Á morgun mótmæla gulvestungar í Frakklandi fjórtánda laugardaginn í röð. Ofbeldi og skemmdarverk hafa fylgt mótmælunum og Emmanuel Macron forseti hefur neyðst til að gera grundvallarbreytingar á stefnu sinni og áætlunum. Samskipti Frakka og Ítalíu hafa ekki verið svona slæm frá síðari heimstyrjöld. Gulvestungar eru æði mislitur hópur með óljós og misvísandi markmið. Virðingarleysið sameinar gulvestunga.

Engin mótmæli hafa staðið yfir lengra tímabil í Frakklandi frá stríðslokum. Sjálfir segja gulvestungar reyndar að þetta séu ekki mótmæli heldur uppreisn. Markmiðið er ekki bara að koma Macron frá völdum, heldur afnema stjórnarskrána og fulltrúalýðræðið. Stuðningur almennings er þó takmarkaður og hefur farið dvínandi. Mótmælin hafa að mestu verið friðsamleg en meðal gulvestunga eru líka orðhákar og ofbeldisfullir óeirðaseggir. Í fréttaskýringu Guardian segir að ekki sé einfalt að skilgreina gulvestunga. Öllu ægi þar saman, þar er engin eiginleg forystusveit, sameiginleg markmið eða stefnuskrá. Það geri hreyfinguna bæði heillandi og varhugaverða.

Almenn óánægja og gremja helsta eldsneyti mótmælanna

Kveikjan var andstaða við hækkandi bensínverð en síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Mótmælin beinast að lífskjörum almennt, lélegri þjónustu hins opinbera, aukinni skattheimtu á eldri borgara og afnámi auðlegðarskatts svo dæmi séu tekin. Lækkun hámarkshraða á þjóðvegum síðasta sumar vakti mikla reiði og margir segja það hreinan og kláran landsbyggðarskatt. Óánægjan er ekki síst í úthverfum borga og dreifbýli sem margir telja að haldi í raun uppi hóglífi stórborganna og að lágstétt og millistétt séu skattlögð auðstéttinni til hagsbóta. Hvorugt er rétt segir í Guardian og reyndar þvert á móti. Hins vegar hafi mörgum landsvæðum blætt út á undanförnum árum og áratugum. Eftir situr fólk sem er óánægt með stöðu sína og finnst það hafa verið skilið eftir á köldum klaka. Almenn óánægja og gremja sé helsta eldsneyti mótmælanna. 

Mótmælin fámennari en harðsnúnari

Í fyrstu mótmælunum 17. nóvember mættu 283 þúsund en hefur farið fækkandi síðan. Fjöldinn hefur því aldrei verið mikill en sérstaða þeirra hefur verið að þau hafa verið um allt land. Í hópi mótmælenda er því fólk sem ekki hefur verið sýnilegt áður í sambærilegum aðgerðum og er að auki sérlega áberandi í sínum skærgulu vestum. Friðsöm og tiltölulega fjölmenn mótmæli hafa smám saman orðið fámennari en að mörgu leyti harðsnúnari og ofbeldisfyllri. Þar fer fremst í flokki fólk af ystu vængjum stjórnmála, bæði til hægri og vinstri. Viðbrögð lögreglu hafa að sama skapi orðið harkalegri. Að undanförnu hafa mótmælendur verið um 60 þúsund talsins.

Ósýnilega og óánægða fólkið sýnilegt í gulum vestum

Það er löng hefð fyrir mótmælum í Frakklandi og til þess að ná árangri þurfa menn helst að vera áberandi og beita ofbeldi af einhverju tagi. Mótmælendur hafa yfirleitt verið úr verkalýðsfélögum, bændur, stúdentar eða úr fátækum úthverfum stórborga. Gulvestungar koma vissulega aðallega úr lægri stéttum samfélagsins, fólk sem er ósátt við stöðu sína í samfélaginu. Fólk sem ekki hefur verið áberandi og hefur iðulega kosið yst til hægri eða vinstri eða alls ekki. Ósýnilega en óánægða fólkið varð sýnilegt í sínum gulu vestum. Fólk úr dreifbýli en þó ekki bændur, fólk úr smærri borgum og bæjum, oft illa launað, lífeyrisþegar og aðgerðarsinnar af öllu tagi. 

