Nýr meirihluti í Reykjavík hyggst beita sér fyrir því að 2.500 til 3.000 leigu- og búseturéttaríbúðir fari í uppbyggingu í borginni á næstu þremur til fimm árum. Samstarfssáttmáli Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata var kynntur formlega í rafstöðinni í Elliðaárdal klukkan 16.

Bygging íbúðanna er í samræmi við kosningaloforð Samfylkingarinnar fyrir sveitarstjórnarkosningarnar. Gert er ráð fyrir að íbúðirnar verði blanda stúdentaíbúða, íbúða fyrir fjölskyldur og einstaklinga, fatlað fólk, heimilislausa og eldra fólk. Þá er stefnt að því að húsnæðisstuðningur verði einstaklingsbundinn og taki mið af stöðu þess sem þurfi á honum að halda. 

Nýr borgarstjórnarmeirihluti hyggst samræma og einfalda gjaldskrár. Á meðal breytinga eru systkinaafslættir þvert á skólastig og hækkun frístundakorts um tíu þúsund krónur á næstu tveimur árum. Meirihlutinn ætlar að auka fjármagn til skóla og frístundasviðs á næsta ári um 100 milljónir króna og setja árið 2016 200 milljónir til viðbótar til lækkunar á námsgjöldum í leikskólum.  

Þá segir í samstarfssáttmálanum að það sé vilji nýs meirihluta að auka sveigjanleika og sjálfstæði kennara og skólastjórnenda til að þróa, bæta og auka fjölbreytni í skóla- og frístundastarfi í borginni, í samráði og samstarfi við foreldra og nemendur. Vilji sé til þess að vinna með kennurum að því að gera kennarastarfið eftirsóknarverðara, með tilliti til kjara, starfsþróunar og vinnuumhverfis. Þá sé það vilji nýs meirihluta að gera verk-, tækni- og listgreinum jafnhátt undir höfði og bóklegum greinum og leggja áherslu á læsi í víðum skilningi. 

Í atvinnumálum vill nýr meirihluti bjóða þeim sem þarfnast fjárhagslegrar aðstoðar tækifæri til vinnu, náms, starfsendurhæfingar eða meðferðar. Vinnufærum einstaklingum án atvinnu verði fundin störf í samvinnu við atvinnulífið.