Ríkið verður að draga sig út úr umfangsmiklu eignarhaldi sínu á bönkunum, ætti að selja Íslandsbanka og halda eftir 35-40% hlut í Landsbankanum. Þetta segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. Ekki sé hægt að gera ráð fyrir háum arðgreiðslum til ríkisins um alla framtíð. Bjarni vonast til þess að hægt verði að hefja söluferlið á þessu kjörtímabili. Meirihluti þjóðarinnar er jákvæður gagnvart því að ríkið eigi hlut í bönkunum.
Íslenska ríkið á Íslandsbanka að öllu leyti og rúmlega 98 prósenta hlut í Landsbankanum. Í hvítbók um fjármálakerfið sem var kynnt í desember eru stjórnvöld hvött til að kanna möguleikann á því að selja Íslandsbanka að öllu leyti, og hluta af eignarhlutnum í Landsbankanum.
Í nýlegri könnun Gallup um traust til bankakerfisins kemur hins vegar í ljós að mikill meirihluti almennings er jákvæður gagnvart eignarhaldi ríkisins á bönkunum. 62% sögðust mjög eða frekar jákvæð gagnvart því að íslenska ríkið sé eigandi viðskiptabanka, en aðeins 14% sögðust mjög eða frekar neikvæð gagnvart því.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að ríkisstjórnin vilji leita leiða til að draga úr eignarhaldi ríkisins á fjármálafyrirtækjum.
„Við höfum hins vegar viljað undirbúa þessa umræðu alla mjög vel og nú bíðum við umræðu um hvítbókina í þinginu,“ segir Bjarni. „Og mér finnst rétt að bíða með stórar yfirlýsingar um það nákvæmlega hvað gerist í framhaldinu, þar til umræða um hvítbókina hefur farið fram. Hún hefur nú verið í umsagnarferli, ég sé fyrir mér að nefnd þingsins komi sömuleiðis að því. En til lengri tíma litið hef ég ávallt verið þeirrar skoðunar að ríkið verði að draga sig út úr þessu umfangsmikla eignarhaldi á fjármálafyrirtækjum. Þó ekki væri nema vegna þeirrar áhættu sem í því felst. Og tækifærin eru til þess að draga áfram úr skuldsetningu ríkissjóðs eða færa fjármunina til í önnur verkefni.“
Nú vill forsætisráðherra að ríkið verði áfram ráðandi fjárfestir í Landsbankanum, ertu sammála því?
„Já ég hef sömuleiðis talað fyrir því að ríkið verði aðaleigandinn að Landsbankanum. Við getum rætt hvort það liggur í 35% eða 40%. En að það sé nærtækara að ríkið fari alfarið út úr eignarhaldinu á Íslandsbanka. Mér heyrist að það sé ágætis samstaða um þessa grundvallarsýn. En það skiptir mjög miklu máli að ferlið sé opið, að við gerum þetta með mjög gagnsæjum hætti og að við vöndum okkur bæði í undirbúningnum og söluferlinu. Við erum skammt á veg komin með það, næsta skref er að ræða um hvítbókina.“
„Inn í eilífðina“
Landsbankinn hefur greitt rúma 130 milljarða í arð til ríkisins síðan 2013 og Íslandsbanki hefur greitt samtals 60 milljarða á þeim þremur árum sem bankinn hefur verið í eigu ríkisins.
Nú fær ríkið háar arðgreiðslur frá bönkunum, bara út frá því, borgar sig ekki fyrir ríkið að halda eftir eignarhlut í bönkunum?
„Jú það er eitt af því sem menn verða að horfa til. Það er auðvitað mikið að breytast í bankaumhverfinu þannig að það er ekki við því að búast að arðgreiðslur með þeim hætti sem þær hafa verið fram til þessa haldi bara áfram inn í eilífðina. Enda, ef hægt væri að ganga út frá því, þá myndi það auðvitað stórhækka virði bankanna og myndi endurspeglast í söluandvirðinu, ef menn gætu gengið út frá því sem vísu að hér væri fjármálafyrirtæki sem myndi skila 20-30 milljörðum í arð á ári um alla framtíð. Þá fengju menn það beint út í kaupverðinu.“
Sérðu fyrir þér að eignarhluturinn verði losaður á þessu kjörtímabili?
„Ég vonast sjálfur til þess að við getum hafið þetta ferli með markvissum skrefum á kjörtímabilinu,“ segir Bjarni.