsmynd sem bíður alltaf handan við hornið. Við áhorfendurnir vitum auðvitað að þetta er hryllingsmynd og höfum því ákveðnar væntingar um áframhaldið, en fyrsti hlutinn svínvirkar á grunni hryllingsins sem við skynjum í gegnum sjónarhorn unga  mannsins sem mætir í hvítustu forréttindaveislu sem hægt er að hugsa sér.

Nístandi vandræðalegheit byggjast upp og þótt við hlæjum þá vitum við líka að öll svona atriði safnast saman og gera daglegt líf svartra flóknara fyrir vikið. Chris bregst líka við flestu eins og um daglegt brauð sé að ræða, eins og þegar gestir fara umsvifalaust að tala um Obama eða Tiger Woods og koma klunnalega fram við hann eins og Chris sé sendiherra svartrar menningar. Kærastan virðist vera að upplifa þetta sjónarhorn í fyrsta skipti og tekur það nærri sér, á meðan Chris bítur á jaxlinn og lætur sig hafa flest því hann einfaldlega nennir ekki að rugga bátnum í þessari fyrstu heimsókn til tengdaforeldranna. Eftir því sem málin flækjast getur hann auðvitað ekki litið framhjá því lengur og auðvitað býr eitthvað mun brjálaðra að baki, því þetta er eftir allt saman hryllingsmynd.

Vel skrifuð

Það er þó ekki fyrr en í síðasta hlutanum að myndin fer á fullt hvað varðar blóð og ofbeldi, en það er í raun hinn hryllingurinn – stemningin, andrúmsloftið, togstreitan og kynþáttapólitíkin – sem gerir myndina svo góða. Handritið er reglulega vel skrifað og fullt af snjöllum línum sem eru í senn fyndnar og óþægilegar, sérstaklega allt sem vellur upp úr tengdapabbanum, eins og þegar hann reynir að réttlæta svarta þjónustufólkið án þess að hljóma eins og gamaldags nýlenduherra, eða þegar hann stærir sig af því hversu dásamlegt það er að geta ferðast um allan heim og kynnst menningarheimum annarra.

Myndin er gegnsósa af pólitískri fortíð, nýlendustefnan og þrælahaldið er samofið söguheiminum án þess að vera beinlínis uppi á yfirborðinu, og þannig endurspeglar myndin líka bandarískan samtíma á svo áhugaverðan og grípandi hátt. Leikstjórinn og handritshöfundurinn Jordan Peele spilar líka á alls konar áhugavert myndmál hvað þetta varðar, allt frá uggvænlegum bingóleik gamla fólksins yfir í skrautlegan tebolla sem eitt helsta hryllingstákn myndarinnar.

Vitsmunalegur hryllingur

Catharine Keener og Bradley Whitford eru stórkostleg sem tengdaforeldarnir og virka eins og afkomendur Castevets-hjónanna úr Rosemary‘s Baby, álíka indæl og ógnandi og sakleysislegu nágrannarnir voru í þeirri mynd, og Get Out sækir líka augljós áhrif til The Stepford Wives hvað varðar undarlegar breytingar sem virðast hafa orðið á öllu svörtu fólki á svæðinu. Myndin er í senn satíra og samfélagsádeila um kerfisbundinn og rótgróinn rasisma og enn fremur vel heppnuð hryllingsmynd, þótt hún sé það óvenjuleg í uppbyggingu að hryllingurinn verður aldrei yfirþyrmandi, heldur kannski frekar forvitnilegur og fyrst og fremst vitsmunalegur. Leikstjórinn er helmingur gríntvíeykisins Key & Peele og hann virðist hafa meiri áhuga á satírunni og tvíræðninni heldur en endilega að skapa hefðbundna hryllingsmynd, og það eitt og sér gerir Get Out eina af eftirminnilegustu hryllingsmyndum sem ég hef séð upp á síðkastið.

 

Mynd með færslu
Eiríkur Guðmundsson
dagskrárgerðarmaður
Lestin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi