Forstjóri Hvals hf. fagnar skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um hvalveiðar. Hann telur að veiða ætti meira og af fleiri tegundum. Hvalasérfræðingur segir óvíst að þannig megi stækka fiskistofna.

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands skilaði sjávarútvegsráðherra skýrslu í gær um þjóðhagsleg áhrif hvalveiða. Einn skýrsluhöfunda sagði í fréttum RÚV í gærkvöldi að hvalir éti sjö- til áttfalt magn á við allan fiskafla Íslendinga. Auknar hvalveiðar hefðu jákvæð áhrif á fiskistofna. Í skýrslunni kemur fram að ef hvölum fækkar um 40% leiði það til tugmilljarða aukningar á útflutningsverðmæti Íslendinga á loðnu og þorski á ári.

Ertu sammála því?

„Ég get eiginlega ekki svarað því fyrir víst. Við höfum ekki viljað ganga svona langt í okkar útreikningum. Við teljum að það sé of mikil óvissa til að geta sett tölur á þessa hluti. Hins vegar það sem við höfum gert er að leggja mat á heildarafrán hvala sem er svo notað í skýrslunni til áframhaldandi útreikninga. En það er auðvitað nokkuð löng leið þaðan í frá í að meta áhrifin á fiskistofna. Eflaust eru áhrifn einhver en þetta er mjög flókið, vistkerfi sjávarins við Ísland,“ segir Gísli Arnór Víkingsson, hvalasérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun.

Hvalur hf. veiddi 146 langreyðar í fyrra en kvótinn var 160 dýr. Forstjóri fyrirtækisins fagnar skýrslunni. 

„Já já, þetta er bara í takt við það sem ég reiknaði með. Ég hefði orðið mjög hissa ef hún hefði verið allt öðru vísi,“ segir Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf.

Hafrannsóknastofnun byggir sína veiðiráðgjöf fyrir hval á tillögum Alþjóðahvalveiðiráðsins sem miða að því að minnka hvalastofna í sextíu prósent.

Finnst þér að það ætti að auka við hvalveiðikvóta?

„Nei, ég svo sem er alveg sáttur við það kerfi sem við notum í dag,“ segir Gísli.

„Já, já, það mætti alveg auka þær og þá hefur það áhrif á annað sem menn hafa hag af líka eins og fiskveiðar og þannig,“ segir Kristján.

Í skýrslunni kemur fram að útflutningsverðmæti langreyðar hafi verið ellefu milljarðar króna á síðustu tíu árum. 146 langreyðar voru veiddar í sumar og segir Kristján kjötið hafa verið sent til Japans. Hann segir stjórnsýsluna þar í landi hafi þó gert fyrirtæki erfitt fyrir til að mynda með endurteknum efnagreiningum á hvalkjötinu. 

Japanir sögðu sig nýverið úr Alþjóðahvalveiðiráðinu og hyggjast hefja hvalveiðar. Kristján segir að þær fyrirhuguðu veiðar hafi ekki áhrif á möguleika Hvals hf. til að selja kjöt. Kristján telur að leyfa mætti veiðar á fleiri hvalategundum.

„Við veiddum hér sandreyði á árum áðum sem kemur hér upp að landinu í ágúst, september. Þannig að það væri alveg tilvalið,“ segir Kristján.