Vilja fara leið Norðmanna gegn hækkunum

23.03.2017 - 06:40
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hagdeild Íbúðalánasjóðs telur að mikil hækkun húsnæðisverðs undanfarið valdi því að full ástæða sé til að horfa til sambærilegra aðgerða og Norðmenn hafa gripið til, í viðleitni til að sporna gegn frekari hækkunum. Norðmenn hafa breytt reglugerð þannig að fólk sem bætir við sig húsnæði í höfuðborginni Ósló, umfram heimili sitt, verði sjálft að leggja fram 40 prósent af kaupverðinu en ekki 30 prósent eins og áður var. Lánshlutfallið lækkar þar með úr 70 prósentum af kaupverði í 60 prósent.

Þetta hafa Norðmenn gert til að sporna við verðhækkunum sem eru mun meiri í Ósló en annars staðar í Noregi. Lánshlutfallið fyrir fyrstu íbúð er eftir sem áður 85 prósent. Hagdeild Íbúðalánasjóðs segir að verðhækkun á íbúðahúsnæði sé í sumum tilfellum meira hérlendis en í Ósló. Þetta gerist á tíma þar sem húsnæðisskortur hafi leitt til hækkandi fasteignaverðs. 

„Að mati hagdeildar Íbúðalánasjóðs er orðin full ástæða til að horfa til sambærilegra aðgerða og Norðmenn hafa gripið til er varðar hækkun hlutfalls eigin fjár við kaup heimila á íbúð númer tvö (eða þrjú o.s.frv.),“ segir á vef Íbúðalánasjóðs. „Slíkar aðgerðir myndu minnka eftirspurnarþrýsting á fasteignamarkaði og skapa aukið rými fyrir fyrstu kaupendur til þess að komast inn á markaðinn þar sem fjársterkir aðilar sem þegar eiga fasteign ættu erfiðara með að eignast fleiri.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV