Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands, segir að stytting vinnuvikunnar og krónutöluhækkun byrjunarlauna verði efst á lista í kröfugerð sjúkraliða. Samningar þeirra eru lausir í lok mars. Sandra býst við baráttu um krónutöluhækkun. Rætt var við hana á Morgunvaktinni í morgun.
Sandra segir að stytting vinnuvikunnar yrði mikil kjarabót fyrir stétt sjúkraliða og hækkun launa. „Við erum ekki með prósentutöluhugmyndir en vissulega finnst mér og okkur sem förum fyrir þessum kjaraviðræðum að laun ættu að vera í samræmi við mikilvægi og ábyrgð starfanna. Í mínum huga þarf að leiðrétta launakjör sjúkraliða. Það er ekki viðunandi að sjúkraliði sem er búinn að ljúka námi og er að vinna þetta starf sé á grunnlaunum sem rétt fljóta yfir 300 þúsundin. Í mínum huga er bara skömm að því. Það þarf að laga þetta.“
Byrjunarlaun sjúkraliða séu um 340 þúsund, en það fari eftir stofnunum. Það sé ekki ásættanlegt. Sandra var spurð að því á Morgunvaktinni hversu mikið teldist sanngjarnt. „Ég sé fyrir mér svona 420 þúsund svona fljótt á litið.“
Vonar að ekki verði átök
Sandra talaði um það í viðtalinu að sjúkraliðar hafi lengi talað fyrir styttingu vinnuvikunnar þannig að 80 prósent starf vaktavinnufólks teldist fullt starf. Hugmyndir um styttingu vinnuvikunnar fái nú betri hljómgrunn í samfélaginu. Sandra telur því að viðræður um styttingu vinnuvikunnar gætu gengið ágætlega. „En varðandi krónutöluhækkun held ég að gæti orðið svolítið mikil barátta. Ég vona að það verði ekki átök en ég legg upp með það að við náum að semja. Það er náttúrlega afskaplega slæmt fyrir bæði stéttina og aðra að fara í verkföll og það er alltaf síðasti valkosturinn sem farið er að beita sér fyrir í svona viðræðum. Ég bind bara vonir við það að við náum að semja.“
Sandra skrifaði grein í fagtímarit sjúkraliða nýverið þar sem hún sagði að mönnunarvandi í heilbrigðiskerfinu væri einn stærsti vandi sem íslenskt samfélag standi frammi fyrir. Á Morgunvaktinni greindi hún frá því að hún hefði óskað eftir því að settur yrði á fót samráðsvettvangur um mönnunarmál ef hann væri ekki til staðar. Slíkur vettvangur með Landspítala, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga og heilbrigðisráðuneyti hafi ekki reynst vera til en sé í bígerð. „Núna hefur verið brugðist við þessari beiðni minni og við erum að fara að ræða málin. Það er skref í jákvæða átt. Það er verið að reyna að bregðast við þessu ákalli okkar.“
Hægt er að hlusta á allt viðtalið við Söndru í spilaranum hér fyrir ofan.