Macron tákngervingur sjálfumglaða yfirstéttahrokans

Venjulega eru markmið mótmæla alveg skýr og stefnuskráin klár en ekki hjá gulvestungum. Kröfur þeirra eru ýmist til hægri eða vinstri, hærri bætur og ríflegri ellilífeyrir en líka lægri skattar, meiri ríkisafskipti eða minni. Hugmyndafræðin er óljós eða misvísandi og að hluta er hugmyndafræði sem slíkri hafnað. Margir segja að hægri öfgamenn hafi að hluta tekið yfir hreyfinguna en lítið heyrist frá þeim um innflytjendur, íslam, fóstureyðingar, Evrópusambandið eða hjónaband samkynhneigðra. Vanvirðing eða fyrirlitning eru orð sem oft heyrast og margir gulvestungar eru sannfærðir um að bág kjör þeirra megi rekja til græðgi hinna vel stæðu alþjóðasinna í stórborgunum. Guardian segir að það útskýri að mörgu leyti hatrið á Macron. Hann sé tákngervingur hins ríka og gáfaða, sjálfumglaða yfirstéttahrokans sem fari í fínu skólana, ráði öllu og þykist allt vita. 

Vilja beint lýðræði og þjóðaratkvæðagreiðslur

Gulvestungar segjast hafa fengið upp í kok af ástandinu, hingað og ekki lengra segja þeir. Alls kyns þvættingur og flökkusögur fylgja þar með. Ein lífseig saga segir að forsetafrúin fái 550 þúsund evrur eða 75 milljónir króan á ári fyrir að gera ekki neitt. Hið rétta er að hún fær ekki krónu. Fjölmiðlum er ekki treystandi og ómögulegt að vita hvað sé satt og hvað logið segja þeir. Fjölmiðlar hafa orðið mjög fyrir barðinu á skemmdarverkaseggjum úr röðum gulvestunga. Þeir vilja losna við Macron og helst alla stjórnmálastéttina. Í staðinn á að koma beint lýðræði þar sem fjöldinn ræður í þjóðaratkvæðagreiðslum. En það er allur gangur á þessu og sumir gulvestungar hafa gengið til liðs við hefðbundna stjórnmálaflokka í von um að bæta þá eða jafnvel eyðileggja innan frá. Gulvestungar horfa margir til Evrópukosninganna í maí og þar hafa þeir ýmist skipað sér til vinstri eða hægri eða á miðjunni. Það varð reynar að milliríkjadeilu á dögunum þegar Luigi Di Maio, aðstoðarforsætisráðherra Ítalíu og leiðtogi Fimmstjörnuhreyfingarinnar mætti óvænt í úthverfi Parísar til að lýsa yfir stuðningi við eina af þessum hreyfingum. Hann var þar í boði harðsnúins hægrimanns úr röðum gulvestunga. Frakkar kölluðu sendiherra sinn á Ítalíu heim í mótmælaskyni. 

Vinsældir Macrons aukast aftur

Vinsældir forsetans Emmanuels Macron hrundu framan af en eftir því sem mótmælin hafa orðið fámennari og harðsnúnari hafa vinsældir hans aukist verulega. Framboð gulvestunga í Evrópukosningunum heggur líklega skörð í flokkana yst til vinstri og hægri og það gæti komið sér vel fyrir flokk Macrons. Hann hefur brugðist við gagnrýni og veitt fúlgum fjár til ýmissa verkefna. Margir telja hann líka brjóstvörn gegn gulvestungum. Fylgi þeirra hefur dvínað með tímanum en vinsældir Macrons aukist aftur. Einn leiðtogi gulvestunga segir að kröfur þeirra séu ekki flóknar. Fólk vilji einfaldlega vera viðurkennt og virt og metið að verðleikum. Reiðin kraumar undir.