Vill fá Tyrkland og Mongólíu í ASEAN

16.05.2017 - 07:57
epa05966231 Chinese President Xi Jinping (R) shakes hands with Philippines President Rodrigo Duterte (L) prior to their bilateral meetingduring the Belt and Road Forum for International Cooperation at the Great Hall of the People in Beijing, China, 15 May
Rodrigo Duterte ásamt Xi Jinping, forseta Kína, í AlÞýðuhöllinni í Peking.  Mynd: EPA  -  Getty Images
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, ætlar að beita sér fyrir því að Tyrkland og Mongólía fái aðild að ASEAN, Samtökum ríkja í Suðaustur-Asíu. Landfræðilega eru bæði ríkin þó nokkuð langt frá þeim heimshluta.

Filippseyingar eru í forsæti samtakanna þetta árið. Duterte sat ráðstefnu í Kína um innviði heimsviðskipta um síðustu helgi. Hann ræddi meðal annars við leiðtoga Tyrklands og Mongólíu og segir að báðir hafi lýst yfir þeim vilja sínum að fá aðild að ASEAN. Þar eru fyrir tíu ríki, sem öll verða að samþykkja að fjölgað verði í samtökunum.

Duterte kvaðst hafa rætt málið við Aung San Suu Kyi, hinn raunverulega leiðtoga Mjanmar, sem hefði spurt hvort hann hefði íhugað landfræðilega legu Tyrklands og Mongólíu. Duterte segist þeirrar skoðunar að löndin séu í réttum heimshluta og eigi því heima í ASEAN.

Tyrkir hafa um árabil reynt að fá aðild að Evrópusambandinu. Mongólía er landlukt milli Rússlands og Kína.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV