„Ég hef alltaf verið að leita að formi sem ég fyndi mig í eftir að ég gaf út fyrstu ljóðabókina mína. Hún var eiginlega alltof löng,100 síður, þannig að ég hafði eiginlega ekkert meira að segja eftir að hún kom út,“ sagði Haukur Ingvarsson í viðtali við Víðsjá daginn sem hann tók við verðlaunum Tómasar Guðmundssonar fyrir handritið að nýrri ljóðabók sinni Vistarverum.

Haukur segir upphaf handrits ljóðabókarinnar Vistarverur hafa verið langan bálk sem hann kallaði. „Upp upp niður niður og var nú eiginlega bara guðlast. Ég fann að þar var rétta formið komið en ég var hins vegar ekkert endilega sáttur við innihaldið. Ég byrjaði svo að safna línum sem enduðu ekki í skúffu heldur uppi á skrifborðinu og smám saman fæddist þetta handrit.“

Haukur Ingvarsson er fæddur árið 1979. Hann lauk meistaraprófi í íslenskum bókmenntum árið 2005 og hefur síðan fengist við ritstörf og dagskrárgerð í útvarpi. Hann leggur nú stund á doktorsnám í íslenskum bókmenntum og skrifar um viðtökur Williams Faulkner á Íslandi.

Fyrsta ljóðabók Hauks, Niðurfall og þættir af hinum dularfulla Manga, kom út 2005 og í kjölfarið komu fræðibókin Andlitsdrættir samtíðarinnar: Síðustu skáldsögur Halldórs Laxness (2009) og skáldsagan Nóvember 1976 (2011).

Ljóðabókin Vistarverur eftir Hauk Ingvarsson er Bók vikunnar. Viðmælendur Auðar Aðalsteinsdóttur um bókina eru þau Sólveig Ásta Sigurðardóttir bókmenntafræðingur og Þórður Helgason, íslenskufræðingur og skáld. Hlusta má á þáttinn í heild hér: