Þegar foreldrar sjá niðurstöður mælinga, raunveruleikann sem blasir við börnunum þeirra í framtíðinni ef ekkert er að gert, þá átta þeir sig. Þetta segir talmeinafræðingur sem unnið hefur með börnum í leikskólanum Ösp í Breiðholti. Börnin sem útskrifuðust þaðan stóðu áður mörg mjög illa þegar kom að læsi og málskilningi. Nú virðist þetta vera að breytast þökk sé markvissu málörvunarstarfi innan skólans og virkri þátttöku foreldra heima fyrir.

Bara týpískur leikskóli

Um fimmtungur leikskólabarna í Reykjavík er af erlendum uppruna en samsetning hópsins er mjög misjöfn eftir leikskólum, allt frá tíu prósentum upp í rúm 80%. Hlutfallið er hvergi hærra en í leikskólanum Ösp í Fellahverfi í Breiðholti. Þar eru langflest barnanna af erlendum uppruna. Spegillinn fór í heimsókn þangað.

Sólveig Þórarinsdóttir er leikskólastjóri á Ösp. „Leikskólinn Ösp er í Efra-Breiðholti, stendur við Iðufell 16. Hér eru 52 börn yfir daginn. Flest dvelja í átta tíma og lengur, sum alveg upp í níu og hálfan tíma. Við erum með yfir 80% barna af erlendum uppruna en þetta er samt bara svona týpískur leikskóli. Við erum með börn frá tveggja ára upp í að verða sex og þrjár deildir.“ 

Fjölmenningin flæðir bara

Fjölmenning og fjölbreytileiki er liður í starfinu á Ösp og alltumlykjandi, stundum hlusta krakkarnir á kínverskt lag eða lesa pólska bók en það er ekki endilega hluti af einhverju skipulagi, þá eru ekki hengdir upp fánar. „Við reynum bara að hafa þetta meira inni í flæði frekar en að vera að hugsa um að við séum ólík, við erum bara við sjálf og allir fá að njóta sín,“ segir Sólveig. 

Halda bókhald yfir hvort talað hafi verið við börnin

Þegar kemur að málörvun og virku tvítyngi unnið mjög markvisst á Ösp. Börnunum er oft skipt upp í litla hópa þannig að hvert barn fái tækifæri til að tjá sig, starfsfólkið leggur sig fram við að tala mikið við hvert og eitt barn, helst í um tíu mínútur á dag.

„Við nýtum allar stundir til málörvunar, fataklefann, matartímann, hópastarf, útiveru, ferðir í strætó. Erum alltaf að tala um það sem er í umhverfinu,“ segir Sólveig. 

Börn eru mismunandi, sum tala út í eitt, önnur eru hlédræg. Á Ösp tekur starfsfólkið stundum ákveðin börn fyrir og gefur sig sérstaklega að þeim í einhvern tíma. Markmiðið: Að öll börn fái sinn tíma í sviðsljósinu, að það sé talað við öll börn, líka þau sem ekki sækjast sérstaklega eftir athygli - og það er bókhald. „Við höfum verið með lista uppi þar sem við merkjum við hvort það sé búið að tala við alla og þau hafa líka haft teygjur á hendinni sem svo eru færðar yfir á hina þegar búið er að tala við þau. Svo sér maður kannski að það hefur ekkert verið talað við ákveðið barn þann daginn, það er amstur og mikið um að vera svo ég held það sé ótrúlega mikilvægt að hafa þetta markvisst.“

Marglaga íslenska á miðdeild

Á sumum deildum eru einungis börn af erlendum uppruna og íslenskukunnátta þeirra er mismikil. Þannig er þetta á miðdeildinni. Þuríður Óttarsdóttir, aðstoðarskólastjóri, segir að þar þurfi í raun að tala mörg lög af íslensku, allt eftir því hversu mikið hvert barn skilur. 

