Vilja taka þátt í sameiningarviðræðum

09.05.2017 - 16:09
Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir  -  RÚV
Hópur íbúa í Eyja- og Miklaholtshreppi skorar á sveitarstjórn taka þátt í greiningu vegna sameiningar sveitarfélaga á Snæfellsnesi. Sveitarfélagið hafði ekki hug á að taka þátt í sameiningarviðræðum Stykkishólmsbæjar, Grundarfjarðar og Helgafellssveitar þegar þær hófust.

Vildu að öll sveitarfélög tækju þátt 

Eyja- og Miklaholtshreppur vildi ekki taka þátt í samningaviðræðum sveitarfélaga á norðanverðu Snæfellsnesi vegna þess að Snæfellsbær sýndi því ekki áhuga. Taldi sveitarstjórnin að öll sveitarfélög á Snæfellsnesi þyrftu að taka þátt í þeim ef vænta skyldi árangurs. Skessuhorn greinir frá áskorun íbúanna sem 47 manns undirrituðu en kosningabærir íbúar í sveitarfélaginu eru 84. Áskorunin var tekin fyrir á síðasta hreppsnefndarfundi. Í henni er skorað er á sveitarstjórnina að taka þátt í greiningu á sameiginlegum hagsmunum þeirra sveitarfélaganna sem huga að sameiningu. Minnihluti sveitarstjórnar telur jafnframt að þátttaka sveitarfélagsins í slíkri vinnu hefði varpað skýrara ljósi á kosti og galla sameiningar fyrir Eyja- og Miklaholtshrepp.

Vilja halda borgarafund

Á fundi hreppsnefnar var einnig lögð fram ósk 18 íbúa sveitarfélagsins um að haldinn verði borgarafundur til að ræða samstarf og sameiningu sveitarfélaganna. Meirihluti hreppsnefndar lagði til og samþykkti að ekki yrði tekin afstaða til áskorunarinnar nema að borgarafundi loknum og telur oddviti mikilvægt að gefa öllum íbúum kost á að koma skoðunum sínum á framfæri á borgarafundi. Lagt er til að hann verði haldinn eins fljótt og auðið er.