Löggjafinn ætti að slá skjaldborg í kringum stjórnarmenn í bönkum, segir Guðrún Johnsen sem skipt var út úr stjórn Arion banka degi eftir að hún lagði til rannsókn á sölu bankans á hlut sínum í Bakkavör. Guðrún lagðist ein stjórnarmanna gegn sölunni. Hún sagði í Kastljósi í kvöld að tryggja ætti að stjórnarmenn í bönkum nytu trausts, alla vega út það kjörtímabil sem þeir eru kosnir til.
Bankasýslan telur að íslenska ríkið hafi orðið af 2,6 milljörðum króna við sölu Arion banka á hlut sínum í Bakkavör. Verðmæti hlutarins þrefaldaðist á rúmlega einu og hálfu ári eftir söluna sem tryggði Bakkavararbræðrum stjórn í félaginu.
Guðrún Johnsen var spurð út í uppsögn sína í stjórn í Kastljósi í kvöld. „Það kom mjög flatt upp á mig þar sem ég hafði starfað í stjórn Arion banka í næstum því samfellt átta ár í farsælu starfi. Sérstaklega kom þetta á óvart þar sem ekki voru nema þrír mánuðir þar til aðalfundur félagsins átti að fara fram og það kom auðvitað á óvart að ég nyti ekki trúnaðar í þessa þrjá mánuði.“
Umhugsunarefni fyrir stjórnmálamenn
Guðrún segir að það ætti að vera umhugsunarefni fyrir stjórnmálamenn hvort það þurfi að hnykkja á lögum. „Mér er ekki kunnugt um til dæmis að einhver hafi stigið niður í Danske Bank þessa dagana eða mér er ekki kunnugt um það að stjórnarmenn í kerfismikilvægum fyrirtækjum sem lúta miklu eftirliti og miklum samprófunum af hendi Fjármálaeftirlitsins áður en þeir taka til starfa og meðan á störfum stendur að stjórnarmenn kerfismikilvægra stofnana geti verið settir út fyrir stjórnina með engum fyrirvara, að þeir njóti ekki trúnaðar á því kjörtímabili sem þeir eru kjörnir til að sitja.“
Guðrún sagðist ekki geta svarað spurningu um hvort Fjármálaeftirlitið hefði átt að grípa inn í eða hvort Bankasýslan hefði átt að geta eitthvað, þar sem hún væri bundin trúnaðarskyldu gagnvart bankanum. „Menn geta velt fyrir sér, út frá öllum sjónarmiðum, hvaða hlutverki Fjármálaeftirlitið gegnir. Það er mjög mikilvæg stofnun í okkar samfélagi, sérstaklega er varðar kerfismikilvæg fjármálafyrirtæki sem varða almannahagsmuni. Þar verður að setja mikið púður í góða starfsemi eins og er hjá bönkunum öllum sem eru svona stórir.“
Aðspurð hvort henni hefði fundist stjórnarmenn hafa tekið ákvarðanir með hagsmuni hluthafa að leiðarljósi sagðist Guðrún ekki hafa grun til að segja annað. „Það að sitja í stjórn banka er mjög vanmetið hlutverk. Það tekur mikla orku og þarf mikla þekkingu til að gera það vel. Það þarf langan tíma til að rækja starfið vel. Þess vegna ætti í raun og veru löggjafinn að búa til ákveðna skjaldborg, svo maður noti nú það hugtak, í kringum stjórnarmenn almennt í þessum störfum. Alla vega þannig að þeir njóti trausts út það kjörtímabil sem þeir eru kjörnir til að sitja.“
Tryggði Bakkavararbræðrum yfirráð
Í Kastljósi var einnig rætt við tvo viðskiptablaðamenn sem hafa fjallað um málið.
Hörður Ægisson, ritstjóri Markaðarins viðskiptablaðs Fréttablaðsins, sagði að markaðsaðstæður hefðu batnað og fyrirtækið grynnkað á skuldum sínum eftir söluna. Hann sagði að þessir þættir skýrðu helst verðhækkun Bakkavarar. „En hvort það réttlæti að það hafi hækkað um þrefalt er erfitt að segja til um.“
Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, sagði að salan hefði tryggt Bakkavararbræðrum yfirráð í fyrirtækinu. Nú væru þeir metnir meðal 200 ríkustu manna Bretlandseyja. „Þetta þýddi það að þeir höfðu ansi vel upp úr krafsinu.“
Hörður segir að það hljóti að hafa komið til skoðunar að bíða með söluna og selja í opnu útboði síðar. „Það er engin launung á því að það var búið að vera svona, það er að hægt að lýsa því sem stríðsástandi milli þessara fylkinga. Annars vegar þessa hóps Arion banka og lífeyrissjóðanna og hins vegar Bakkavararbræðranna í þessu.“ Þannig hefðu sumir lífeyrissjóðir ákveðið að selja hlut sinn í Bakkavör 2012 á verði sem var einn fimmti þess sem þó fékkst fyrir söluna þremur árum síðar.