„Sum eru nýkomin til landsins, önnur búin að vera eitt ár, tvö ár þrjú ár og þá er staða þeirra auðvitað mjög misjöfn. Við þurfum þá að byggja ofan á þá reynslu sem þau hafa, skoða hvaða þarfir þau hafa til að við getum hjálpað þeim sem best,“ segir Þuríður. 

Ekki tabú að tala sitt tungumál í leikskólanum

Það er talið mikilvægt að börn séu um helming vökutíma síns í íslensku málumhverfi þannig að þau nái góðum tökum á tungumálinu. Rannsóknir hafa líka sýnt fram á mikilvægi þess að þau séu fær í sínu móðurmáli, það sé forsenda fyrir því að þau læri önnur. Það má segja að leikskólinn Ösp sé íslenskt málumhverfi en ekki eingöngu, þar má líka tala önnur tungumál. Sólveig útskýrir þetta nánar: „Við bönnum þeim aldrei að tala sitt tungumál því það er ótrúlega mikilvægt að þú sért stoltur af þínum uppruna og þínu tungumáli. Þau eru oft að leika sér á sínu tungumáli og við stoppum það ekki í frjálsum leik en það sem við notum þegar við erum í hópastarfi er að segja: eigum við ekki að tala íslensku núna svo allir skilji? Hvað voruð þið að segja? Viljið þið segja okkur hvað þetta þýðir á pólsku? Við reynum að gera þetta spennandi, ekki þannig að þau megi ekki tala eða að þetta sé eitthvað tabú. Ef þetta er orðið óhemjumikið eða farið að stoppa börnin í að leika við aðra þurfum við að skrá þetta og skoða hvort þetta tengist kvíða eða öðru, það getur verið svo margt.“

Í þessum skólum stóðu börnin verst

Starfsfólk Aspar hefur fengið mikinn stuðning. Síðastliðin tvö ár hafa sérfræðingar utan úr bæ komið mikið að málörvunarstarfinu. Einn þeirra er Bryndís Guðmundsdóttir, talmeinafræðingur, hún er á Ösp alla miðvikudaga og suma fimmtudaga.

„Vorið 2017 kemur Helga Ágústsdóttir að máli við mig og óskar eftir því að ég komi að þessum leikskólum, Ösp og Holti, sem hafa staðið einna verst á þessum sviðum, hvað varðar mál og undirbúningsþætti fyrir læsi. Börnin hafa í raun ekki verið að koma nægilega vel undirbúin inn í grunnskólann og við vitum að snemmtæk íhlutun er mjög mikilvæg. Ég sá strax að þetta væri ærið verkefni og fékk í lið með mér mjög öflugan talmeinafræðing, Tinnu Sigurðardóttur, hjá Tröppu. Við höfum verið að sinna þessu mjög kröftuglega og komið inn með mjög virkum hætti. Það sem við gerðum, og ég held það sé algert einsdæmi, við byrjuðum á því að kortleggja stöðu allra barnanna. Við ætluðum ekki bara að tala um það hvernig þau stóðu heldur kortlögðum við stöðuna, lögðum fyrir þau málþroskapróf í íslensku, höfðum reyndar ekki tækifæri til að meta stöðu þeirra í eigin tungumáli en við lögðum málþroskapróf fyrir öll börnin í skólanum, þriggja ára og eldri. Kortlagningin fleytti okkur áfram þannig að við vissum við hvað var að etja, það voru rúmlega 80% barnanna sem stóðu verulega illa í málþroska. Við höfum verið að vinna með þessa þætti og lagt sérstaklega áherslu á þá þætti sem við vitum að skipta meginmáli gagnvart læsi, bæði því hvernig við lærum að lesa tæknilega, að barn geti umskráð bókstafi yfir í hljóð og svo að byggja á orðaforðanum sem undirbýr þau fyrir að skilja þann texta sem þau ætla svo að lesa í framtíðinni,“ segir Bryndís.  

