Meirihluti heilbrigðisnefndar Alþingis leggur til að velferðarráðherra verði falið að undirbúa lagafrumvarp sem heimili staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Stjórnarandstaðan myndar meirihlutann ásamt einum þingmanni úr hvorum stjórnarflokknum.

Umræða um staðgöngumæðrun varð áberandi í desember, síðastliðnum, þegar fréttir bárust af því að íslensk hjón hefðu fengið indverska konu til að ganga með og ala barn fyrir sig ytra þar sem staðgöngumæðrun er ólögleg á Íslandi. Á svipuðum tíma lögðu 18 þingmenn úr fjórum stærstu flokkunum á Alþingi fram tillögu til þingsályktunar þess efnis að frumvarp sem heimili staðgöngumæðrun yrði undirbúið og lagt fram.

Tillagan fór til heilbrigðisnefndar Alþingis sem fékk fjölmörg sérfræðiálit um málið. Margir álitsgjafar leggjast gegn tillögunni og benda á lagaleg og siðferðisleg álitaefni varðandi þessa þjónustu. Meðal annars álitaefni um tengsl foreldra og barna, umráðarétti kvenna yfir líkama sínum og jafnræði til þjónustunnar. Í áliti siðfræðistofnunar segir auk þess að margt bendi til að ástæða fyrir flýti Alþingis í málinu sé sú að nokkur pör bíði þess að geta nýtt sér úrræðið. Sé það mat þingheims að samfélagið eigi að bregðast við vanda þessara einstaklinga leggur Siðfræðistofnun til að skoðaðar verði aðrar leiðir til þess.

Meirihluti heilbrigðisnefndar styður hins vegar málið en meirihlutann mynda tveir þingmenn Sjálfstæðisflokks, einn þingmaður Framsóknarflokks og einn úr hvorum stjórnarflokknum, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Kristján Möller. Þau beina því til velferðarráðherra að skipa starfshóp sem undirbúi frumvarp sem heimili staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Fjórir þingmenn stjórnarflokkanna leggjast hins vegar gegn málinu og mynda minnihluta, þeirra á meðal formaður nefndarinnar, Þuríður Backman. Minnihlutinn telur ótímabært að semja lagafrumvarp um staðgöngumæðrun og vilja frekari umræðu um málið.