Samtök atvinnulífsins segja að ákvörðun um að aflétta ekki gjaldeyrishöftunum núna feli í raun í sér ákvörðun um að búa við gjaldeyrishöft um langa framtíð. Hagfræðiprófessor segir að Íslendingar séu ekki að missa af lestinni.
27. nóvember verða sex ár liðin síðan höft voru lögð á fjármagnsflutninga í kjölfar hrunsins. Framkvæmdahópur stjórnvalda hefur síðan í júlí unnið með erlendum ráðgjöfum að áætlun um að aflétta þeim.
Seðlabankinn telur að núna séu aðstæður hagstæðar til að aflétta höftum og Samtök atvinnulífsins taka í sama streng og vilja aflétta þeim sem fyrst. Afgangur sé af viðskiptum við útlönd, verðbólga hafi gengið niður, hagvöxtur sé sæmilegur og ríkisfjármál séu í jafnvægi.
„Flest þau atriði sem menn töldu að þyrftu að vera fyrir hendi til þess að hægt væri að ráðast í afnám eru núna fyrir hendi þannig að við teljum mikilvægt að nýta það tækifæri sem er að skapast,“ segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA.
Gylfi Zoëga hagfræðiprófessor telur ekki að Íslendingar séu að missa af lestinni. Hann bendir á að á gullaldarárum í efnahagslífi Vestur-Evrópu, áratugina eftir síðari heimsstyrjöld, hafi fjármagnshöft verið í gildi. Sama megi segja um uppganginn sem hafi orðið á Íslandi frá 2010. „Þessar hagstæðu aðstæður hafa skapast við skilyrði fjármagnshafta,“ segir Gylfi.