Einn af um fjörutíu kröfuhöfum WOW air, sem nú hafa tekið flugfélagið yfir, segir að þeir muni taka sinn tíma í að finna fjárfesta að félaginu, annað hvort nýja eða úr eigin hópi. Staðan sé gjörbreytt nú þegar skuldirnar eru farnar. Hann segir framtíð félagsins bjarta og vill að Skúli Mogensen stýri því áfram.
WOW air er nú komið í hendur kröfuhafa, sem gefa eftir fimmtán milljarða kröfur sínar fyrir 49% hlut í félaginu. Öðrum býðst að kaupa 51% hlut á fimm milljarða. Á meðal kröfuhafanna eru þeir sem tóku þátt í skuldabréfaútboði WOW í haust, til dæmis móðurfélag flugþjónustufyrirtækisins Airport Associates á Keflavíkurflugvelli. Sigþór Kristinn Skúlason, forstjóri félagsins, segir að hann telji stöðuna góða.
„Ég get fullyrt það að kröfuhafar og aðrir sem eru núna að leggja vinnu í þetta mundu ekki leggja í þessa vegferð nema þeir mundu meta stöðuna sem svo að fyrirtækið væri komið í rekstrarhæft ástand og langtímahorfur og rekstrarhorfur á fyrirtækinu eru mjög bjartar,“ segir hann.
„Kröfuhafar meta það sem svo: Ókei, við ætlum að leggja í þessa vinnu af því að það eru raunverulegar líkur – verulegar líkur – á að þessir fjármunir náist til baka og vonandi enn meiri,“ segir Sigþór.
Telur að stjórnvöld verði ekki fyrirstaða
Nú mun þessi hópur reyna að fá fimm milljarða í viðbót inn í félagið, ýmist frá nýjum fjárfestum eða úr eigin hópi. Sigþór segir þeim ekki liggja lífið á.
„Það er alltaf verið að reyna að búa til einhverja tímapunkta – að nú sé örlagastund, dagurinn í dag eða á morgun. Nú erum við bara með gjörbreytta stöðu. Það eru sirka fjörutíu fjárfestar sem eru búnir að taka við félaginu og þeir bara taka sinn tíma til að finna bestu lausn til framtíðar.“
Hann segir að stjórnvöld hljóti að gefa þessu verkefni tækifæri og óttast ekki að þau verði þrándur í götu – ekki heldur Isavia, sem WOW skuldar vel á annan milljarð.
„Það er verið að búa til umgjörð til að Isavia fái sína peninga til baka,“ segir hann. „Ég held að Isavia hafi alveg skilning á þessari stöðu og skilji mikilvægi þess, ekki bara fyrir Isavia, heldur bara fyrir Ísland í heild sinni, þjóðarbúið, fyrir ferðaþjónustuna – það er gríðarlega mikilvægt að þessi starfsemi haldi áfram.“
Skúli gert stórkostlega hluti og mikið af mistökum
Allt gamla hlutafé WOW hefur nú verið þurrkað út og Skúli Mogensen er orðinn einn af fjölmörgum hluthöfum félagsins, vegna þess að WOW skuldaði honum pening eins og fleirum. Sigþór vill Skúla áfram í forstjórastjólnum.
„Nú get ég bara talað fyrir mig,“ tekur hann fram. „En ég teldi að það væri mikill akkur í að halda Skúla áfram sem forstjóra. Skúli er búinn að gera stórkostlega hluti. Hann er líka búinn að gera mikið af mistökum en ég held að enginn sé búinn að læra jafnhressilega á þeim og hann,“ segir Sigþór, sem segist ekki hafa tilfinningu fyrir því hver skoðun annarra kröfuhafa – og nú hluthafa – er á því.
„Nei, ég get bara talað fyrir mig. Ég geri mér ekki grein fyrir hvernig það liggur hjá öðrum.“