„Vissum að við værum að fara að tapa hérna“

18.05.2017 - 22:05
„Við vissum að við værum að fara að tapa hérna, við viljum fara með þetta í fimm leiki og fagna á heimavelli þeirra. Það er miklu skemmtilegra fyrir okkur,“ sagði Sveinn Aron Sveinsson leikmaður Vals eftir tapið gegn FH í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins í handbolta í kvöld.

Allir leikir úrslitakeppninnar til þessa hafa unnist á útivelli og var Sveinn Aron lítið að velta sér upp úr úrslitum kvöldsins. „Þess vegna vorum við ekkert að stressa okkur á þessu, við vissum að við ættum „heimavöllinn“ okkar eftir. Þetta er bara búið að vera okkar heimavöllur í Kaplakrikanum, við spilum miklu betur þar, svo það er bara ágætt að eiga lokaleikinn þar.“ 

Sveinn var með nokkuð skýra útskýringu á því hvers vegna Valsmenn töpuðu leiknum. „Við mættum bara ekki til leiks. Það var aðal vandamálið. En við vöknuðum aðeins í seinni hálfleik og tókum einhverja smá rispu en það er bara ekki nóg þegar þú ert að spila fjórða leik í úrslitakeppni að ætla að taka einhverja tíu mínútna rispu, það bara dugir ekki. En við bara mætum og spilum vel á sunnudaginn. Þetta er ekkert vandamál.“

Mynd með færslu
Kristjana Arnarsdóttir
íþróttafréttamaður