Vilja fá endurgreitt frá lögreglustjóranum

12.07.2017 - 11:00
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason  -  RÚV
Atvinnuvega-og nýsköpunarráðuneytið hefur komist að þeirri niðurstöðu að Norðurþingi þurfi ekki að greiða Lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra löggæslukostnað upp á 600 þúsund krónur vegna Mærudaga. Byggðarráð Norðurþings vill að sveitarstjórinn kanni hvort Norðurþing geti fengið endurgreiddan löggæslukostnað síðustu ára .

Fram kom í fréttum RÚV í fyrra að Norðurþing hefði ákveðið að kæra ákvörðun lögreglustjórans á Norðurlandi. Sveitarfélagið vildi ekki borga reikning upp á 600 þúsund krónur fyrir tækifærisleyfi vegna Mærudaga.  Fjallabyggð lét reyna á sambærilegt mál vegna Síldarævintýrisins á Siglufirði og hafði þar sigur. Sú hátíð verður ekki haldin í ár, ólíkt Mærudögum sem verða á sínum stað, helgina fyrir verslunarmannahelgi.

Kristján Þór Magnússon, sveitastjóri Norðurþings, segir í samtali við fréttastofu að sveitarfélagið hafi síðustu árin hugsanlega greitt hátt í fjórar milljónir í löggæslukostnað vegna Mærudaga. Nú eigi að kanna rétt sveitarfélagsins hvort hægt sé að fá þá upphæð endurgreidda. 

Kristján segist hafa fullan skilning á stöðu lögreglunnar, hún hafi ekki fjármuni í þetta að dreifa. Það standi hins vegar upp á ríkið að setja einhverjar reglur.  Ekki sé hægt að gera kröfu um einhverja löggæslu sem engir fjármunir séu fyrir.  

Mærudagar hafa verið haldnir helgina fyrir verslunarmannahelgina síðan 1994. „Þetta hefur byggst upp á því að gamlir húsvíkingar snúa aftur og gestir hafa verið á bilinu sex til sjö þúsund manns,“ segir Kristján sem reiknar með að 600 þúsund krónurnar sem nú sparast verði nýttar til að gleðja íbúana. 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV