Ragna B. Garðarsdóttir, dósent í félagssálfræði, segir að það sé aðallega þrennt sem valdi kulnun; ákveðnir eiginleikar einstaklings, vinnustaðar og aukið áreiti af völdum tækni. Rannsóknir sýni að það sé auðveldara að spá fyrir um líkur á kulnun eftir vinnustöðum frekar en einstaklingum. Elva Þöll Grétarsdóttir, sérfræðingur í hjúkrun, segir mikilvægt fyrir stjórnendur að þekkja áhættuþætti og hvenær viðvörunarbjöllur eru farnar að hringja.

Rætt var við Rögnu og Elvu í Samfélaginu á Rás 1 en þær fengu í gær styrk frá Virk - Starfsendurhæfingarsjóði fyrir þróunarverkefni sitt Öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi – Ráðgjöf til vinnuveitenda um forvarnir gegn kulnun starfsmanna.

Ragna segir að ætlunin sé að halda námskeið fyrir stjórnendur og mannauðsstjóra fyrirtækja með fræðslu um afleiðingar langvarandi streitu og hvað geti valdið henni, hvað það sé í eðli vinnustaða sem geti valdið langvarandi streitu sem síðan leiði af sér kulnun. 

Ragna segir að mikið sé talað um það hvernig áhrif tækni á fólk og hvernig eigi að laga einstaklinginn, sem eigi að setja sjálfum sér og öðrum mörk. Lítið hafi verið talað um það hvað vinnustaðurinn geti gert. „Ef við skoðum rannsóknir, þá vitum við það að til þess að spá fyrir um hver er líklegur til þess  að lenda í kulnun þá erum við betur sett með því að giska á vinnustaðinn heldur en að giska á einhverja ákveðna eiginleika einstaklingsins,“ segir Ragna. 

Kulnun það sama og örmögnun 

Elva segir fleiri orð en kulnun séu notuð um sama fyrirbæri, orð eins og til dæmis örmögnun. Þær segja að það orð sé til dæmis notað í Svíþjóð, sem sé komið hvað lengst í rannsóknum á kulnun, sem sé bein þýðing á því sem kallast „burnout“ á ensku. Ragna segir að þarna séu ólík orð fyrir nákvæmlega sama fyrirbæri. „Heilinn er að haga sér á sama hátt og streitukerfi líkamans, nýrnahettur og annað er að haga sér á sama hátt í þessu tvennu.“

Þær voru í Samfélaginu spurðar að því hvort það væri ekki auðveldara að horfa á einstaklinginn til að finna leiðir til úrbóta í stað þess að skoða vinnustaðinn í heild. Elva Þöll segir að í menningunni í heilbrigðiskerfinu hér á landi sé áhersla lögð á og peningum varið í að laga í stað þess að fyrirbyggja. Með fræðslu til stjórnenda megi fyrirbyggja kulnun á vinnustöðum. „Varpa ábyrgðinni frá einstaklingunum og yfir á stjórnendur.“

Umbunarkerfi hvetji til þess að fólk bæti á sig verkefnum

Ragna segir að auðvitað séu til góðir stjórnendur og mannauðsstjórar. „En það eru margir sem eru að misskilja þetta fyrirbæri og hafa kannski lært sína stjórnunarhætti í business-módeli [viðskiptalíkani] þar sem meira er alltaf betra.“
Slíkum stjórnendum sé kennt að setja upp einhvers konar umbunarkerfi á vinnustaðnum til að ýta undir að fólk vinni meira og taki að sér fleiri verkefni og öðlast þannig velgengni á vinnustaðnum.
„Þá þýðir heldur ekki að segja: Þessi kunni ekki að setja sér mörk, hann hefði ekki átt að taka svona mikið að sér. Þegar er verið að setja upp slíkt vinnukerfi þá er það að sjálfsögðu gert til þess að fólk taki meira að sér. Og þetta vita stjórnendur alveg,“ segir Ragna. Stjórnendur þurfi ef til vill að vita meira um mannslíkamann. „Hvað getur hann þolað? Við getum ekki haldið áfram að koma fram við fólk eins og það sé tölvukerfi sem getur fengið eitthvað update [uppfærslu]. Það er ekki í boði. Hins vegar getum við endurstillt okkur eða rebootað með hvíld.“ 

Einstaklingshyggja sé ráðandi hugmyndafræði, þar sem einstaklingurinn er talinn ábyrgur fyrir öllum sínum gjörðum, allri sinni heilsu og svo framvegis. „Og fyrirtæki eru líka kannski svolítið ofurseld þeirri hugmyndafræði á þann hátt að þau gleyma samábyrgðinni, út af því að þau taka því sem sjálfsögðum hlut að einstaklingurinn sé ábyrgur allra sinna gjörða og allrar sinnar heilsu,“ segir Ragna. 

Einstaklingar fái ekki eins gefið í byrjun, eins og konur og minnihlutahópar geti verið til vitnis um. „Þessi einstaklingshyggju hugsun, sem er að ef þú vilt það nógu mikið þá geturðu náð því er bara ekki sönn,“ segir Ragna. 

Mikilvægt að þekkja áhættuþætti og greina viðvörunarbjöllur

Elva segir mikilvægt fyrir stjórnendur að þekkja áhættuþætti og hvenær viðvörunarbjöllur eru farnar að hringja. Eins og til dæmis þegar duglegur og viðmótsþýður starfsmaður byrjar að vera ergilegur og erfiður í samskiptum.

 „Það ætti að vera rautt flagg fyrir stjórnandann sem þarf þá kannski að tala við þennan einstakling. Það eru þekktir þættir í starfsumhverfi sem, ef þú þekkir þá, ættir þú að geta lagað þá.  Eins og óskýr ábyrgð og valdaleysi og óvissa.“ Þetta eigi bæði við um starfið sjálft og umhverfið.

Ragna segir að óvissa um framhald starfsins skipti máli. Sumir vinnustaðir séu háðir fjárlögum og þá geti óvissa um framhald starfsins valdið auknu álagi. Stjórnendur þurfa að passa upp á sitt fólk um leið og boð koma um niðurskurð, óskýr boð um framhaldið, óvissa eða aukaverkefni án fjármagns, segir Ragna. 

Hægt er að hlusta á allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan. Stjórnendur þáttarins eru Leifur Hauksson og Ragnhildur Thorlacius.