Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að vegna smæðar sinnar þoli íslenskt samfélag ekki jafn mikinn ójöfnuð og stórt samfélag. Mikilvægt sé að skattkerfi sé sett saman á réttlátan máta.
Rætt er við Kára í nýjum þætti á RÚV, Ferð til fjár, sem hefur göngu sína sína í kvöld, að loknu Kastljósi.
„Eitt af því sem mér blöskrar er að þegar ég fæ arð af eignum mínum, með því að selja eignir sem ég á, þá greiði ég af því 20 prósent fjármagnstekjuskatt, en konan sem þvær gólfið á skrifstofu mínni með sínar 350 til 400 þúsund krónur á mánuði, borgar 40 prósent tekjuskatt,“ segir Kári. „Hvernig í ósköpunum getur það kallast réttlæti að menn borga minna af tekjum sem þeir hafa af eignum sínum án þess þurfa að standa upp úr stól en þeir þurfa að borga fyrir fyrir það sem þeir vinna fyrir í sveita síns andlits.“
Hann gefur lítið fyrir þau rök að slík breyting yrði úr takti við það sem þekkist annarsstaðar og yrði til þess að auðugir Íslendingar færu úr landi. „Svarið er að flestir þeirra gera það hvort sem er og það er ekki miklu að tapa." Kári segir einnig það sjónarmið vera uppi að eðlilegt væri að setja hámark á hvað menn greiða til samfélagsins svo þeir væru ekki að bera of stóran hluta af byrðinni. „Svarið við því er að það má líka segja að menn hafi fengið of stóran hundraðshluta af þeim arði sem fæst í samfélaginu þannig að það jafnast út. Staðreyndin er hinsvegar sú að það er ákveðinn hundraðshluti fólks í íslensku samfélagi sem hefur mjög miklar tekjur og greiðir af þeim miklu lægri skatt en flest venjulegt fólk. Ég held að þetta sé ekki réttlátt, ég held að þetta sé óskynsamlegt. Í mínu hjarta og huga vekur þetta upp heldur leiðinlegar tilfinningar að það skuli vera búið til kerfi sem er svona óréttlátt.
Hann segir aðspurður að þetta sé ekki spurning um það hvort hann langi til að greiða meiri skatt heldur hvernig samfélagi hann langar til að búa í. „Og kannski guði sé lof fyrir ykkur, þá hef ég afskaplega lítil áhrif á þetta samfélag.“
asrunbi@ruv.is