Vill einfalda reglur til að fjölga smáíbúðum

22.02.2017 - 13:44
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þorsteinn Víglundsson félagsmálaráðherra segir að húsnæðisvandinn leysist ekki nema sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu nái saman um aðgerðir. Hann boðar einföldun á regluverki til að fjölga litlum íbúðum.

Þorsteinn talaði á fasteignaráðstefnu í Hörpu í morgun. Hann segir að ráðuneyti þurfi að fara yfir skipulagslöggjöf, byggingarreglugerð og lög sem gilda um gjaldtöku sveitarfélaga af lóðum, og athuga hvað standi mögulega í vegi fyrir því að byggðar séu þær íbúðir sem mest þörf er á, sem séu litlar, hagkvæmar íbúðir fyrir ungt fólk.

Þorsteinn segir að þótt lengi hafi verið mikið ákall um að byggja þurfi litlar íbúðir séu nú byggðar færri slíkar íbúðir en fyrir áratug.

„Ef einingin er alltaf að stækka þá gefur það augaleið að bitinn verður enn erfiðari fyrir fyrstu kaupendur. Til þessa hljótum við að þurfa að horfa. Þannig að við segjum: Stjórnvöld verða að skoða það sem að þeim snýr, og greiða þá leiðina, einfalda regluverkið og umhverfið til þess að tryggja það að það sé hægt að byggja þessar íbúðir.“

Þorsteinn segir að ríkið ætli að taka höndum saman við sveitarfélögin um að tryggja framboð á lóðum. Hann boðar líka lagafrumvarp sem fæli Íbúðalánasjóði að greina stöðuna á húsnæðismarkaðnum.

Hann segir að sveitarfélögin hafi af miklum krafti reynt að mæta eftirspurninni undanfarin misseri, og nú sé að koma aukinn kraftur í markaðinn.

„En við erum enn að glíma við uppsafnaðan vanda, vanda sem við virðumst ekki vera að sjá alveg fram úr ennþá. Það er ekki nægt framboð inn á markaðinn til þess að mæta þessari uppsöfnuðu þörf upp á 2.000-3.000 íbúðir til viðbótar við þá árlegu þörf sem bætist við.“

En verður það hægt með þeim aðgerðum sem ríkið ætlar að ráðast í?

„Ég held að með fyrirsjáanleika, með því að gera þessar áætlanir lengra fram á veginn, þá auðvitað eiga menn auðveldara með að ráðast á þennan vanda. Hann er brýnn, og það er auðvitað ljóst að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu þurfa að taka sameiginlega utan um hann, ná saman um það hvernig þau ætla að mæta þessu. Vandinn leysist ekki öðruvísi.“

 

Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV