Ef mótframlag ríkis og sveitarfélaga í lífeyrissjóði opinbera starfsmanna hækka um næstu áramót munu verkalýðsfélög fara fram á sömu hækkun til handa sínum félagsmönnum sem starfa hjá ríki eða sveitarfélögum. Formaður Eflingar vill að tillaga um hækkun lífeyrisaldurs verði dregin til baka.

Nú er ljóst að frumvarp um breytingar á lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna verður ekki afgreitt á þessu þingi. Markmið þess var að jafna  lífeyriskjör milli opinbera starfsmanna og starfsmanna á almenna vinnumarkaðinum og jafnframt að hækka lífeyrisaldur hjá hinu opinbera úr 65 í 67 ár.  Samið hefur verið um að hækka mótframlag atvinnurekanda á almenna markaðinum til jafns við það sem það er hjá ríki og sveitarfélögum. Það gerist í áföngum  en stefnt hefur verið að því að allir sem greiða í lífeyrissjóði sé jafnsettir. Ávinnsla hjá hinu opinbera hefur verið jöfn, 1,9% á ári, en átti samkvæmt frumvarpinu að breytast í aldurstengda eins og á almenna markaðinum. Ríkið ætlaði að rétta opinberu sjóðina af og tryggja að lífeyrissjóðsfélagar bæru ekki skarðan hlut frá borði við breytingarnar. Leggja átti alls 120 milljarða til að í raun að núllstilla sjóðina og jafna lífeyriskjörin á öllum vinnumarkaðinum. 

Félagsmenn Eflingar fái líka hækkun

En málið er í uppnámi vegna þess að frumvarpið verður ekki að lögum á þessu þingi. Lífeyrissjóðir sveitarfélaganna og ríkisins urðu fyrir 1. október að hækka iðgjöldin vegna hallans á sjóðunum. Mótframlag sveitarfélaganna hækkar að óbreyttu úr 12 í 16,8 prósent um áramót og verður með framlagi starfsmanna 20,8% og lífeyrissjóður ríkisstarfsmanna hækkar í 15,1 prósent og heildariðgjaldið verður 19,1. Þessi hækkun gengur ekki í gildi ef lífeyrissjóðsfrumvarpið verður að lögum fyrir áramót. Það verður það ekki á þessu þingi og óvíst hvað ný ríkisstjórn gerir. Til að flækja málið aðeins er ekki talið að milljarðarnir sem leggja átti fram verður ekki í boði eftir áramót.   Um 20 % félagsmanna í Eflingu stéttarfélagi starfa hjá ríki eða sveitarfélögum. Sigurður Bessason formaður félagsins segir að þessir starfsmenn eigi rétt á hærri iðgjöldum ef hið opinbera hækka þau um áramót.

„Við erum með ákvæði í okkar samningum sem tryggja það. Komi til þessara hækkunar sem boðuð er. Þá lít ég svo að það muni koma til sambærilegra hækkana hjá okkar félagsmönnum sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum," segir Sigurður Bessason.

Sumir í 65 árum en aðrir í 70 árum.

Ef hækkun mótframlags sveitarfélaga og ríkis í lífeyrissjóði verður að veruleika er ljóst að launakostnaður mun aukast talsvert og að hækkunin verður þungur baggi. Í öðru frumvarpi, frumvarpi um almannatryggingar er stefnt að því að lífeyrisaldurinn hækki úr 67 árum í 70 ár í áföngum næstu 24 ára. Nú er lagt til að þessari hækkun verði flýtt og 70 ára lífeyrisaldrinum verði náð á 12 árum. Það þýðir að frá áramótum byrjar lífeyrisaldurinn gagnvart almannatryggingum að aukast um 3 mánuði á ári næstu 12 árum. Þetta hugnast ekki verkalýðshreyfingunni í ljósi þess að eftir standa opinberir starfsmenn með 65 ára lífeyrisaldur. Sigurður segir að tillagan hljóti að verða dregin til baka.

„Þetta er ekki leið sem hægt er að fara. Áður var munurinn 65 og 67 ár. Tillagan sem er verið að leggja til og flýtingin að auki þýðir að annar hópurinn verður áfram í 65 árum en hinn í 70 árum," segir Sigurður.

 Jöfnun lífeyrisréttinda og hækkun lífeyrisaldurs tengjast yfirlýstu markmiði aðila á vinnumarkaði að hér verði tekið upp nýtt samningamódel. Samið verði um launahækkanir sem innistæða er fyrir. Spurning er hvort það mál sé nú í uppnámi.

„Ef þetta er að fara með þessum hætti að ekkert samkomulag náist um lífeyrissjóðsmál þá erum við heldur ekki að fara í einhver samtöl um nýtt vinnumarkaðsmódel," segir Sigurður Bessason.