Hundaræktarfélag Íslands hefur um nokkurt skeið kallað eftir endurskoðun á lengd einangrunar gæludýra sem koma til landsins. Hún er nú fjórar vikur hjá hundum. Formaður félagsins segir að rök sem sett voru fram í grein þriggja vísindamanna sem birt var í veftímaritinu Icelandic Agricultural Sciences ekki standast.
Þar er því er haldið fram að sníkjudýr hafi borist með innfluttum hundum og köttum í íslenska dýrastofna. Erlendur dýralæknir byrjaði í fyrrahaust á áhættumati varðandi einangrun hunda og katta, að beiðni þáverandi landbúnaðarráðherra, og átti matið að vera tilbúið að apríl síðastliðinn en hefur dregist.
Herdís Hallmarsdóttir, formaður Hundaræktarfélags Íslands, segir að félagið bíði eftir niðurstöðu úr matinu og hafi kannað hvernig reglurnar eru í öðrum löndum. „Við vitum að það er mjög viðkvæmt lífríki á Nýja-Sjálandi. Við vitum að það er land sem er mjög líkt Íslandi. Þeim tókst fyrir 6 árum síðan að stytta einangrun niður í 10 daga með með þeim bólusetningum og kröfum um meðferð sem hundar þurfa að undirgangast áður en þeir koma til landins." Rætt var við Herdísi í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.
Að sögn Herdísar fá dýraeigendur á Nýja-Sjálandi að heimsækja dýrin á meðan þau eru í einangrun og að þau vilji láta skoða þann möguleika hér á landi.
„Það sem við viljum er endurskoðun á þessu regluverki,“ segir hún. Síðasta mat sé frá árinu 2003 og margt hafi breyst síðan þá. Sé einangrunarvistun nauðsynleg sé áríðandi að hún sé þannig skipulögð að hún verði sem þægilegust fyrir dýrið.