Byggja upp sama orðaforða í öllum málum

Það er unnið með ákveðinn orðaforða eða þemu. Þessar vikurnar eru börnin til dæmis að læra nöfn vikudaga og mánaða og orð tengd veðri. Þá læra börnin orð eins og rigning, fimmtudagur og febrúar í leikskólanum. Heima taka foreldrarnir við og kenna sambærilegan orðaforða á sínu tungumáli. Sólveig segir mikilvægt að læra tungumálin samhliða, byggja markvisst upp sama orðaforða í báðum málum.

Eigi skilið medalíu

Það er ekki bara unnið með þematengdan orðaforða, það er líka unnið kerfisbundið með hljóð og bókstafi, heima og í skólanum, auk ýmissa málþroskaþátta sem kortlagningin 2017 sýndi að var veruleg þörf á að vinna með hjá börnunum. Bryndís tekur dæmi um mikilvæga stólpa í málþroska barna. „Bara svona lítið dæmi, að vinna með hann og hún, geta greint á milli. Líka að geta áttað sig á grunnhugtökum sem skipta verulega miklu máli, ekki bara til að skilja lesinn texta heldur líka fyrir stærðfræði, tómt, fullt, stór stærri og svo framvegis. Við erum að gera þetta með ýmsum hætti, í spilum og í leik. VIð höfum sett upp málörvunarstundir sem eru mjög markvissar og skipulagðar og þar hefur starfsfólkið staðið sig einstaklega vel, það er varla hægt að lýsa því. Mér finnst það eiga medalíu skilið.“

Skyldumæting á foreldrafund

Á Ösp var haldinn foreldrafundur til að kynna verkefnið fyrir foreldrum, það var skyldumæting, boðið upp á morgunmat og allir sem vildu fengu túlk. Á fundinum var rætt um þátt foreldranna í því að stuðla að virku tvítyngi. Sólveig segir foreldra hafa verið áhugasama enda vilji allir börnunum sínum það besta. Þá hafi þetta verið valdeflandi fyrir marga. „Þau kannski hugsa, ég kann ekki íslensku, hvað get ég gert til að styðja barnið mitt í skólanum en það er bara svo ótrúlega mikilvægt að þau séu hluti af því sem við erum að gera á sinn hátt.“ Foreldrar hafi gríðarlega mikilvægt hlutverk. 

Gengur glettilega vel með Google translate

En hvernig gengur samstarfið við foreldra sem ekki tala allir íslensku og kannski takmarkaða ensku, svona dagsdaglega? „Það gengur nú bara alveg glettilega vel, auðvitað er erfitt ef maður getur ekki bjargað sér neitt á ensku og svona en við getum nýtt Google translate og við getum hringt í neyðartúlk ef eitthvað er sem við þurfum mikilvæg. Svo erum við með inni á vef Reykjavíkurborgar allar helstu tilkynningar á mörgum tungumálum sem við getum þá hengt upp eða sett í hólfið, lús, njálgur, foreldraviðtal, allt þetta. Það er ótrúlega gott að geta nýtt það. Hvað varðar þessi samskipti dagsdaglega finnst mér bara skipta máli að fólki líði vel að maður bjóði alltaf góðan daginn, þó það sé á íslensku og taki vel á móti fólki svo það upplifi ekki að starfsmenn vilji ekki tala við það vegna þess að það talar ekki íslensku.“

Buðu ömmu í konudagskaffi

Börnin eiga ekki að túlka fyrir foreldra sína. Stundum hlaupa þau þó undir bagga, alveg óumbeðin. Þannig útskýrðu börnin á elstu deildinni fyrir ömmu einni, sem fylgdi barnabarni í leikskólann, að henni væri boðið í konudagskaffi. Sólveig hafði þátt gert nokkrar tilraunir til þess. Hún segir að þau eigi mjög auðvelt með að skipta á milli tungumálanna, það komi náttúrulega.

Vanti upp á að árangur sé mældur

Aftur að málörvuninni og sérfræðiteyminu. Bryndís hefur ásamt hinum sérfræðingunum fylgt nemendunum sem útskrifuðust af Ösp og Holti á síðasta ári upp í fyrsta bekk í Fellaskóla. „Hluti af þessu verkefni var að fylgja líka eftir og mæla, það er ekki nóg að segja eitthvað af því maður heldur það. Það eru töfrar í tölum. Það skiptir verulega miklu máli að við mælum og metum það sem við erum að gera því það er auðvitað verið að veita fjármagni í þetta.“Hún telur að það hafi kannski vantað upp á að skólar hafi fylgt málörvunarstarfi eftir með slíkum mælingum.

Fylgja betur fyrirmælum í kennslustofunni

Bryndís segir tölurnar tala sínu máli, árangur barnanna á stöðluðu prófi sem lagt er fyrir fyrstu bekkinga sýni að starfið í leikskólanum sé þegar farið að skila árangri. „Það er verulegur marktækur munur sem sýnir hvað börnin sem fóru inn í Fellaskóla í haust standa marktækt betur en börn síðustu ára sem eru að koma úr þessum skólum hér. Því til viðbótar sögðu kennararnir strax þegar börnin komu inn hvað þetta væri frábær hópur, hann kunni að vinna, hlustaði betur, fylgdi betur fyrirmælum og svo framvegis. Allt þetta byggir á því að maður skilji málið.“

Mestur var árangurinn í stafaþekkingu, áður töldust börnin flest í áhættu við komuna í grunnskóla,  þekktu jafnvel ekki sinn staf. Nú þekktu krakkarnir alla stafi sem voru prófaðir. Málþroskinn mældist líka meiri en áður en þar er þó enn verk að vinna að sögn Bryndísar.

Ekki svampar sem drekka í sig íslensku

Bryndís segir augljóst að það sé ekki hægt að horfa á börn sem svampa og búast við því að þau drekki í sig málið í leikskólanum án markvissrar þjálfunar. Þá segir hún ekki nóg að hefja íhlutun þegar barn er orðið níu eða tíu ára því rannsóknir sýni að tungumálakunnáttu barns, sem byrjar í grunnskóla með slakan orðaforða og nær ekki tökum á lestri, dragist aftur úr á meðan barn sem nær tökum á lestri sé sífellt að bæta við orðaforða sinn. 

Rannsókn Margrétar Pálsdóttur, kennara við Egilsstaðaskóla, sýndi að börn sem flytja hingað stálpuð ná betri tökum á íslensku en þau sem alast hér upp tvítyngd. Margrét skrifaði þetta á það að eldri börnin hefðu sterkan grunn í móðurmáli sínu við komuna til landsins og hafi því átt auðveldara með að læra íslensku.

Sjá einnig: Vond staða barna án kennslu í eigin móðurmáli

Ljóst að foreldrar höfðu áhyggjur

 Bryndís segir þetta benda til þess að það sé pottur brotinn. Þá hafi líklega vantað upp á að fræða foreldra um þeirra mikilvæga þátt í því að stuðla að virku tvítyngi. Hún bendir til dæmis á mikilvægi þess að foreldrar noti sjálftal, það erlýsi því sem þeir eru sjálfir að gera og noti hliðartal, lýsi því sem barnið er að gera, víkki sífellt út orðaforða barnsins og þyngi eftir því sem við á. 

„Það var mjög ljóst hér alveg frá byrjun að foreldrar höfðu líka áhyggjur svo var annar hópur sem var kannski ekki endilega að velta þessu fyrir sér en þegar þeir foreldrar heyra og sjá þessar tölur sem blasa við, raunveruleikann sem blasir við barninu þeirra í framtíðinni sáum við kvikna ljós í augum foreldranna og þeir fóru að átta sig. Við þurfum að gera foreldrum grein fyrir því að þeir bera mikla ábyrgð gagnvart barninu sínu, þeir eru fyrst og fremst þeir aðilar sem þurfa að skila barninu sínu út í heiminn þannig að það sé raunverulegur jöfnuður,“ segir Bryndís en bætir við að skólakerfið þurfi líka að standa sig. 

Vill að þau geti valið sér hvaða framtíðarstarf sem er

 „Við þurfum að taka alla þá einstaklinga sem við berum ábyrgð á og búa þeim það umhverfi að þau geti alltaf glætt og styrkt hæfileika sína og getu. Markmiðið er að þessi hópur sem fer héðan úr skólanum hafi þann grunn að þau geti valið sér það sem þau vilja í framtíðinni, geti valið sér framtíðarstarf, hafi sambærilegan orðaforða og sambærilega hæfni til að ljúka námi þegar grunnskólagöngu lýkur. Við sjáum þetta sem tækifæri til að stuðla að virku tvítyngi þar sem við höfum náð til bæði foreldra og starfsfólks. Það var vissulega verk að vinna og þetta er ekki búið, við höldum áfram og hér verður orðin til þekking sem á að skila sér inn í framtíðina alveg frá leikskóla, við erum ekki að byrja í grunnskóla heldur strax í leikskóla með því að breyta starfinu og  breyta áherslum.“

 

„Það á að spara annars staðar“

Bryndís segir sveitarfélög verja miklum fjármunum til sérkennslu sem skipti máli, en það sé kannski ekki alltaf verið að gera réttu hlutina, þetta sé eins og þegar farið er til læknis, hann þurfi að gefa réttu lyfin. Hún telji sig vera að gefa réttu lyfin á Ösp og Holti, þó hún vilji ekki fara lengra með líkinguna og sjúkdómsvæða tvítyngi barnanna. Tvítyngi- og fjöltyngi sé mikill auður sem gefi þeim aðgang að annarri menningu. Hún segir að það borgi sig alltaf að verja fjármunum til að tryggja ungum börnum gott atlæti og árangurinn láti ekki á sér standa þar sem lögð hafi verið mikil áhersla á þetta. Hún nefnir til dæmis Reykjanesbæ, þar hafi slæmri þróun verið snúið við með samstilltu átaki allra. „Hver króna sem er sett í gott atlæti ungra barna skilar sér í sjö krónum síðar til samfélagsins. Þetta er búið að reikna út, James Heckman, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði sýndi fram á þetta. Þetta helgast af því að barn sem stendur höllum fæti í leikskóla og fær réttan stuðning, við erum að skila til samfélagsins meiri peningum því seinna meir er þetta einstaklingur sem lýkur frekar námi, finnur atvinnu við hæfi, er síður á atvinnuleysisskrá, er síður að nota félagslega kerfið og heilbrigðiskerfið og fer síður í fangelsi. Þegar kemur að atlæti ungra barna á þessu viðkvæma skeiði, leikskólatímabilinu, á ekki að spara, við eigum að spara einhvers staðar annars staðar,“ segir Bryndís.

Hefði ekkert á móti því að fá fleiri fagmenntaða

Starfsfólk Aspar á í samstarfi við aðra skóla í grenndinni, leikskólann Holt og grunnskólann Fellaskóla. Sólveig segir þetta mikilvægt bakland, að geta stutt við og lært hvert af öðru. Þá er hún ánægð með ráðgjöf sem veitt er á vegum borgarinnar og það viðbótarfjármagn sem skólinn fær vegna barna af erlendum uppruna. Hún segir starfsfólkið í skólanum gott og reynslumikið en  að það væri gott að hafa fleira fagmenntað starfsfólk og fleira starfsfólk yfirleitt til að hægt væri að vinna meira með börnunum í smærri hópum. 

„Auðvitað viljum við alltaf gera betur og það sem maður vill alltaf er að þessi börn hafi jöfn tækifæri, að maður sé að stuðla að því að þeim líði vel og þroskist og dafni í samfélaginu, það er náttúrulega bara eilífðarverkefni.