Á skjali sem hangir í gistiskýlinu við Lindargötu segir að í skaðaminnkandi tilgangi sé horft framhjá því ef einstaklingar noti salerni gistiskýlisins til að sprauta efnum í æð. Baldur Borgþórsson, varaborgarfulltrúi Miðflokksins, segir þetta sanna að neyslurými séu rekin í skýlinu. Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs, segir það rangtúlkun. Í gistiskýlinu sé einungis unnið eftir skaðaminnkandi aðferð.
Dv.is birti í gær mynd af framangreindu skjali sem hangir í gistiskýlinu. Baldur segir lög vera brotin í rekstri gistiskýlisins við Lindargötu og að þaar séu rekin svokölluð neyslurými þar sem fíklar geti neytt efna án aðkomu heilbrigðisstarfsmanns. Hann hefur óskað eftir aukafundi í borgarráði vegna málsins. DV hefur haft málið til umfjöllunar að undanförnu og . Á dv.is er haft eftir Baldri að hann leggi fram þessi gögn til að sanna mál sitt og sýna svart á hvítu að Heiða hafi farið með rangt mál í viðtali í gær þegar hún þvertók fyrir að neyslurými væru í gistiskýlinu.
Gistiskýlið við Lindargötu er neyðarnæturathvarf fyrir heimilislausa karlmenn með lögheimili í Reykjavík og er rekið af Reykjavíkurborg. Neysla áfengis- eða annarra vímuefna er ekki leyfð í gistiskýlinu en áfengi er geymt fyrir gesti í læstum skáp yfir nótt. Baldur var gestur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í gær. Hann segist hafa farið sjálfur í gistiskýlið og kannað þar aðstæður eftir ábendingu frá starfsmanni. Þar hafi honum orðið ljóst að neyslurými séu rekin í gistiskýlinu þar sem starfsmenn afhendi skjólstæðingum búnað, líkt og hreinar sprautur og gúmmíslöngur, og vísi þeim svo á salernin. Baldur segist óttast um öryggi skjólstæðinga og starfsmanna gistiskýlisins. Ekki sé farið eftir ströngum reglum um hvernig staðið skuli að þjónustu sem þessari þar sem heilbrigðisstarfsmaður sé ekki á staðnum.
Aðstæður sýni fram á þörf á neyslurými
Heiða Björg var gestur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Hún segist hafa skilning á að skjalið hafi verið hengt upp í skýlinu. Þar sé unnið eftir skaðaminnkandi hugmyndafræði og starfsfólk vilji vera til staðar fyrir skjólstæðinga. Hún segir aðstæðurnar endurspegla þörf fyrir neyslurými í Reykjavík.
„Starfsfólkið þarna er kannski svolítið að bregðast við því að þau vita að fólk er að nota og þau segja; ef þú ætlar að gera það segðu mér þá frekar frá því svo ég geti bjargað þér ef eitthvað er að.“
„Ég hef skilning á því að þeir hafi búið þetta til. Þeir eru að reyna að fóta sig í þessum aðstæðum. Ég held að þetta sýni okkur bara fram á að það þarf að opna neyslurými. Það þarf að vera staður þar sem fólk getur komið og fengið aðstoð. Þarna er ekki aðstoð en þarna er ákveðin viðurkenning á því að þú sem átt hvergi heima og ert að sprauta þig, bara láttu okkur vita og við getum þá hjálpað þér ef þú lendir í vanda. Hin leiðin væri þá bara að vísa þeim út, erum við öruggari með það? Væri það betri afgreiðsla hjá Reykjavíkurborg að vísa þeim út?“
Á skjalinu séu ekki leiðbeiningar heldur fyrirbyggjandi reglur um hvernig fólk eigi að bera sig hafi það í hyggju að sprauta sig með efnum í æð inni í skýlinu.
„Þetta eru reglur í rauninni bara um það að hvernig þú umgengst fólk þarna og þetta í rauninni eins og ég sé þetta og eins og ég hef heyrt frá starfsfólki sett fram í þeim kærleika að þau vilja vera til staðar ef eitthvað kemur upp á fyrir þeirra fólk. Við vitum að þau eru að nota vímuefni. Það er hluti af stóra vandanum. Þess vegna er fólkið statt þarna. En við skaðaminnkandi aðferð hún í rauninni gengur út á að við berum virðingu fyrir vali þessa fólks og við viljum standa með þeim. Við útvegum þeim hreinan búnað og við viljum alls ekki jaðarsetja þennan hóp meira en orðið er, “ sagði Heiða Björg í Morgunútvarpinu á Rás 2.