Ýmislegt mætti bæta í starfsumhverfi starfsmanna í hótelþrifum á Íslandi, samkvæmt niðurstöðum könnunar Vinnueftirlitsins sem birt var í gær. 84% þátttakenda voru konur, svarendur eru af 22 þjóðernum og aðeins um 10% þeirra eru Íslendingar. Jóhann Friðrik Friðriksson hjá Vinnueftirlitinu segir að samskipti við yfirmenn og samheldni innan vinnuhóps séu afar mikilvæg þegar bakgrunnurinn er misjafn. Þetta megi oft bæta. Þá sé vinnuskipulagi og vinnuvernd sums staðar ábótavant .

Í gær birti Vinnueftirlitið könnun á starfsumhverfi starfsmanna í hótelþrifum á Íslandi. Um 200 manns tóku þátt og var könnuninni sérstaklega beint að fólki sem sinnir þrifum á hótelum. 

Áætlanir um heilbrigði og öryggi skorti hjá 70% staða

Jóhann Friðrik Friðriksson hjá Vinnueftirlitinu var gestur í Samfélaginu á Rás 1 í dag. Hann segir að á meðal niðurstaðna sé að það vanti upp á vinnuverndarþættina. Hjá rúmlega 70% af þeim stöðum sem eftirlitið heimsótti hafi áætlanir varðandi heilbrigði og öryggi ekki verið í lagi.  

Sem dæmi nefndi hann að til eigi að vera stefna og viðbragðsáætlun varðandi samskipti, forvarnir hvað varðar stoðkerfi og fleira en vitað sé að þessi hópur sé oft í erfiðum vinnuaðstæðum. Einnig þurfi samskipti við yfirmenn á vinnustað að vera í lagi. 

Margt má gera til að auðvelda vinnuna

Þessi hópur starfsfólks er fjölbreyttur og stoppar oft stutt í starfi, að sögn Jóhanns. Samskiptum virðist vera ábótavant og margir nefna álagsþætti eins og að ætlast sé til að fólk vinni af miklum hraða. Hins vegar sé jákvætt að heilsa þessa hóps virðist góð, sem gæti skýrst af því að líf- og starfsaldur er ekki hár.

Jóhann segir að margt megi gera til að auðvelda vinnu við hreingerningar. „Til þess að tryggja að þessir starfsmenn komist yfir það sem ætlast er til af þeim þá þarf annað að koma til, það þarf að tryggja að samskiptin séu góð, upplýsingarnar séu góðar, það sé verið að vinna rétt með efni, tæki og tól séu til staðar, samvinna sé góð. Allt helst þetta í hendur."

Hlusta má á viðtalið við Jóhann í spilaranum hér að ofan.