Skipuleggjendur mótmælanna á Austurvelli í dag hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem kröfum fundarins um breytingar er komið á framfæri. Þar er krafist afsagnar allra þingmannanna sex sem sagðir eru hafa heyrst tala niðrandi um fólk í upptöku af samtali þeirra á bar í síðustu viku. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, vill ekki veita fréttastofu RÚV viðtal um málið.
Í spilaranum hér að ofan má sjá svipmyndir frá mótmælunum á Austurvelli í dag. Að þeim loknum sendu skipuleggjendur þeirra frá sér yfirlýsingu. Þar er farið fram á að breytingar verði gerðar þannig að hægt verði að reka þingmenn af Alþingi gerist þeir brotlegir við lög eða siðareglur þingmanna. Varamenn taki þá við þeirra þingsætum. Einnig er krafist þess að allir starfsmenn Alþingis fái fræðslu um jafnrétti og einelti. Þá er þess krafist að frumvarp stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá verði tekið upp án tafar.
Einnig er farið fram á tafarlausa rannsókn á lögbrotum og brotum á siðareglum Alþingis. Þar megi nefna drykkju á vinnutíma sem varði við þingskaparlög, hrossakaup um sendiherrastöður, skýr brot á fjölda siðareglna þingmanna.
Nokkur hagsmunasamtök tilgreina einnig kröfur í skjalinu. Í kröfu Öryrkjabandalagsins segir að „Sú fyrirlitning á fólki sem hefur komið fram í orðum tíunda hluta þingheims, sýnir að þingmennirnir eru með öllu ófærir um að gegna trúnaðarstörfum fyrir almenning. Þeir verða að taka pokann sinn. Flóknara er það ekki“.
„Algjörlega óásættanlegt“
Samtökin '78 segia að þingmenn gegni valdastöðu sem bera verði virðingu fyrir. Völdunum fylgi ábyrgð sem meðal annars endurspeglist í siðareglum Alþingis. „Samtökin ´78 vilja því koma því til skila að það er algjörlega óásættanlegt að kjörnir fulltrúar leyfi sér að tala með þeim hætti sem nú hefur verið gert opinbert. Kjörnir fulltrúar sem sumum hefur verið hampað fyrir vinnu sína í þágu jafnréttis. Samtal Alþingismanna á Klaustri lýsir djúpstæðri kvenfyrirlitningu, hinseginfóbíu og fötlunarfordómum sem ekki er hægt að una,“ segir meðal annars í kröfum samtakanna.
NPA miðstöðin skorar á alla kjörna fulltrúa að setja sig betur inn í réttindabaráttu fatlaðs fólks. „Leggja sig fram um að hlusta á okkur, það sem við höfum að segja, virða mannréttindi og mannlega reisn okkar, til jafns við aðra borgara. Alþingisfólk getur unnið traust hjá okkur aftur með verkum sínum“.
Sandra Kristín Jónasdóttir formaður Femínistafélags Háskóla Íslands segir að horfast þurfi í augu við að Ísland sé ekki paradís fyrir konur. „Á útopnu þá heyrum við #heforshe og stuðning við #metoo. En þegar komið er inn í nútímaútgáfu hins reykfyllta bakherbergis þá birtist annar raunveruleiki. Ég vil samt trúa því að þetta sé á undanhaldi. Því það er nefninlega fullt af frábærum karlmönnum sem standa með konum fyrir jafnara samfélagi. Nú þurfið þið íslenskir karlar að standa upp og lýsa því yfir að þessir bakherbergiskarlar tali ekki fyrir ykkur. Þið þurfið að vera tilbúnir að grípa inní þegar þið heyrið svona hluti í raunheimum sem og á netinu.“.
Kvennahreyfingin krefst þess að allir sex þingmennirnir segi af sér og að allir þingmenn fái tíu klukkustunda jafnréttisfræðslu.
Veitir ekki viðtal
Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson, þingmenn Flokks fólksins, voru reknir úr flokknum í gær auk þess sem Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson, þingmenn Miðflokksins ætla að taka sér leyfi frá störfum. Allir voru þeir á meðal þeirra sem sátu að sumbli á Klaustri, þar sem rætt var á niðurlægjandi hátt um fjölmarga þingmenn og fólk úr þjóðlífinu. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins sem einnig var á barnum, vildi ekki veita fréttastofu viðtal um málið þegar eftir því var leitað í dag, og vísaði á Bergþór og Gunnar Braga.
Fréttin hefur verið uppfærð.