Stækka þarf friðland að Fjallabaki þannig að það nái til allrar Torfajökulseldstöðvarinnar. Þetta er niðurstaða starfshóps sem umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði. Brýnt sé að ráðast strax í aðgerðir til að styrkja verulega innviði friðlandsins.
Umfangsmikil nýting einstakra og viðkvæmra náttúruauðlinda, einkum í þágu ferðaþjónustu, hefur um áratuga skeið fengið að þróast nokkurn vegin á eigin forsendum innan friðlands að Fjallabaki, án þess að stjórnvöld hafi stýrt þeirri nýtingu að marki, segir í skýrslu starfshópsins. Hópurinn telur brýnt að innviðir friðlandsins verði styrktir þegar í stað.
„Það þarf að styrkja landvörslu kannski fyrst og fremst. Og við teljum að það þurfi að auka þjónustu og leiðbeiningar til fólks til þess líka að það séu virtar reglur friðlandsins og fólk haldi sig á stígum. Það þarf að auka merkingar líka og styrkja vegi,“ segir Sigrún Ágústsdóttir, formaður starfshópsins.
Friðland að Fjallabaki er tæpir fjörutíu og fimm þúsund hektarar og þar liggja margar vinsælar gönguleiðir eins og Laugavegurinn sem liggur milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Starfshópurinn vill að friðlandið verði stækkað þannig að það nái utan um Torfajökulseldstöðina. „Þetta svæði Torfajökulseldstöðin er á yfirlitsskrá UNESCO yfir heimsminjasvæði og á þá möguleika á að verða heimsminjasvæði fyrir Ísland. Þetta er mjög dýrmætt svæði, jarðfræðilega er þetta dýrgripur,“ segir Sigrún.
Friðlandið hefur verið á rauðum list Umhverfisstofnunar vegna bágs ástands göngustíga í og við Landmannalaugar. Sigrún segir að hugsanlega þurfi að stýra umferð um friðlandið til að draga úr álagi. Brýnt sé að bregaðst fljótt við. „Kostnaðarmatið upp á þessar bráðaaðgerðir ef svo má segja er upp á 200 milljónir,“ segir Sigrún.