Starfsgreinasambandið ætlar ekki að vísa kjaradeilu sinni við atvinnurekendur til sáttasemjara fyrir jól. Þetta var samþykkt á formannafundi sambandsins í dag. Formenn 7 félaga vildu vísa strax en formenn 11 félaga vildu bíða með það fram yfir áramót.
Einnig var nær einhugur um að hafna alfarið hugmyndum atvinnurekenda um breytingar á vinnutíma. Þær felast m.a. í því að leggja niður kaffitíma og lengja dagvinnutímabilið. Á stjórnarfundi VR á miðvikudaginn voru ekki greidd atkvæði um hvort vísa ætti deilunni til sáttasemjara. Þar var ákveðið að bíða og sjá hver niðurstaða Starfsgreinasambandsins yrði.
Rætt er við Björn Snæbjörnsson, formann Starfsgreinasambandsins í Speglinum.