Forsætisráðherra vill fá svör við því hvert kolefnisfótspor stórskipahafnar í Finnafirði verður. Hún segir nauðsynlegt að átta sig á umfangi verkefnisins áður en nokkrar ákvarðanir um það verða teknar. Stjórnvöld eiga von á skýrslu um framkvæmdina.
Fulltrúar Langanesbyggðar, Vopnafjarðarhrepps, þýska félagsins Bremenports og verkfræðistofunnar Eflu skrifuðu fyrr í þessum mánuði undir samninga um þróun og uppbyggingu stórskipahafnar í Finnafirði. Markmiðið er að byggja upp alþjóðlega höfn og iðnaðar- og þjónustusvæði sem tengir saman Asíu, austurströnd Bandaríkjanna og Evrópu. Svæðið sem horft er til nær yfir 1.300 hektara.
„Aðkoma stjórnvalda hefur fyrst og fremst verið sú að fylgjast með þeim umræðum sem hafa verið í gangi á milli sveitarfélaganna á svæðinu og þeirra erlendu fyrirtækja sem hafa áhuga á fjárfestingum á þessu svæði,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. „En það er hins vegar mikilvægt fyrir stjórnvöld að fá svör við tilteknum spurningum því allar framkvæmdir á þessu svæði þurfa auðvitað að rýma við til að mynda okkar aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Þannig að það þarf að svara því hvert kolefnisfótspor þessarar framkvæmdar verður. Þarna hefur líka verið rætt um að setja niður alþjóðlega leitar- og björgunarmiðstöð á Norðurslóðum sem hefur lengi verið til umræðu í norrænu samhengi þannig að það er mikilvægt að þetta fari saman við þau áform. Við eigum von á því á næstu vikum að fá skýrslu til umræðu á vettvangi stjórnvalda þar sem farið verður yfir þessi mál með heildstæðum hætti.“
Vilja hafa yfirsýn
Eins og fram hefur komið eru margir landeigendur afar gagnrýnir á verkefnið. Alþjóðleg hafnarstarfsemi með tilheyrandi iðnaði verði allt of mikið inngrip í náttúruna og passi engan veginn við þá búsetu sem er í Finnafirði í dag.
Hvaða aðgerða gætuð þið gripið til ef kolefnisfótsporið verður of mikið?
„Þetta er ekkert sem er að gerast á morgun þannig að þannig að ég held að það sé fyrst og fremst mikilvægt, áður en ákvarðanir eru teknar, að við séum búin að sjá fyrir umfang þessara framkvæmda sem eru fyrirhugaðar. Hver tímaáætlunin er í því og setja okkur niður stefnu um það mál,“ segir Katrín.
Þú hljómar eins og þú sért pínu efins um þessa framkvæmd.
„Eins og ég segi þá er það ekki þannig að þetta mál sé komið á það stig að það sé komið á framkvæmdastig. Það sem stjórnvöld vilja gera er að fylgjast vel með frá upphafi þannig að við höfum yfirsýn yfir málið frá upphafi.“