Stjórnvöld hafa hafnað því að breyta stórhýsi við Urðarhvarf í Kópavogi í hjúkrunarheimili þrátt fyrir að það standi tómt og að forstjóri Hrafnistu telji að mun fljótlegra yrði að breyta því en að smíða nýtt.

Landlæknir benti í vikunni á það í minnisblaði til heilbrigðisráðherra að öryggi sjúklinga á Landspítalanum væri ógnað, meðal annars vegna þess að hjúkrunarrými skorti og því væri ekki hægt að útskrifa eldra fólk af spítalanum.

Samkvæmt áætlun sem heilbrigðisráðherra kynnti í vor á að fjölga hjúkrunarrýmum um 550 á næstu fimm árum – þar af á eftir finna stað fyrir 200 rými á höfuðborgarsvæðinu.

Forsvarsmenn Hrafnistu, í samstarfi við fyrirtækið Heilsuvernd, sem sér um læknisþjónustu á Hrafnistuheimilunum, hafa stungið upp á því við stjórnvöld að breyta tómu stórhýsi uppi við Vatnsenda í hjúkrunarheimili, hver sem muni svo reka það.

Framkvæmdir á húsinu við Urðarhvarf 8 hófust ári fyrir hrun og þremur árum seinna var það risið. Allar götur síðan hefur það hins vegar staðið galtómt og hefur fengið viðurnefnið Kreppuhöllin.

Í minnisblaði sem Hrafnista og Heilsuvernd sendu heilbrigðisráðherra í júlí kemur fram að við Urðarhvarf gætu verið 150 til 175 hjúkrunarrými.

„Kostirnir væru þeir að þetta er mjög vel staðsett á höfuðborgarsvæðinu, það er fallegt útsýni hérna til allra átta,“ segir Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu. „Og jafnframt að þá mundi þetta væntanlega geta tekið miklu styttri tíma í framkvæmdum heldur en að byggja nýtt hjúkrunarrými frá grunni.“

Reynslan sýni að frá því að ákvörðun sé tekin um að reisa nýtt hjúkrunarheimili taki minnst þrjú ár að koma því í gagnið og allt upp í fimm. Innan við tvö ár tæki að breyta Urðarhvarfinu.

En svar frá ráðuneytinu barst um miðjan september. Þar segir: „Við mat ráðuneytisins á fyrirliggjandi gögnum er það niðurstaða ráðuneytisins að óvissuþættir séu það margir að ráðuneytið mun ekki horfa til þess frekar að opna hjúkrunarheimili að Urðarhvarfi.“

„Það kannski þykir okkur svolítið miður því að í rauninni snerist okkar beiðni um það að þar sem við erum vön að hanna hjúkrunarheimili og reka þau, þá væru okkar hugmyndir að fara í það af fullum krafti að leggjast yfir það hvort þetta væri framkvæmanlegt og kostnað og annað slíkt,“ segir Pétur.