Vilja selja álverið í Straumsvík

06.09.2017 - 19:52
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Rio Tinto Alcan vill selja álverið í Straumsvík. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. Þar var haft eftir Rannveigu Rist, forstjóra álversins, að til skoðunar væri að selja álverið í Straumsvík og hlut sinn í tveimur fyrirtækjum í Svíþjóð að auki, skautaverksmiðju og efnavinnslu. Hún sagði helstu ástæðuna fyrir hugsanlegri sölu vera þá að framleiðslan í Straumsvík væri ólík annarri framleiðslu Rio Tinto og álverið langt frá öðrum fyrirtækjum þess.

Engin ákvörðun hefur þó verið tekin um sölu og mögulegt að Rio Tinto eigi álverið áfram finnist ekki kaupendur, að því er fram kom í fréttinni.

Rannveig fór yfir starfsskilyrði álfyrirtækja á Íslandi á ársfundi Samáls, samtaka álframleiðenda á Íslandi, í vor. Þá sagði hún að samkeppnisskilyrði álfyrirtækja á landsvísu væru ójöfn. Þannig hefðu íslensk álfyrirtæki lagt áherslu á öryggi, umhverfisvernd og aðbúnað og kjör starfsmenna. Hún sagði að slíkt væri ekki alls staðar raunin. Þá sagði Rannveig að það yrði mikil áskorun að óbreyttu að manna íslensku álfyrirtækin í náinni framtíð. Það væri vegna skorts á starfsfólki með iðnmenntun.

Leiðrétt 7. september: Alcoa skoðar sölu tveggja fyrirtækja í Svíþjóð. Þau eru ekki álver eins og sagt var í upphaflegri gerð fréttarinnar.